Færsluflokkur: Islam, múslimar, Mið-Austurlönd

Austurríkismenn ekki værukærir í málefnum flóttamanna og hælisleitenda

Rík­is­stjórn Aust­ur­rík­is hef­ur varað við því að hún muni jafn­vel grípa til aðgerða til þess að verja landa­mær­in við Ítal­íu og Slóven­íu (mbl.is). Þetta kem­ur í kjölfar þess að þýzka rík­is­stjórnin hyggst leggja höml­ur á komu flótta­fólks til lands­ins. 

Í sam­komu­lag­i um þetta milli Ang­elu Merkel, kanzlara Þýzka­lands, og Horst Seehofer inn­an­rík­is­ráðherra "kem­ur meðal ann­ars fram að eft­ir­lit á landa­mær­um Aust­ur­rík­is verði hert og komið í veg fyr­ir að hæl­is­leit­end­ur sem hafa sótt um hæli í öðrum ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins fái að koma til Þýska­lands (mbl.is).

Og hér eru viðbrögð Austurríkismanna:

Aust­ur­rísk yf­ir­völd segja að þau verði viðbúin því að grípa til svipaðra aðgerða til þess að koma í veg fyr­ir að hæl­is­leit­end­ur geti komið til lands­ins um landa­mæri rík­is­ins í suðri. Með samþykkt þýsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar sé enn einu sinni sýnt fram á mik­il­vægi sam­eig­in­legra varna ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins. 

Kansl­ari Aust­ur­rík­is, Sebastian Kurz, mun í dag kynna fyr­ir Evr­ópuþing­inu í Strass­borg helstu áherslu­mál Aust­ur­rík­is sem fer með for­sæti í ESB næstu sex mánuðina. Er fast­lega gert ráð fyr­ir að þar verði mál­efni hæl­is­leit­enda og flótta­fólks of­ar­lega á baugi (mbl.is).

Hinni fyrstu miklu flóðbylgju flóttamanna og hælisleitenda til Evrópu frá löndum við sunnan- og austanvert Miðjarðarhaf fer nú væntanlega að linna að verulegu leyti, en mörg Evrópulönd (þó ekki Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland) eiga enn eftir að vinna úr sínum miklu viðfangsefnum sem af flóðbylgjunni hafa hlotizt. Vel má vera að hluti lausnarinnar verði sá, að flóttamenn geti snúið aftur til upprunalands síns, hafi friður komizt þar á. En hvað sem gerist í þeim efnum, er ljóst, að svigrúm Vestur-Evrópulanda verður nú meira, ekki minna, til að hjálpa heimilislausu og langþjökuðu fólki á stríðshrjáðum svæðum með fjárhags- og efnislegri neyðarhjálp í löndum þeirra eða í flóttamannabúðum í nálægum löndum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ætla að verja landamæri Austurríkis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarlaust hjal "mannréttindastjóra" SÞ sem þykist geta talað niður til Dana

Það er sagt valda arabískum "mannréttindastjóra" SÞ "hugarangri" að Danir eru að breyta sinni inn­flytj­enda­lög­gjöf þannig, að börn inn­flytj­enda fái kennslu í dönsk­um siðum. Setti þessi Zeid Ra´ad Al Hus­sein fram gagn­rýni sína á nýju lög­in á Twitter-aðgangi mann­rétt­indaráðs Sam­einuðu þjóðanna.

Meðal þess sem lög­in hafa í för með sér er að börn inn­flytj­enda frá eins árs aldri verði tek­in í 25 klukku­stund­ir á viku frá fjöl­skyld­um sín­um og þau skóluð í dönsk­um siðum og gild­um. Slík kennsla felst meðal ann­ars í fræðslu um páska og jól auk dönsku­kennslu. Verði for­eldr­ar barn­anna ekki við fyr­ir­mæl­un­um gætu þau misst rétt sinn til fé­lags­legra greiðslna. (mbl.is)

Mann­rétt­indaráð SÞ telur lög­in "ýta frek­ar und­ir mis­mun­un gegn fólki af er­lend­um upp­runa og jaðar­setja þau frek­ar."

Þvílíkt væl. Danir eiga fullan rétt á því að skipa svo málum með löggjöf sinni, að þegnar landsins venjist á að virða þau gildi sem þar hafa verið við lýði, í stað þess að sér-"kúltúr" múslima fái að þrífast þar, á kostnað þjóðareiningar og þjóðaröryggis.

Arabar hafa lítið að kenna Norðurlandamönnum í varðveizlu mannréttinda, hafa ekki staðið sig svo vel á því sviði hingað til og eiga ekki að fá að fjarstýra danskri löggjöf í gegnum Sameinuðu þjóða-ráð sem þeir hafa óverðskuldað bolað sér inn í í krafti sinna fjölmennu múslimsku ríkja.

JVJ.


mbl.is SÞ gagnrýna dönsku „gettó-lögin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhófleg fjölgun og hryðjuverk múslima í Evrópu stuðla að sundurlyndi, árekstrum og herskárri stefnu andstæðinga

Lítt þekktur öfga­hópur, Acti­on des Forces Operati­onn­ell­es, hvetur Frakka til að berj­ast gegn múslim­um. 10 manns, 32-69 ára, voru hand­tekin í aðgerðum lög­regl­u, grunuð um und­ir­búning árásar­ á múslima og dregin fyrir dómara í gær­kvöldi,

ákærð fyr­ir að leggja á ráðin um hryðju­verk, sam­kvæmt heim­ild­um AFP-frétta­stof­unn­ar. Nokkr­ir úr hópn­um voru einnig ákærðir fyr­ir brot á vopna­lög­um og að hafa haft sprengju­búnað í fór­um sín­um.

Riffl­ar, skamm­byss­ur og heima­til­bún­ar hand­sprengj­ur voru meðal þess sem lög­regl­an lagði hald á í hús­leit­um í Par­ís, á eyj­unni Kors­íku og víðar (mbl.is).

Við slíku má búast af þeim öfgamönnum sem harðastir eru gegn útþenslu múslimskra áhrifa í Frakklandi, en þar eru sennilega yfir 6 milljónir manna af þeim trúflokki.

Það stuðlar ekki að samheldni meðal Evrópuþjóða að taka við í allt of miklum mæli innflytjendum frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, enda eru mörg önnur svæði heims í meiri þörf fyrir aðstoð ríkra Evrópuþjóða. Og hryðjuverk öfga­múslima í Evrópu munu líklega, samkvæmt alkunnu pendúls­lögmáli, ekki einungis gera þjóðirnar meira vakandi gagnvart mistökum sinna eigin stjórnmála­manna og fylgjandi flokkum, sem boða hér varúð og skynsam­lega hóf­semdar­stefnu, heldur einnig ýta undir andstæð öfgaöfl, eins og sýnt hefur sig þarna í Frakklandi. Og þá var illa af stað farið hjá evrópskum stjórnmála­mönnum, ef þeir voru með skamm­sýnum aðgerðum sínum að stuðla að því, að menn fari að láta vopn og sprengjur verða sín ofbeldis­úrræði í stað þess að leggjast á sveif með upplýstri umræðu. En svo einþykkir eru margir vinstri menn og "frjáls­lyndir" í sinni öfga­fullu innflytj­enda­stefnu, að það er varla hægt að koma fyrir þá vitinu lengur. Harðar stað­reyndir, eins og fallandi gengi vinstri flokka í kosn­ingum ýmissa landa og upp­gang­ur t.d. Svíþjóðar­demókrat­anna, sem orðið gætu næst­stærsti flokkur þess lands í haust (viðurkennt í Rúv í hádeginu), gætu hins vegar orðið sú lexía sem þessir skoðana­freku vinstri menn þurfa á að halda.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Undirbjuggu árás gegn múslimum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar áætlun Katrínar Jakobsdóttur og VG um móttöku flóttamanna marga milljarða króna?

Inn­an­rík­is­ráðherra Ítal­íu, Matteo Sal­vini, segir að mót­taka 170.000 „meintra flótta­manna“ hafi kostað Ítali meira en 5 millj­arða evra, um 3,8 milljónir á hvern einstakling.

Vinstri græn stefna á að fá hingað minnst 2.000 kvótaflóttamenn árin 2017-2021 og að gefa hælis­leit­endum hærri réttar­stöðu en þeir hafa haft. Yrði kostn­aður við nýju flótta­menn­ina 2.000 hlut­falls­lega jafn á við það, sem þekkt er frá Ítalíu, yrði hann um sjö og hálfur milljarður króna, en viðbúið er, í hærra verðlagi hér en á Ítalíu, að kostn­aðurinn yrði í raun a.m.k. 10-12 millj­arðar króna; og þetta er viðbót við allt það, sem lagt hefur verið í þessi mál hingað til og enn er verið að borga vegna þeirra sem komnir eru!

Hvar ætlaði Katrín forsætis­ráðherra að hirða upp þessar háu fjárhæðir? Með nýrri skattheimtu? Með skerðingum í heilbrigðis­þjónustu eða á sviði mennta- eða félagsmála? Með því að lækka hin ofteknu laun alþingismanna? laughing Þetta síðastnefnda er náttúr­lega brandari, en fyrri spurning­arnar eru það ekki! surprised

„Ef hinum hroka­fulla for­seta Macron þykir þetta ekki vera vanda­mál, þá bjóðum við hon­um að hætta móðgun­um sín­um og sýna smá-ör­læti með því að opna hinar mörgu hafn­ir Frakk­lands [fyr­ir flótta­mönn­um] og hleypa börn­um, körl­um og kon­um í gegn í Ventimiglia,“ sagði Sal­vini, en Ventimiglia er bær á landa­mær­um Frakk­lands og Ítal­íu. (mbl.is)

Ítölsk stjórnvöld vilja ekki einn einasta flóttamann í viðbót, fremur fækka þeim sem þangað eru komnir með því að senda þá burt.

Kólfurinn í klukkunni slóst alltaf til baka; þetta er pendúls­lögmálið, og nú er sá tími kominn, að "góða fólkið" (sem stóð ekki einu sinni við orð sín um að hýsa flótta­fólk) getur horft upp á hvert Evrópu­landið á fætur öðru snúa við stefnu sinni í flótta­manna­málum. Þetta hefur verið að gerast í Danmörku, einnig í Austurríki og nú á Ítalíu og á næstu vikum í Suður-Þýzkalandi! Jafnvel Angela Merkel er orðin völt á sínum sessi, einmitt vegna ófarsællar ofrausnarstefnu sinnar í þessum málum!

Dettur þá ekki andlitið af "góða fólkinu"?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Sakar Macron um hroka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gyðingahatur meðal múslima í Svíþjóð olli glæp og nú refsidómum

Um þetta má lesa á Mbl.is. Gerendur voru tveir ungir Pal­estínu­menn og Sýr­lend­ingur, og dómar­nir fyrir að kasta benzín­sprengju inn í sýnagógu Gyð­inga í Gauta­borg í des­ember sl. hljóð­uðu upp á 15 mán­uði til tveggja ára. Slíkt Gyð­inga­hatur er einnig þekkt í Frakk­landi og víðar og fórnar­lömbin þónokkur á sein­ustu árum, fólk sem beinlínis var myrt, í París og í Suður-Frakk­landi, vegna þess að það var Gyðingar. Eru franskir Gyð­ingar jafnvel farnir að flytjast til Ísraels vegna erfiðra samskipta við 5-6 milljónir múslima í Frakklandi.

Ekki er boðið upp á það, að úr þessum árásum og ýmsum öðrum glæpum, svo sem kynferð­is­legri áníðslu kvenna, dragi með því að fjölga enn flökku- og farandfólki frá Mið-Austur­löndum og Norður-Afríku. Yfirvöldum ber að fara mjög varlega í þeim efnum og láta ógert að lofa jafnvel meintu flótta­fólki varan­legri búsetu og ríkisborgararétti, því að fyrst þarf a.m.k. að komast reynsla á, að um nýta samborgara verði að ræða, en ekki ótíndan glæpalýð eða þátttakendur í illu athæfi öfga­hreyfinga meðal múslima eða í hatursáróðri gegn Vesturlöndum, samfara því, að reynt er að mjólka þar félagslega kerfið alveg í botn. Beinast liggur við að veita hjálp við flóttamenn til þeirra eigin landa eða nágrannalanda þeirra, með aðstoð við að koma þar upp heimilum, bæta hrein­lætis­aðstöðu, grafa brunna, stuðla að atvinnu­verkefnum o.m.fl. þar sem fjár­munir nýtast margfalt betur en hér í norðlægum hálauna­löndum.

Dómarnir yfir Gautarborgar-piltunum, sem réðust á bænahús Gyðinga, eru í raun of vægir, en saksóknari hafði farið fram á 8 ára fangelsi.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Dæmdir fyrir íkveikju í bænahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hlaðið undir vanþakkláta og jafnvel hættulega hælisleitendur?

Stigahlíð var til skamms tíma ein dýrasta gatan í borginni. Þar þókknaðist yfir­völdum að fá hús til afnota, starf­rækja þar gisti­heim­ili fyr­ir er­lenda rík­is­borg­ara sem óska hér eft­ir alþjóðlegri vernd. Sérsveit lögreglunnar var kölluð þangað í gærkvöldi: "þrír sérsveitarbílar með átta fullbúnum sérsveitarmönnum auk almennra lögreglu­bíla og lögreglu­manna" (mbl.is). Minna dugði ekki til!

Að minnsta kosti einn var hand­tek­inn í hverf­inu. "Að sögn sjón­ar­votta hafði sá hand­tekni verið með stórt eggvopn innan­k­læða" (mbl.is).

Sérsveitarmenn að störfum.
Sér­sveit­ar­menn að störf­um. Ljós­mynd aðsend

Nú þegar hafa hælisleitendur eða flóttamenn framið hér tvö morð. Þykjast stjórn­völd geta treyst því, að flóttamenn sem koma hingað af stríðs­svæðum, einkum karl­menn sem gegnt hafa her­þjón­ustu eða verið meðal uppreisnar­manna, séu æskilegir nýbúar í landinu? Hér er ekki verið að tala um fjölskyldumenn, sem lifa reglusömu lífi, heldur einstaklinga sem hingað koma rótlausir og jafnvel illa áttaðir, óvanir því frelsi sem hér ríkir eða ekki að fullu sáttir við það hverjir gista með þeim í hinu opinbera skjóli.

Eiga Íslendingar jafnvel, þrátt fyrir takmarkaðan fjölda flótta­manna og hælis­leitenda hér enn sem komið er, miðað við stærri lönd Evrópu, eftir að upplifa hér eitthvað af þeim alvarlegu vandamálum sem eru farin að hrjá Norður­landa­þjóðir vegna slíks aðkomufólks, sem og bæði Þjóðverja og Austur­ríkis­menn og Frakka, Hollendinga og Belgja að auki?

Síðan hvenær hefur það talizt óráðlegt að fara varlega að málum?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Sérsveitin kölluð út í Stigahlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna umræðna í sjónvarpssal kvöldið fyrir kosningar til borgarstjórnar

Ef Sigríði Hagalín og Einari Þorsteinssyni var alvara með að múslimar á Íslandi væru "aðeins þúsund hræður", af hverju þögðu þau þá um, að VG vill allt að ÞREFALDA þá tölu þeirra næstu 4 árin?

Vinstri græn eiga sæti í ríkis­stjórn, eru jafnvel með stól for­sætis­ráðherra, en þetta er í stefnuskrá þessa áhrifamikla flokks, þar er það yfirlýst stefna þeirra að við Ís­lend­ingar "eigum að taka á móti umtals­vert fleiri flótta­mönn­um, að lág­marki 500 á ári. Jafna þarf að­stæð­ur hælis­leit­enda og svo­kall­aðra kvóta­flótta­manna," segja þeir líka í stefnuskrá sinni. Þetta þýðir að lágmarki 2.000 nýja flóttamenn árin 2017-2021, á sama tíma og Danir hafa stöðvað slíkan straum, komnir niður í núll-kvóta um óákveðinn tíma. Og þeim hælis­leit­end­um, sem hingað eru komnir, m.a. múslimunum frá Balkanskaga, vilja VG veita sömu aðstæður og kvóta­­flóttamönnum. Píratar vilja enn fleiri flóttamenn hingað en VG.

"Samfylkingin vill byggja upp fjölmenningar­samfélag á Íslandi. Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flótta­mönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi." (Úr stjórnmála­ályktun flokksins, samþykktri á landsfundi 2018.)

Langflestir flóttamenn, sem hingað hafa komið síðustu árin, hafa verið frá múslimalöndum, sem og meirihluti hælisleitenda. Því er hér gert ráð fyrir því, að líkleg afleiðing næstu fjögur árin af stefnu þessara flokka gæti orðið um þreföldun múslima, miðað við tölu hinnar fjölmenningarsinnuðu Sigríðar og Sjálfstæðisflokksmannsins Einars ("þúsund hræður"). 

Samkvæmt vef Hagstofunnar um skráð trúfélög eru þrjú þeirra á vegum múslima:

  • Félag múslima á Íslandi: 547 meðlimir
  • Stofnun múslima á Íslandi: 98 meðlimir
  • Menningarsetur múslima á Íslandi: 406 meðlimir

Samtals: 1.051 meðlimur.

En rétt eins og með önnur trúfélög -- a.m.k. kaþólsku kirkjuna, þar sem undirritaður þekkir bezt til -- þá er fjöldi innflytjenda, sem hefur þá tilteknu trú, alveg utan skráningar trúfélaga hér, því að þeir eru ekki skráðir inn í kirkjuna sjálfkrafa við komu til landsins, þótt verið hafi meðlimir í sömu heimskirkju í föðurlandi sínu. Þetta mun skipta nokkrum þúsundum kaþólskra manna hér á landi.

Með sama hætti er mjög ólíklegt, að allir hingað komnir múslimar séu skráðir í ofangreind þrjú trúfélög.

En öfgaflokkur í þessu máli, um innflutning múslima til Íslands, er ekki Íslenska þjóðfylkingin, heldur Vinstri græn og þar að auki Píratar og Samfylkingin. Til marks um að þetta er augljóst má hafa eftirfarandi í huga:

1) Þá niðurstöðu skoðanakönnunar MMR í maí sl., að aðspurðir sögðu ýmist NÓG KOMIÐ (44,9%) af flóttamönnum eða OF MARGA KOMNA! (25,7%), sjá:

Flóttamannastefnu vinstri flokka hafnað í skoðanakönnun

2) og ennfremur, í viku eldri skoðanakönnun:

2/3 þeirra, sem afstöðu taka í Gallupkönnun, eru andvígir byggingu mosku í Sogamýri

Íslenska þjóðfylkingin á því samleið hér með þorra almennings. Að svo skuli samt hafa æxlazt, að sjónarmið flokks okkar náðu engu verulegu fylgi í nýafstöðnum kosningum, kemur til af mörgu, en meðal annars og ekki sízt af því, hvernig þáttarstjórnendum í nefndum þætti tókst að láta sem sjónarmið formanns flokksins væru út í hött,* ekki sízt með því að ýkja um áhrifin af sáralitlum fjölda múslima hér, og nutu þau þar einnig tilstyrks sumra annarra ræðumanna kvöldsins (á K-, R- og Y-lista) sem veittust að flokknum með rangtúlkun og ásökun um mismunun og jafnvel með lyginni dylgjað um að félagar í ÍÞ séu rasistar. Því fer víðs fjarri, eins og oft hefur komið fram í ályktunum flokksins og hér á þessari vefsíðu. 

Niðurstaða margra áheyrenda hefur e.t.v. verið sú, að þetta væri enn ekki orðið brýnt málefni á Íslandi og að ÍÞ ætti hvort eð væri of lítið fylgi til að koma að manni og því væri atkvæðinu kannski betur varið með "taktískri" kosningu einhvers annars flokks. En stefnumál ÍÞ eru raunar mörg og mikilvæg, ekki hvað sízt í húsnæðis- og samgöngumálum. Framsýn þurfum við líka að vera í innflytjendamálum, m.a. með hliðsjón af vitvana stefnu Vinstri grænna o.s.frv. og ekki hvað sízt með afar slæma reynslu frænda okkar í Skandinavíu í huga.

* Eitt á fr. Sigríður Hagalín Björnsdóttir eftir að benda á, máli sínu til sönnunar í nefndum þætti, þ.e.a.s. að til séu moskur samkynhneigðra og femínista! Samkynja mök eru dauðasök víða meðal múslima, og eitt er víst, að Múhameð sjálfur var bein andstæða alls femínisma! Þarf nokkuð að benda fr. Sigríði á hroðalegar staðreyndir um það mál, veit hún þetta ekki? Það er raunar alls ekki víst -- hún er kannski í sömu sporum og hinir fáfróðu leiðtogar fyrr og síðar í Samfylk­ingunni og VG, Logi Einarsson og Steingrímur J. Sigfússon, sem staðfestu það á kosninga­fundi á Egils­stöðum haustið 2016, að þeir hefðu EKKI lesið bók Hege Storhaug: Þjóðapláguna Íslam (Steingrímur kvaðst þó hafa flett henni á járn­brautar­stöð í Ósló!) og að þeir ætluðu sér EKKI að gera það! Báðir stinga þeir fremur höfði í sandinn en að kynna sér sannleikann. Það er svo sem á þeirra ábyrgð og þeirra flokka, en starfsmenn Ríkis­útvarpsins eiga ekki að komast upp með að fara með fleipur og skrök fyrir framan alþjóð í kosninga­þætti á úrslitastundu.

Jón Valur Jensson.


Um trúfrelsi, moskur, harðlínu-islam og kynþáttahyggju

Spurt er, hvort Íslenska þjóðfylk­ingin virði ekki trú­frelsi.

All­ir hafa trú­frelsi á Ís­landi og mega hafa sín bæna­hús. Mosk­ur eru allt annað og meira. Þar er hið pólit­íska islam í fullri virkni og ætlazt til að sjaría­lögum sé beitt.

Að auki var rangt og ekki samkvæmt lögum lands­ins og reglu­gerðum um trúfélög, að Félagi múslima á Íslandi var gefin lóð á bezta stað, gjalda­laust, milli Suður­lands­brautar og Miklubrautar, en kristnu trúfélagi, sem starfað hefur hér að mannúðar­málum frá lokum 19. aldar, Hjálpræðis­hernum, var NEITAÐ um slíka fría lóð og eftirgjöf gatnagerðar­gjalda, sem múslimarnir fengu þó! Þeir, á 4. hundrað manns, hafa ekkert fjármagn í að reisa mosku af þeirri stærð sem reiknað er með, og vitað er, að Saudi-Arabar, sem leyfa ekki að reistar séu kirkjur í landi sínu, eru áfjáðir í að gefa hingað hundruð milljóna króna (og þegar byrjaðir) til moskubygginga hér. En þar mundi einmitt sá böggull fylgja skamm­rifi, að þeir ætlast til að fá að koma sínum aftur­halds­sömu kenni­mönnum (ímömum) að í viðkomandi moskum --- þetta er mynztrið hjá þeim í Evrópu!

Við viljum engan harðlínu-salafisma hér! Þetta er okkar stefna í ÍÞ, en við erum þó engir rasistar og höfum ekki talað um að útiloka hér fólk af neinum kynþætti, þótt fara þurfi varlega í innflytjenda­málum, nokkuð sem ekki var gert við setningu Útlendinga­laganna 2016. Hér þarf líka sannarlega að huga vel að framtíðinni og komast hjá neikvæðum áhrifum af hugs­anlega of hröðum innflytjenda­straumi á menningu okkar, samfélagshætti og -gildi; dæmin frá Skandinavíu eru ekki til eftir­breytni, og þar stefnir enn í mun meiri fjölgun múslima en annarra, þótt skorður sé verið að reisa við móttöku nýrra flóttamanna. Í Svíþjóð er búizt við að múslimar verði orðnir nær 31% lands­manna eftir 32 ár.

Við í ÍÞ erum andvíg þeirri harðlínu-trúarboðun sem andstæð kann að vera samfélags­gildum okkar sem þjóðar, frelsi okkar og jöfnum rétti manna, hvað þá þegar moskur eru notaðar til að aðgreina múslima sem mest frá "vantrúuðum", þ.m.t. kristnum, og þeir vanvirtir. Stað­reynd er, að í Danmörku, Þýzkalandi og Bretlandi hefur með földum hljóðnema tekizt að koma upp um hatursboðskap kennimanna í moskum gegn kristnum eða vestrænum gildum. Moskum, studdum af harðlínumönnum í Saudi-Arabíu, verður engan veginn líkt við kristnar kirkjur né við friðsamlegt starf annarra trúfélaga. 

Þótt sumir fáfróðir kunni að ímynda sér, að við í ÍÞ gefum okkur, að allir múslimar séu hryðju­verkamenn, þá er það alls ekki svo, þótt sumir þeirra séu það óneitan­lega, eins og sannazt hefur með hörmu­legum hætti víða um lönd á þessari öld. Eðlilega hafa lögreglu- og leyniþjónustu-yfirvöld í viðkomandi löndum þurft að leggja í miklar forvarnir og eftirlit vegna þessara hörmunga, jafnvel með þátttöku herja þeirra í yfirgengilegustu dæmum af fjöldamorðum öfgaislamista, eins og við höfum séð í Frakklandi, á Spáni og Bretlandi.

En Íslenska þjóðfylkingin fordæmir bæði kynþáttahyggju og útlendingahatur, og meiri hluti fjölskyldna flokks­stjórnar­manna í Þjóðfylkingunni, þar á meðal undir­ritaðs, er með erlent blóð í bland og allir meðteknir jafnt. smile

Jón Valur Jensson. Höfundur skipar 4. sæti á framboðs­lista Íslensku þjóðfylk­ingarinnar til borgarstjórnar í kosn­ing­unum nk. laugardag.


mbl.is Ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir mega líta sér nær

Ahmed Abul Gheit, til vinstri, ræðir við utanríksráðherra... Hvenær ætlar Arababandalagið að fara fram á alþjóðlega rannsókn á meintum glæpum flughers Saudi-Arabíu með loftárásum á saklausa, fátæka alþýðu Jemens? Vilji Arababandalagið gera sig gjaldgengt sem álitsgjafa, ef ekki dómbært á siðferði stjórnvalda, gæti það byrjað á þessu grundvallaratriði.

Svo mætti sama bandalag gera þá afstöðu kýrskýra, að héðan í frá verði kristnum heimilt að reisa kirkjur í öllum arabalöndum, en kveða annars upp úr um það álit sitt, að meðan Saudi-Arabía bannar slíkt og gerir það refsivert að eiga Biblíu og jafnvel dauðasök að falla frá islamstrú til kristni, þá ætti sama Saudi-Arabía að hætta að styðja múslimskt trúboð á Vesturlöndum og hlaða undir moskur þar.

JVJ.


mbl.is Arababandalagið krefst rannsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttamannastefnu vinstri flokka hafnað í skoðanakönnun

Þótt vinstri flokkar* vilji bæta við a.m.k. 2.000 flótta­mönn­um til 2021, segir þjóðin ýmist NÓG KOMIÐ! (44,9%) eða OF MARGIR KOMNIR! (25,7%) skv. nýrri skoðana­könn­un MMR. Aukning er mæl­an­leg í þessari and­stöðu frá fyrri könnun fyrir rúmu ári: Þeim, sem telja of marga flótta­menn fá hæli, fjölg­ar um 2%, og þeim, sem telja of fáa flótta­menn fá hæli, fækk­ar um 2% (mbl.is).

Það er yfirlýst stefna Vinstri grænna að við Ís­lend­ingar "eigum að taka á móti umtals­vert fleiri flótta­mönn­um, að lág­marki 500 á ári. Jafna þarf að­stæð­ur hælis­leit­enda og svo­kall­aðra kvóta­flótta­manna," segja þeir líka í stefnuskrá sinni. Þetta þýðir að lágmarki 2.000 nýja flóttamenn árin 2017-2021, á sama tíma og Danir hafa stöðvað slíkan straum, komnir niður í núll-kvóta um óákveðinn tíma. Og þeim hælisleitendum, sem hingað eru komnir, m.a. múslimunum frá Balkanskaga, vilja VG veita sömu aðstæður og kvótaflóttamönnum. Píratar vilja enn fleiri flóttamenn hingað en VG.

"Samfylkingin vill byggja upp fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flóttamönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi." (Úr stjórnmála­ályktun flokksins, samþykktri á landsfundi 2018.)

Ljóst er af öllu, að vinstri flokkarnir eru ekki í takti við vilja meirihluta landsmanna í þessu efni, heldur vilja allir miklu meiri straum flóttamanna og hælisleitenda hingað heldur en vilji almennings stendur til. Einungis 29,4% lands­manna telja of lít­inn fjölda flótta­manna fá hæl­isveit­ingu hér á landi. Fréttamiðillinn mbl.is slær þessu samt upp í fyrirsögn: "Um þriðjungur telur of fáa fá hæli". Er þó munurinn á 33,3% og 29,4% næstum fjögur prósent! Nákvæmara hefði verið að orða þetta þannig: "Innan við þrír af hverjum tíu telja of fáa fá hæli"!

En skyldu þessir vinstri menn nokkurn tímann læra? Það er góð lexía fyrir þá til næsta dags, að í þessu máli er Íslenska þjóðfylkingin miklu nær þjóðarvilja um flóttamannamál heldur en þeirra eigin úreltu vinstri flokkar!

Jón Valur Jensson tók saman. Hann skipar 4. sæti á framboðslista ÍÞ í Reykjavík í vor.


mbl.is Um þriðjungur telur of fáa fá hæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband