Sjálfstæðisflokkurinn kominn í mótsögn við grunn­stefnu sína, ef hann svíkur þjóðina í orku­pakka­málinu

Hann er þá ekki að gæta full­veldis lands­ins og almanna­hags og lýð­ræðis­legs vilja meiri­hlutans -- ekki einu sinni vilja eigin flokks­manna og heldur ekki að fara að sam­þykkt síns eigin lands­fundar 2018! -- hvað þá heldur grunn­stefnu sinni frá 1929!

Á orku­pakka­málinu eru margir fletir. Einn þeirra snertir sérstak­lega lífs­kjör almenn­ings. Hér er þá ekki úr vegi að minna á stefnu Alþýðu­sambands Íslands í málinu. 

ASÍ hafn­ar orku­pakk­anum, m.a. með þessum orð­um:

"Raforka er grunn­þjón­usta og á ekki að mati Alþýðu­sambands Íslands að vera háð markaðs­for­sendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almenn­ings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðs­væðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðs­væðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélags­leg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðs­væðing grunnstoða yfir­leitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.

Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi." (Alþýðu­samband Íslands)

Guðmundur Ingi Kristinsson alþm., mikill málsvari öryrkja og fátækra, benti á það á Alþingi, að ekki aðeins getur rafmagnsverð þrefaldazt í kjölfar pakkans, heldur hefði það, vegna kostnaðar­auka fyrirtækja, margháttuð hliðaráhrif á verðlag á öðrum sviðum, samfélaginu til tjóns. "Við eigum að fresta þessu máli" og hugsa það betur, er hans afstaða.

Dýrtíð á rafmagni mun fara út í verðlagið (rétt eins og 50% hækkun á næturtaxta rafmagns skv. 2. orku­pakkanum leiddi óhjákvæmi­lega til verðhækkunar á brauði og bakkelsi frá bökur­um). Í þetta sinn mun verðskriðan verða svo víðtæk, að það mun hafa verð­hækkunaráhrif á vörum og þjónustu af margs konar tagi og hafa þá bein áhrif á VÍSITÖLUR neyzluverðs og byggingarkostnaðar o.fl., og það sem verst er: STÓRHÆKKA ÞAR MEÐ VERÐTRYGGÐAR SKULDIR HEIMILANNA, sem og afborganir húsnæðislána.

Allt þetta eru Bjarni Ben, Sigurður Ingi, Katrín Jakobs & Co. reiðubúin að leiða yfir landið! Þau eiga fremur að segja af sér, úr því að þau eru hætt að vinna fyrir alþýðu þessa lands. Og hvað afstöðu Sjálf­stæðis­flokksins varðar, sem þrátt fyrir nafnið er leiðandi í orkupakka-ásókninni, þá eiga 15 múlbundnir þing­menn hans ekki að ráða hér meira en mikill meirihluti landsmanna!*

* Þingmenn flokksins eru vissulega 16, en einn þeirra er nú þegar andvígur orkupakkanum og ætlar að sýna það í verki. Heiður sé honum, og mættu sem flestir samþingmenn hans fylgja hans fordæmi.
 
Jón Valur Jensson.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband