Færsluflokkur: Orkumál, virkjanir, stóriðja

Vinstri og ESB-flokkar eru illur leiðarvísir í Orkupakkamáli

Það er ekk­ert að treysta á að vinstri flokk­arnir VG og Píratar þjóni þjóð sinni í orku­pakka­málinu og enn síður ESB-undir­gefin Samfylk­ing eða "Viðreisn" sem fá sig aldrei fullsaddar kvölds og morgna á ESB-tilskip­unum og reglu­gerðum í öll mál.

Annarlegar hvatir hafa Sam­fylking og "Viðreisn" fyrir stuðningi sínum við orkupakkann. Þeim er nefnilega ekki aðeins ósárt um að þjóðin flækist, með stóru tjóni, inn í laganet Evrópusambandsins, heldur sækjast beinlínis eftir því að við gerum það og komumst ekki út þaðan aftur.

Píratar geta sem bezt hætt að þykjast vera hlutlausir í mörgum megin-málum, þeir eru orðnir harla gagnsæir og takast ekki á við mál, þótt þjóðarnauðsyn bjóði. Og þegar menn nefna þá leið að hafa þjóðaratkvæða­greiðslu um málið, þá sjá Píratar það ekki sem lausn í anda sinnar gömlu grunnstefnu, heldur hafna því að leyfa þjóðinni að ráða!

Hjá Vinstri grænum virðist tilgangurinn helga meðalið, sá tilgangur að fá sem lengst aðgang að kjötkötlum valdsins. Og umhverfisráðherra Vinstri grænna er hrein hörmung í öllum þessum aðsteðjandi virkjanamálum.

Já, Vinstri græn virðast alveg hafa gleymt "græna" partinum af stefnu sinni og vilja nú opna möguleikann á risavaxna vindorkugarða, til viðbótar við vatnsorkuver.

Ekki var þeim svo farið árið 2002, þegar verið var að hefja þetta orkupakkahlaup. Þá ræddi Morgunblaðið við Árna Steinar Jóhannsson, fulltrúa VG í iðnaðar­nefnd Alþingis, sem sagði að staða raforkumála í Evrópu væri allt önnur en hér á landi.

"Við í Vinstri­hreyfingunni - grænu framboði lítum svo á að raforku­kerfið hér á landi eigi að vera á félagslegum grunni," segir hann. "Við lítum á það sem eitt af stoðkerfum lands­ins." Aðspurður kveðst hann þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að leita eftir undanþágu frá umræddri tilskipun ESB. (Lbr.jvj).

Þarna sýndi Árni Steinar lofsverða varúð í umfjöllun málsins, og vildi að breytingar á orkumálum okkar skyldu gerast á innlendum forsendum. En mikið hefur ástandinu farið aftur í þessum "vinstri græna" flokki -- þau taka nú þátt í stór­kapítalískri einkavæð­ingar­stefnu Evrópu­sam­band­sins á kostnað íslenzkrar náttúru!

JVJ.


mbl.is Miðflokksmenn „algjörlega óútreiknanlegir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn kominn í mótsögn við grunn­stefnu sína, ef hann svíkur þjóðina í orku­pakka­málinu

Hann er þá ekki að gæta full­veldis lands­ins og almanna­hags og lýð­ræðis­legs vilja meiri­hlutans -- ekki einu sinni vilja eigin flokks­manna og heldur ekki að fara að sam­þykkt síns eigin lands­fundar 2018! -- hvað þá heldur grunn­stefnu sinni frá 1929!

Á orku­pakka­málinu eru margir fletir. Einn þeirra snertir sérstak­lega lífs­kjör almenn­ings. Hér er þá ekki úr vegi að minna á stefnu Alþýðu­sambands Íslands í málinu. 

ASÍ hafn­ar orku­pakk­anum, m.a. með þessum orð­um:

"Raforka er grunn­þjón­usta og á ekki að mati Alþýðu­sambands Íslands að vera háð markaðs­for­sendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almenn­ings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðs­væðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðs­væðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélags­leg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðs­væðing grunnstoða yfir­leitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.

Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi." (Alþýðu­samband Íslands)

Guðmundur Ingi Kristinsson alþm., mikill málsvari öryrkja og fátækra, benti á það á Alþingi, að ekki aðeins getur rafmagnsverð þrefaldazt í kjölfar pakkans, heldur hefði það, vegna kostnaðar­auka fyrirtækja, margháttuð hliðaráhrif á verðlag á öðrum sviðum, samfélaginu til tjóns. "Við eigum að fresta þessu máli" og hugsa það betur, er hans afstaða.

Dýrtíð á rafmagni mun fara út í verðlagið (rétt eins og 50% hækkun á næturtaxta rafmagns skv. 2. orku­pakkanum leiddi óhjákvæmi­lega til verðhækkunar á brauði og bakkelsi frá bökur­um). Í þetta sinn mun verðskriðan verða svo víðtæk, að það mun hafa verð­hækkunaráhrif á vörum og þjónustu af margs konar tagi og hafa þá bein áhrif á VÍSITÖLUR neyzluverðs og byggingarkostnaðar o.fl., og það sem verst er: STÓRHÆKKA ÞAR MEÐ VERÐTRYGGÐAR SKULDIR HEIMILANNA, sem og afborganir húsnæðislána.

Allt þetta eru Bjarni Ben, Sigurður Ingi, Katrín Jakobs & Co. reiðubúin að leiða yfir landið! Þau eiga fremur að segja af sér, úr því að þau eru hætt að vinna fyrir alþýðu þessa lands. Og hvað afstöðu Sjálf­stæðis­flokksins varðar, sem þrátt fyrir nafnið er leiðandi í orkupakka-ásókninni, þá eiga 15 múlbundnir þing­menn hans ekki að ráða hér meira en mikill meirihluti landsmanna!*

* Þingmenn flokksins eru vissulega 16, en einn þeirra er nú þegar andvígur orkupakkanum og ætlar að sýna það í verki. Heiður sé honum, og mættu sem flestir samþingmenn hans fylgja hans fordæmi.
 
Jón Valur Jensson.

Flokksleiðtogar í uppreisn gegn þjóðarvilja og breiðri grasrót eigin flokka. Óformlegir fyrirvarar þeirra munu ekki halda, heldur gera okkur berskjölduð fyrir ásækni auðhringa!

Þetta sýnir sig í orkupakka­mál­inu, sem klár­lega er reynt að keyra í gegn í trássi við meiri­hluta­vilja. ASÍ hafn­ar orku­pakk­anum, m.a. með þessum orð­um:

"Raforka er grunn­þjón­usta og á ekki að mati Alþýðu­sambands Íslands að vera háð markaðs­for­sendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almenn­ings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðs­væðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðs­væðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélags­leg ábyrð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðs­væðing grunnstoða yfir­leitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.

Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi." (Alþýðu­samband Íslands)

Guðmundur Ingi Kristinsson alþm. bendir á, að ekki aðeins getur rafmagnsverð þrefaldazt, heldur hefði það, vegna kostnaðarauka fyrirtækja, margháttuð hliðaráhrif á verðlag á öðrum sviðum, samfélaginu til tjóns. "Við eigum að fresta þessu máli" og hugsa það betur, er hans afstaða.

Það er ekki farið fram á mikið að beina þeim tilmælum til Alþingis að draga afgreislu þessa máls fram á haustið, þegar meðal annars hefur gefizt tóm til að skoða betur afleiðingar þessarar innleiðingar þriðja orkumálabálks ESB.

Ennfremur er ótækt að halda áfram með þetta mál í núverandi mynd án þess að lögspekingar verði að minnsta kosti fengnir til að leggja mat á þá furðulega óvissu "fyrirvara" sem stjórnvöld hafa slengt fram til að réttlæta orkupakkann. En lagalegir fyrirvarar í kjötmálinu (þ.e. þeir skilmálar, að hrátt kjöt mætti aðeins flytja hingað fryst) héldu ekki (eins og Birgir Þórarinsson benti á í þingræðu í dag), þó að þetta hafi verið fyrirvari í lögum, og svo eru sumir þingmenn að tala um að fyrirvarar í greinargerð haldi og gildi í miklu alvarlegra máli!

Raunar er það rétt, að aðeins ein leið er fær í þessu máli til að tryggja stjórnarþingmönnum þau "belti og axlabönd", sem þeir telja sig þurfa á að halda, og þetta er sú leið að fá lögformlega undanþágu samþykkta í sameiginlegu EES-nefndinni. Allt annað býður upp á óvissu og í versta falli dýrkeyptar ófarir íslenzks samfélags.

Íslenska þjóðfylkingin hefur á fundum sínum og á Facebók sinni mótmælt innleiðingu ORKUPAKKA 3 og hvetur landsmenn til að sýna stjórnvöldum hug sinn, hvatti þá m.a. til að mæta á mótmælafundinn á Austurvelli 20. maí sl.

"Seinni sjálfstæðisbarátta Íslands er hafin og er undir landsmönnum komin, framtíð afkomenda okkar er í húfi! HÖFNUM ORKUPAKKA 3."

Merkilegt er, að nánast væri hægt að skipa nýja ríkisstjórn með þeim mörgu fyrrverandi ráðherrum, sem lýst hafa andstöðu sinni við þriðja orkupakkann. Þeir eru Jón Baldvin Hannibalsson, Davíð Oddsson, Guðni Ágústsson, Sighvatur Björgvinsson, Jón Bjarnason, Tómas Ingi Olrich, Hjörleifur Guttormsson og Ögmundur Jónasson (hafi enginn gleymzt úr upptalningunni!). Eins og Þorsteinn Sæmundsson alþm. sagði í þingræðu í dag, "maður skyldi halda," að foringjar flokkanna hlýddu á þessa reyndu menn og ráðagóðu, í stað þess að láta skeika að sköpuðu og ana út í ófæru. 

JVJ.


mbl.is „Bersýnilega málþóf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór Þórðarson afhjúpaður vegna blekkinga gagnvart þjóðinni og þingflokki Sjálfstæðiflokks og vegna hagsmunatengsla

Vesalings vængbrotni Guðlaugur Þór! Grátt er hann leik­inn af snilld­ar­leið­ara Stak­steina í dag, mað­ur­inn ber­hátt­aður vegna gervi­fyrir­vara sinna, sem og Þor­steinn Pálsson vegna glæfra­legs hugs­un­ar­háttar síns.

Nánast allsherjar-þjóðarfylgi er komið í ljós með þjóðar­atkvæða­greiðslu um orku­pakka­málið, sama hvað þau streitast öll við, Þórdís Kolbrún, Guðlaugur Þór, Þorgerður Katrín og hlaupa­strákur hennar Þorsteinn Víg­lundsson, sem öll segja þjóðar­atkvæða­greiðslu af og frá!

Þá virðist Guðlaugur ramm-hagsmuna­tengdur við vatns­orku­ríkar jarðir, eða hver er ekki hagsmunatengdur eiginkonu sinni?! Eða nær það bara til Sigmundar Davíðs, ekki til sjálfstæðis­manna (sem einu sinni hétu því nafni, en þurfa að fara að skipta um nafn, með sína óþjóðhollu forystu).

Skoðið þetta allt og fleira í nær­göng­ulli samantekt undir­rit­aðs: ORKU­PAKKA­MÁLIÐ - engar blekkingar, hagsmuna­tengdi GÞÞ, um "fyrirvara", takk! - og fari í þjóðaratkvæðagreiðslu! 

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Ber vitni um málefnafátækt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlend fyrirtæki eiga ekki að eignast hér heilu firðina og auðmenn ekki hálfu hreppana!

Stórtæk ásælni erlendra auðmanna og fyrirtækja í jarðeignir hér og sjávar­útvegsfyrirtæki á ekki að líðast. Stjórnmála­menn Fjór­flokksins hafa verið sof­andi í þessum málum. Auðugasti Bretinn á hér miklar jarðeignir. Norsk fisk­eldis­fyrirtæki teygja hingað arma sína, með áformum sem gætu stefnt laxa­stofnum hér í hættu, og enn berast fregnir af því (síðast í þessari viku) að sjóeldis­laxar hafi sloppið hér í margar ár. Þessu til viðbótar er svo hættan á því, að þessi norsku fyrirtæki eignist hér heilu firðina!

Stjórnarskráin hefur ákvæði okkur til varnar í þessum málum, í 72. grein, en stjórnvöld þurfa þá líka að vera fús til að beita þeim. Íslenska þjóð­fylkingin er andvíg þeim EES-samningi, sem heimilar ESB-borgurum víðtækar fjárfestingar hér. Og hvorki kínverska ríkið (með lepp að vopni) né aðrir útlendingar eiga að hafa heimild til að kaupa hér upp dýrustu og víðfeðmustu jarðeignir, eins og Bretinn komst upp með á Grímsstöðum og í Vopnafirði og annar (þýzkur auðmaður) í Mýrdal.

Eins ber að tryggja, að íslenzk sjávar­útvegs­fyrirtæki komist aldrei í eigu erlendra stórfyrirtækja.

Enn frekari rök gegn EES-samningnum hafa verið að koma fram síðustu mánuðina og fram á þennan dag! (sjá neðar). Glæsileg hefur barátta Bjarna Jónssonar rafmagns­verkfræðings gegn ACER-málinu verið, í greinum hans í Morgunblaðinu og á Moggabloggi hans, sem og þeirra félaganna í samtökunum Frjálst land. Málið gengur út á að hafna ásælni Evrópusambandsins (með EES-samninginn að vopni) í yfirráð yfir orkunýtingu íslenzkra fallvatna og annarra orkulinda til að eiga færi á að sena rafmagn héðan um sæstreng til Skotlands, en afleiðingin yrði stórhækkun raforku­verðs til íslenzks almennings og fyrir­tækja, jafnvel allt að tvöföldun verðssins. Þessu hafna í raun 80% þjóðar­innar skv. skoðana­könnun (sem Bjarni o.fl. hafa gert grein fyrir), en eins og norskir stjórnmálamenn brugðust í málinu, þá gæti það sama gerzt hér, því að ýmsir hér, bæði embættis- og stjórn­mála­menn, virðast hræddir við að andmæla valda­stéttinni í Brussel og stórveldunum sem standa að Evrópusambandinu.

Nýjasta fréttin er svo sú, að frumvarpið sem liggur fyrir Alþingi um löggjöf um persónuvernd, frumvarp sem felur í sér innleiðingu á Evrópu­löggjöf í þeim málaflokki, gæti orðið íslenzkum sveitarfélögum og stofnunum skeinu­hætt í meira lagi! Heimilt yrði skv. ákvæðum frumvarpsins "að leggja á gífurlega háar stjórnvalds­sektir", og "beiting þeirra myndi sliga mörg sveitar­félög," eins og fram kemur í forsíðu­frétt Morgun­blaðsins í dag (sjá nánar þar í lengri grein Ómars Friðrikssonar blm. á bls. 44). Samkvæmt frumvarpinu "getur Persónu­vernd lagt á stjórn­valds­sektir sem nema allt að 2,4 milljörðum króna eða 4% af veltu, hvort heldur er hærra"! Álagning ofursekta af þessu tagi, t.d. á sveitar­félög, sem "fara með mikið af viðkvæmum persónu­upplýsingum," á sér engin fordæmi gagnvart opinberum aðilum, segir í sömu frétt. Dæmi er þar tekið af Reykja­víkur­borg, þar sem heildar­veltan er 177 milljarðar króna, "og 4% af þeirri upphæð losar sjö milljarða" í stjórn­valds­sekt!!!

Þetta er eitt af fleiri dæmum um að við sem smáþjóð eigum ekkert erindi í þetta Evrópu­samband né að vera háð því um neitt af löggjöf okkar. Annað augljóst dæmi er hið nýja innistæðu­trygg­inga­kerfi ESB, sem gæti orðið Íslendingum mjög þungbært, ef til þess kæmi að bankar yrðu hér gjaldþrota eins og í bankakreppunni 2008. Og samkvæmt umræðu um hugsanlegt ofris markaðarins, er eins gott að taka ekki slíka áhættu á þungbærum álögum vegna óþarfrar ESB-löggjafar. Við eigum að sníða okkur stakk eftir vexti, ekki reisa okkur hurðarás um öxl með lagaákvæðum sem henta kunna stórveldi, en ekki smáríki.

Jón Valur Jensson.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband