Er það hlutverk Háskólans í Reykjavík að ofsækja kennara sína vegna þátttöku þeirra í léttu rabbi í lokuðu rými utan vettvangs skólans?
Er það hlutverk fjölmiðils eins og DV að lauma blaðamanni inn í rabbhóp til að slá því síðar upp sem æsifrétt, að einhver hafi rætt með galsafengnum hætti, meira í gamni en alvöru, um hitt kynið? Birtist í því virðing DV fyrir tjáningarfrelsi manna? Er ekki frelsi manna til "skoðana sinna og sannfæringar" (73. gr. stjórnarskrár Íslands) ein meginforsendan fyrir tilverurétti dagblaða eins og DV og samfélagslegu hlutverki þeirra?
Er ritstjórn þess fjölmiðils hreykin af því að hafa komið því til leiðar, að hálærðum háskólakennara var bolað úr starfi með engum fyrirvara vegna skoðana sinna, sem hann gerði ekkert til að dreifa meðal kennara né nemenda og heldur ekki meðal almennings?
Vill ritstjórn DV upplýsa um það, hve alvarleg brot hún telur menn þurfa að fremja til að verðskulda tafarlausa uppsögn úr starfi? Á dómsvald í slíku máli í háskóla að vera í höndum einnar manneskju eða háskólaráðs? Og skiptir engu við mat á meintum glæp, með hverjum hætti hann var "framinn" -- er t.d. einkahjal manna engu síður refsivert fyrirbæri þar en opinber orð eða gjörðir?
Hæstaréttardómur mun falla í máli Snorra kennara Óskarssonar gegn Akureyrarbæ hinn 1. nóvember n.k., þ.e.a.s. lokaþáttur réttarhalda gegn bæjarstjórninni, sá sem lýtur að bótakröfu hans vegna ólögmætrar uppsagnar hans úr starfi fyrir 6 árum.
Horfir Háskólinn í Reykjavík fram á það með eftirvæntingu að verða dæmdur í tugmilljóna sekt vegna ólögmætrar uppsagnar vinsæls og hæfs og vel máli farins kennara, Kristins Sigurjónssonar?
Hvort stuðlar þetta framferði HR að vaxandi eða minnkandi trausti á skólanum úti í samfélaginu, meðal væntanlegra háskólanema, kennara og stuðningsaðila? Hyggur æðsta ráð skólans, að þessi skyndilega aðför hans að starfsöryggi og lífsviðurværi hins ágæta kennara hvetji fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til að láta meira fé af hendi rakna til skólastarfs Háskólans í Reykjavík?
Og hefur háskólarektor HR ekki hugkvæmzt, að með þessum gjörðum hafi háskólinn brotið gegn ákvæðum 73. greinar stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi? Braut hin fyrirvaralausa uppsögn starfsmannsins ekki þennan lokalið 70. gr. stjórnarskrárinnar að auki: "Hver sá, sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð."
Selur mannauðsstjóri HR sjálfri sér sjálfdæmi sem í senn saksóknara og dómara í máli kennara skólans og hvað þeir kunna að hafa sér til gamanmála úti í bæ?
Munu Bandalag háskólamenntaðra manna (BHM) og BSRB ekki mótmæla þessari ófyrirleitnu árás á starfsréttindi eins af sínum skjólstæðingum?
PS. Er það ekki ótrúlegt að einhver stelpa, sem kallast mannauðsstjóri, geti á nokkrum mínútum rúínerað áratuga kennslustarfi mikilhæfs og vel menntaðs kennara? Takið líka eftir, að hann kaus EKKI að kynna þessar skoðanir, þessi gamanmál öllu heldur, fyrir mér og þér og hverjum sem er, heldur lét orð sín falla í lokuðum hópi. Hann myndi t.d. aldrei tala svona í alvöru á Útvarpi Sögu. Þar þekkja menn hann einmitt sem einn hinn al-málefnalegasta sem þar kemur í þætti, yfirvegaður og jafnan með góð rök á takteinum. Og ég ber fullkomið traust til orða hans um að hann meti konur mikils, enda á hann konu, móður, dóttur eða dætur ...
Um þetta mál Kristins hefur mjög mikil umræða farið fram á Facebókar-þráðum í dag og fram á nótt, enfremur að nokkru á Útvarpi Sögu, en þar var einmitt Snorri Óskarsson í viðtali á 5. tímanum í dag, sjá hér: Var vísað úr starfi í miðri kennslustund, í stuttri frétt og svo hljóðskrá þar sem hlusta má á allt viðtalið.
Almennt hefur straumurinn verið með Kristni í Facebókar-umræðu málsins og sitthvað vel sagt. Tökum t.d. með þessa tilvitnun í Guðmund Pálsson lækni:
Hann ætti að fara í mál og sjá hvernig reiðir af. Kona sem hefði sagt svona á "karlastað" með karlforstjóra (eða mannauðsstjóra) hefði aldrei verið rekin fyrir að segja "að hún vilji helst ekki vinna með körlum". Ég held engum hefði dottið í hug að reka konu fyrir svo ágætleg og persónuleg orð. Menn hefðu gantast svolítið með þetta um stund og reynt að dekra hana upp og gera ánægða, málið búið.
Þetta er bara klaufaskapur og húmorsleysi, hún kann sig ekki manneskjan.
Og Sigurður Þórðarson í Ginseng, stýrimannslærður, var með góða ábendingu:
Kristinn sendur á atvinnuleysisbætur eftir 19 ára farsælan feril við Háskólann í Reykjavík. Hildur Lilliendahl sem haft hefur uppi svo svívirðileg ummæli um karlmenn á netinu að þau eru alls ekki eftir hafandi hefur hlotið starfsframa hjá Reykjavíkurborg, verkefnastjóri á sviði jafnréttismála.
Og Olafur Isleifsson bætir við: Maður hefur oft heyrt konur segja verri hluti um karla.
Jón Valur Jensson.