Færsluflokkur: Innflytjendamál

Víst tengjast hryðjuverk múslimatrú ...

þótt einhverjir í Rabat í Mar­okkó lýsi þessu yfir: "hryðju­verk tengj­ast ekki trú eða þjóð­erni."

Saman­burður við kristni gerir þetta aug­ljóst. Skóla­árás­ir í Banda­ríkj­unum eða öfga­manns­ins Timo­thys McVeigh (Oklahoma-fjölda­morð­ingjans) eða naz­istans Breiviks komu ekki til af kristn­um hvöt­um eða tilgangi né voru sprottin úr kristnum trúar­samtökum.

Einu hryðju­verk krist­inna manna virðast bundin við varnar­aðgerðir gegn skæðum hryðju­verka­árásum múslima­samtaka (al-Shabab og Boko Haram), einkum í Súdan og Nígeríu. Helzta undan­tekning frá þessu er Júgóslavía á 10. áratug liðinnar aldar, þar áður Norður-Írland. En í fyrra tilfell­inu var einkum um valda­bar­áttu ólíkra og þó áður tengdra þjóð­erna í upp­lausnar­ástandi Júgóslavíu að ræða, með tilheyrandi þjóðernis­ofstæki og þjóð­ernis­hreins­unum (ethnic cleansing), í því síðar­nefnda hagsmuna­árekstra og ríg milli ráð­ríkra, olnboga­frekra mótmælenda annars vegar og hins vegar sjálf­stæðis­sinnaðra, verr settra kaþólikka.  

Að ódæðisverkum Breiviks frátöldum eru hryðjuverk í Evrópu á þessari öld að lang­mestu leyti verk múslimskra öfgamanna. Mann­skæðust hafa þau verið í Rússlandi, Frakk­landi, Bretlandi og á Spáni, ef talað er um okkar álfu, en margfalt algengari hafa þau þó verið í Mið-Austurlöndum og allt austur til Indlands og SA-Asíu, sem og Afríku allvíða (Kenýa, Nígeríu, Súdan, Túnis, Egyptalands, Sómalíu o.fl. landa). Iðulega tengjast þau beinum áhrifum frá heit­trúar­starfi í moskum og trúarskólum og snúast mjög oft um ofstæki súnní-múslima og sjíta-múslima hvorra í annarra garð, en í Afganistan, Írak og Sýrlandi koma fleiri við sögu og kristnir menn, Kúrdar og jasídar ein helztu fórnar­lömb­in, í þúsunda tali. Gleymum svo ekki hryðju­verka­samtökum Palest­ínu-araba, sem iðkuðu flugrán, fjölda­morð og árásir á óbreytta borgara lengi vel, voru þar nánast braut­ryðjendur á þessu sviði, unz Ísrael fór að draga úr þessu með sínum varnar- og mótaðgerðum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Minnast kvennanna sem voru myrtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EINN stjórnmálaflokkur sýnir ábyrgð gagnvart þjóðinni vegna þjóðflutningasamnings SÞ!

Íslenska þjóðfylkingin lýsir því yfir, að hún hafnar algerlega þeim SÞ-fólks­flutninga­sáttmála, sem mörgum ríkjum heims er ætlað að stað­festa nk. mánudag 10. des. í Mar­okkó. Ríkis­stjórn­in hef­ur al­ger­lega van­rækt að láta þýða og birta sátt­málann, þótt legið hafi fyrir í tvö ár, og ekkert gert til að kynna hann, fremur beitt þar þöggun!

Sáttmáli þessi hefur það meginmarkmið að koma á fót og tryggja stöðuga og samfellda fólksflutninga (regular migration) landa á milli og miðar öðru fremur að því að fjölga stórlega íbúum Evrópu, að því er virðist í margra tugmilljóna tali á hverjum áratug. Samþykkt sáttmálans er ekki sögð lagalega bind­andi, en yrði þó pólitískt bind­andi, rétt eins og Mannréttindasáttmáli SÞ 1948 reyndist verða. En hér er um gerólíkan sáttmála að ræða, full­veld­is­skerðandi fyrir þau lönd sem skrifa upp á hann, m.a. um landa­mæravörslu, og í reynd stórhættu­legan þjóð­ríkinu sem slíku, þjóð­tungunni, eftir því sem aðflutt­um fjölgar, menningu og velferðar­kerfi, sem mundi sligast undan álaginu. ÍÞ skorar á ríkis­stjórnina að skrifa ekki undir og heitir á forseta Íslands að hafna því að staðfesta samninginn.

Mörg mikilvæg ríki afneita því með öllu að staðfesta sáttmál­ann, þ.á m. Austurríki, Ástralía, Bandaríkin, Danmörk, Eistland, Ítalía, Pólland, Sviss og Tékkland. Mörg ákvæði hans eru afar íþyngjandi fyrir viðkom­andi þjóðríki, en auka stórlega réttindi aðkomufólks. Þar á meðal má nefna "Markmið 4, aðgerð f" sem felur í sér, að þótt ekki sé vitað, af hvaða þjóðerni farand­fólkið (migrants) sé, þá eigi það ekki að koma í veg fyrir, að það fái landvist, og í Markm. 11 (f) er gert skylt að meðtaka ólöglega innflytjendur; staðhæf­ingu um "mismunun" megi nota til að mæla með hverjum þeim sem flytjast vill inn í land. Markm.16 (c) tryggir fjölskyldu­sameiningu viðkomandi og þar með margföldun innflytjenda sem tengjast honum. Markm.17/33 kveður á um að engin gagnrýnis­hugsun leyfist gagnvart framkomu innflytjenda (migrants, far­enda), gagnrýni (criticism) er stranglega fordæmd. Markm.17 (a) beinist gegn frjálsri tjáningu og innflytj­endur sjálfkrafa taldir saklausir og fórnarlömb. Markm.17 (c) felur í sér stjórn fjölmiðla og ritskoðun, fjölmiðlar verði að lýsa innflutningi fólks jákvætt, en þeir, sem geri það ekki, verði sviptir öllum stuðningi og fjár­fram­lögum. Eitt ágeng­asta ákvæðið, Markm.17 (g), kveður á um að í allri kosninga­baráttu (til þings og sveitar­stjórna) beri að styðja við innflutning fólks. Í Markmiðum 7 (a & b), 15 (e) og 20 (i) eru svo sérstök ákvæði til að tryggja stöðu islamssiðar og sjaríareglna!

Þetta er á engan hátt sáttmáli sem miðast við velferð og öryggi Íslendinga eða réttmæta þjóðarhagsmuni okkar, einungis hag og meintan rétt aðfluttra. Aðförin að tjáningar­frelsinu er kapítuli út af fyrir sig og hverjum þingmanni til minnkunar sem samþykkir þennan kröfuharða sáttmála. En verður hann borinn undir atkvæði alþingismanna? Okkur er ekki einu sinni lofað því! Að engu er slíkur sáttmáli hafandi, segjum við í stjórn Íslensku þjóðfylking­arinnar.

Þessi lengri gerð af samþykkt stjórnar Íslensku þjóðfylk­ingar­innar er send öllum alþingis­mönnum o.fl. aðilum, en styttri gerð hefur verið send öllum helztu fjölmiðlum í dag.


mbl.is Ísland tekur þátt í alþjóðasamþykkt um farendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlýsing Íslensku þjóðfylkingarinnar vegna fólksflutningasáttmála SÞ

Íslenska þjóðfylkingin hafnar þeim SÞ-fólks­flutn­inga­sátt­mála sem ýmis ríki stað­festa 10. des. í Mar­okkó. Stjórn­völd van­ræktu að láta þýða og kynna sátt­málann, þótt legið hafi hann fyrir í tvö ár!

Sátt­málinn hefur það mark­mið að tryggja stöðuga fólks­flutn­inga landa á milli og miðar að því að fjölga íbúum Evrópu um a.m.k. tugi milljóna á hverjum áratug. Samþykkt sáttmálans er ekki sögð lagalega bindandi, yrði þó pólitískt bindandi eins og Mann­rétt­inda­sáttmáli SÞ 1948. En þessi sáttmáli skerðir fullveldi landa sem samþykkja hann, m.a. um landa­mæra­vörslu, og yrði stór­skað­legur þjóðríkinu, þjóð­tungunni þegar aðfluttum fjölgar, menningu og velferðarkerfi sem mundi sligast undan álagi. ÍÞ skorar á ríkis­stjórn­ina að skrifa ekki undir og tekur undir kröfur margra um þjóðaratkvæðagreiðslu um hann.

Mörg ákvæði hans íþyngja þjóðríkinu og þrengja ótrúlega að tjáningar­frelsi einstaklinga og fjölmiðla, en gefa aðkomu­fólki forréttindi, m.a. til ólöglegs innflutn­ings án þess að upplýsa um þjóðerni, og fullan rétt til "fjöl­skyldu­samein­ingar", þar með margföldun innflytjenda. Þá er kveðið á um að í allri kosninga­baráttu beri að styðja við innflutning fólks. Ennfremur er staða islamssiðar og sjaríareglna tryggð!

Þetta er ekki sáttmáli sem miðast við velferð og öryggi Íslendinga eða réttmæta þjóðarhagsmuni, einungis hag og meintan rétt aðfluttra. Aðförin að tjáningar­frelsinu er hverjum valdamanni til ófrægðar sem samþykkir þennan kröfuharða sáttmála. 

Stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar.


Engan fullveldisskerðandi og þjóðskemmandi SÞ-fólksflutningapakka hingað!

Á vef Útvarps Sögu -- utvarpsaga.is -- er nú spurt: "Á Ísland að skrifa undir Mar­okkó­yfir­lýs­inguna?" Tökum þátt og mót­mælum með því áformum full­veld­is-svíkj­andi pólitík­usa, því að með undir­skrift SÞ-fólks­flutn­inga-sáttmálans (sem margar þjóðir hafna*) myndu þeir opna hér allar gáttir á inn­flyjenda­flóð úr Asíu og Afríku á næstu árum!

Þjóðtungan, velferðar­kerfið og þjóðríkið eru hér í beinni, yfir­vof­andi hættu, verði þetta lið ekki stöðvað.

Arnþrúður á Útvarpi Sögu var að greina frá því (samkvæmt upp­lýsingum úr ráðuneytinu), að utanríkis­ráðherra hafi ákveðið að senda ráðu­neytis­stjóra til Marokkó vegna undirskrifta­fundarins (hallelúja­samkomu fjöl­menningar­hyggjunnar) í Marokkó 10. þessa mánaðar!!!

Sjálfstæðismenn, standið undir nafni og mótmælið við þingmenn ykkar og Valhöll með skæða­drífu netbréfa og hringinga. Það sama ættu allir árvakrir kjósendur að gera gagnvart þingmönnum sínum. HÉR er hægt að komast í netföng þeirra og símanúmer!

Og málið er enn alvarlegra en hér er komið fram, fyrir sjálft málfrelsi landsmanna!

Nánar verður fjallað um þetta mál hér e.h. á laugardag.

* Meðal ríkja, sem hafna þessum Sameinuðu þjóða-fólks­flutn­inga-sáttmála, eru Ástralía, Austurríki, Bandaríkin, Búlgaría, Eistland, Ísrael, Króatía, Pólland, Slóvakía, Sviss, Tékkland, Ungverjaland. Önnur ríki, t.d. Danmörk og Noregur, munu ekki skrifa undir nema með alvarlegum fyrir­vörum til að tryggja rétt sinn. Ítalía mun trúlega fresta ákvörðun um málið, enda er það víðast hvar lítt eða ekki rætt meðal þjóða, t.d. meðal Þjóðverja. Í Þýzkalandi, eins og víðar, m.a. hér á Íslandi, hafa stjórnmálamenn, fjölmiðlar og flestir álitsgjafar haldið uppi markvissri þöggun um málið!

Jón Valur Jensson (á sæti í flokksstjórn ÍÞ).


Þjóðverj­ar fjölga nú heimsend­ing­um hæl­is­leit­enda frá Norður-Afr­íku

"Þýsk yf­ir­völd hafa und­an­farið reynt að stöðva flótta­fólk sem þangað kem­ur frá Als­ír, Mar­okkó og Tún­is og fell­ur ekki und­ir alþjóðlega skil­grein­ingu á flótta­fólki. Það er fólk á flótta und­an fá­tækt og ör­birgð, ekki stríðsátök­um." (Mbl.is)

Já, nú hafa þessi mál allvíða breytzt til batnaðar, m.a. hjá Dönum og Svíum. (Lesendur eru hvattir til að setja hér inn ábendingar um fleiri slíkar breytingar, hvar sem er í álfunni.)

Bild hef­ur eft­ir ónafn­greind­um heim­ild­um inn­an úr stjórn­kerf­inu að ít­rekaðir fund­ir og viðræður að und­an­förnu hafi skilað sam­starfi við ríki Norður-Afr­íku um að skipt­ast á upp­lýs­ing­um um þá sem vísa á úr landi og að tekið verði við þeim aft­ur í ríkj­un­um sem þeir koma frá. (Mbl.is)

Þetta má kalla góðan árangur þýzkrar diplómatíu, að beita sér þannig gegn skipulagslausu innstreymi fólks, án þess að því hafi verið boðið að vera og án tillits til hugsanlegra þarfa og getu landsins sjálfs.

Rík­is­stjórn Þýska­lands hef­ur jafn­framt unnið að skrán­ingu ríkj­anna þriggja sem ör­uggra landa sem ger­ir þeim auðveld­ara um vik að senda flótta­fólkið til baka ...

segir í sömu heimild, en að festa þetta í lög gengur aftur á móti miður, því að anarkískir Græningjar hafa beitt sér gegn lagasetningu í þessa átt, og var svo sem við því að búast úr þeirri áttinni (illa áttað lið). En ekki mun standa á því, að þýzk stjórnvöld vilji hjálpa þjóðum þessara þriggja landa til að bæta þar menntun og efnahag og auka þar atvinnutækifæri. Það er líka rétta leiðin til að taka á vanda þessara landa, í stað þess að sópa skipulagslítið inn fólki frá framandi menningarheimum, þar sem víða er pottur brotinn, ekki aðeins í menntunarstigi, heldur jafnvel í menningar- og siðahefðum sem rekast illilega á vestræna menningu, sem er í grunninn kristin og grísk-rómversk (með góðum viðaukum hér í norðrinu úr okkar norrænu menningu smile) og hefur mótazt og slípazt á iðnbyltingar- og velferðartímum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja skrá ríkin sem örugg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danmörk fyrir Dani fyrst og fremst

Nú er Pia Kjærsgaard í fararbroddi fyrir því að skera niður styrki um 50% til innflytj­enda til Danmerkur, er ekkert að hika við það, enda til hvers? Á ekki Danmörk að vera fyrir Dani í 1., 2. og 3. lagi og svo aðra eftir því sem bezt hentar og sann­gjarnt er? Gest­risni er gömul og góð dygð, sem þó má ekki láta yfirgangs­sama misnota sér.

Um þetta er nú grein í Financial Times, gott að sjá það mál með þeirra glögga gestsauga, hér er hún: Denmark to cut immigrant benefits in half.

Já þetta eru gleðitíð­indi frá Dan­mörku. Vonandi sjá íslensk stjórnvöld að sér og skera niður útgjöld og uppihalds lúxusinn til hælis­leitenda. Útgjöld vegna þeirra námu sex milljörðum króna á árinu 2017 einu saman, og er það engin hemja, sex þúsund milljónir! En hitt stendur í sjórnvöldum að veita tveimur milljónum króna til Fjöl­skyldu­hjálpar Íslands! Það er greinilegt, að Íslend­ingar eru ekki nr. 1, 2 og 3 í huga núverandi stjórnvalda, en til hins eru þeir hentugir: að skattpína þá!

Jón Valur Jensson og Guðlaugur Ævar Hilmarsson,

eiga báðir sæti í flokksstjórn ÍÞ.


Förum okkur hægt í móttöku flóttamanna og hælisleitenda! Önnur mál miklu brýnni ...

Banda­ríkjastjórn­ ætlar að draga úr árlegum fjölda flótta­manna sem fái að koma þang­að, nið­ur í 30.000. Það jafn­gild­ir um 30 manns hér, en hitt ber að hafa í huga, að ekki vor­um við ábyrg fyrir borg­ara­stríði í Sýr­landi, sem er stór or­sök hins al­þjóð­lega flótta­manna­vanda, en stjórn Obama og Hillary Clinton gerði sitt til að hrinda af stað upp­reisn­inni gegn Assad Sýrlands­forseta.

Stefna Vinstri grænna að taka hér við 500 flótta­mönn­um á ári er gersamlega út úr kú og tekur hvorki mið af getu okkar, siðferðis­legum skyldum né af fyrir­sjá­anlega vara­sömum afleið­ingum mikils flótta­manna­straums, eins og nágranna­þjóðir okkar hafa upplifað (Skandinavía, Bretland, Holland, Belgía, Þýzkaland).

Meðan ríkisstjórnin og sveitar­stjórn­ir sinna hvorki þeim stjórnar­skrár­bundnu skyldum sínum (76. gr.) að tryggja framfærslu fátækra, öryrkja og heimilis­lausra né að sinna brýnni þörf sjúklinga fyrir lífsnauð­syn­leg lyf, þá er fráleitt af þeim að ausa milljörðum í aðkom­andi flóttamenn og (að mestu leyti) ólöglega hælis­leitendur. Í fyrra kastaði ríkis­stjórnin, gegnum ýmis ráðuneyti sín, sex millj­örðum króna í hælisleitendur! Á sama tíma fá krabba­meins­sjúklingar jafnvel ekki þau lyf sem þeir þurfa á að halda! Ennfremur eru lyf hér mörg alls ekki í neinum gæðaflokki.

Stjórnvöldum í þessu lýðveldi ber að annast sína eigin borgara fyrst, áður en þau, undir þrýstingi annarlegra afla, fara að spá í að flytja inn fleiri flótta­menn og hælis­leit­endur. Og með hagkvæmni og nýtingu hjálpar­fjár í huga, er miklu skilvirkara að styrkja bágstadda í 3. heiminum í þeirra eigin löndum í stað þess að flytja vanda þeirra inn til Íslands, þar sem á báða bóga er erfitt um aðlögun að gerólíku samfélagi, menningu og siðferðisvenjum.

Jón Valur Jensson. Höf. er í flokksstjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar.


mbl.is Minnka flóttamannakvótann í 30.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir 5.500 hæl­is­leit­end­ur "týndir"!

Lög­regl­an í Danmörku veit ekki hvar 5.564 hæl­is­leit­end­ur þar eru niður komnir, þar af 2.729 ein­stak­ling­ar, sem sótt hafa um hæli í Dan­mörku en ekki fengið niður­stöðu í mál sín, og aðrir 2.835 hæl­is­leit­end­ur, sem neitað var um hæli í Dan­mörku, og gætu þeir ýmist verið þar ennþá eða komnir til landa sem þeir geta auðveldlega flutzt til. Þeir gætu verið að stunda ólöglega vinnu og tekið störf af Dönum, og sumir þeirra gætu verið glæpamenn eða tilheyrt hryðju­verka­hópum að sögn lögreglunnar, sem leggur því mikla áherzlu á að hafa upp á þeim.

Sá, sem þetta tíndi saman í mbl.is-frétt, hefur áhyggjur af því, að slíkt lið eigi auðvelt með að færa sig hingað frá Skandinavíu; það væri þá viss öryggisógn við okkar samfélag. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Veit ekki um fjölda hælisleitenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinna Svíþjóðardemókratar stórsigur í kosningunum í dag?

Víst er talið, að flokk­ur­inn stór­auki fylgi sitt, en í kosn­ing­un­um 2014 fengu SD 12,9% at­kvæða og 49 þing­sæti af 349. Nú gætu þeir feng­ið um 19 eða jafn­vel yfir 20% atkvæða, en það fer m.a. eftir því, hvaða áhrif það hefur, að flokk­ur­inn ákvað að snið­ganga SVT, þ.e. sænska ríkis­sjón­varp­ið, á loka­degi kosn­inga­bar­átt­unn­ar, eftir áber­andi hlut­leysis­brot frétta­manna þar. Við í Ís­lensku þjóð­fylk­ingunni þekkjum sambærilega hlut­drægni sjón­varps­manna hér á Íslandi kvöldið fyrir síðustu borgar­stjórn­ar­kosn­ingar.

Við í ÍÞ óskum Svíþjóðar­demó­krötum góðs gengis í þessum kosningum, um leið og við viljum hrósa flokks­foryst­unni fyrir að hreinsa út nazistísk öfl sem höfðu komið sér fyrir í flokknum, en voru þó í raun aldrei fjölmenn.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Spilað upp í hendur Svíþjóðardemókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn er sagna bestur -- úr merkilegri ræðu Viktors Orbán

"Það er í dag bannað í Evrópu að segja sannleikann. Það er bannað að segja að Evrópa sé undir ógnum fólksflutninga. Það er bannað að að segja að milljónir manna sé tilbúnar til þess að færa sig til okkar. Það er bannað að segja að þjóðflutningar (mass migration) koma með glæpi og hryðjuverk til landa okkar. Það er bannað að segja að þessi fjöldi sem kemur frá framandi menningarheimum stofnar lífsháttum okkar í hættu, menningu okkar, gildum okkar og kristnum siðvenjum ..."

"Það er bannað að segja að Brussel sé að rífa í sig og gleypa fleiri og fleiri sneiðar af sjálfstæði okkar og að í Brussel sé fjöldinn allur að skipuleggja komu bandaríkja Evrópu."

Sjá nánar hér á x-e.is: Sannleikurinn er sagna bestur: Úrdráttur úr stórmerkilegri ræðu Viktors Orbán forsætisráðherra Ungverjalands sem flutt var 2016

H.H.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband