Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hvað er verið að bjóða láglaunafólki upp á?

Enn heldur leiguokrið áfram, 77 fm íbúðir í Skipholti m/húsgögnum eru nú auglýstar á 340.000 kr. á mán.!

Misskipting launa blasir við af orðum Vilhjálms verkalýðsleiðtoga á Akranesi: Af 1287 milljarða vinnutekjum á Íslandi fá 20% launamanna helminginn, en 80% launamanna fá jafnmikið í sinn hlut!?

Meðal þessara 20% er örugglega fjöldi ríkisstarfsmanna, sem "breiðu bökin" fá svo að standa undir með sínum opinberu gjöldum! 

Slíkt misrétti ber að leiðrétta.

Íslenska þjóðfylkingin boðar "hækkun persónu­afsláttar og að skatt­leysis­mörk verði 300 þúsund. Tekju­teng­ingar aldraðra, öryrkja og náms­manna verði afnumdar. Heilbrigðis­þjónusta skal vera gjaldfrjáls á Íslandi."

Þetta kom fram í viðtali Péturs Gunnlaugs­sonar við Vilhjálm Birgis­son í síðdegis­útvarpi Útvarps Sögu í dag; viðtalið verður endurtekið þar seinna í kvöld. Sjá nánar um viðtalið hér á vef Útvarps Sögu: Húsnæðisverðið er orðið ein hringavitleysa, með mynd (og tengill þar inn á hljóðskrá).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Leigja 2 herbergja íbúðir á 340 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefjast mun barátta á móti og með Evrópusambands-umsókn

þ.e.a.s. ef af stjórnarmyndun verður hjá Sjálf­stæð­is­flokki, "Við­reisn" og "Bjartri fram­tíð" sem hafa 1 þingmanns meirihluta.

Íslenska þjóð­fylk­ingin er ein­dregið and­víg inn­göngu í stór­veldið!

Ætla má, að með orða­laginu, sem þarna er viðhaft ("að halda þjóðar­atkvæða­greiðslu um hvort hefja eigi viðræður við ESB á ný") telji Bjarni Bene­diktsson sig standa við fyrri stjórnar­stefnu sína, þ.e. að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og hans ákvað að draga ESB-umsóknina formlega til baka með bréfi utanríkis­ráðherra til Evrópu­sambandsins; nú sé þannig ekki verið að fella þessa ákvörðun í mót Samfylkingar­manna, sem vildu einfald­lega "halda áfram viðræðunum", heldur að gefa þjóðinni færi á því að taka ákvörðun um nýjar viðræður, sem gerist þá með nýrri aðildar­umsókn.

Við höfum ekkert að gera með að ganga inn í Evrópu­sambandið, sem sjálfur Jón Baldvin Hannibals­son hefur lýst sem svo, að sé eins og að ganga inn í brennandi hús. Síðan hann mælti þau orð, hefur atvinnu­leysið haldið þar áfram á fullu og evran sigið og andstaðan aukizt við sambandið og ekki aðeins í Bretlandi, þar sem meirihluti þjóðarinnar ákvað að segja landið úr Evrópu­sam­bandinu. En Bretar eru okkar helzta viðskiptaþjóð og því enn síður ástæða til þess nú en fyrir fáum árum að ganga inn í þetta hálf-dauðvona, en valdfreka samband.

Valdfrekjan birtist í kröfum þar innan borðs um auknar valdheimildir á sviði bæði efnahagsmála og varnarmála, en stefnt er þar nú að stofnun ESB-hers. Yrði meðlimaþjóðunum, jafnvel þeim sem engan her hafa, ekki hlíft við framlagi til þess hers.

Höldum uppi merki sjálfstæðs og fullvalda Íslands.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynsla fólks og yfirsýn vegur þungt í fullveldis­málum - En geta þrír flokkar teflt þeim í tvísýnu?

Þetta mun hafa sín áhrif í næstu kosn­ingum: að í haust var kjörsókn minnst meðal kjós­enda 20-24 ára, 65,7%, en mest hjá kjós­end­um 65-69 ára, 90,2%.

Þeir reynslu­miklu, sem lengst hafa unnað sjálf­stæði landsins, hafa þeim mun meiri ástæðu til að kjósa Ís­lensku þjóð­fylk­ing­una. Og hér skulu menn minntir á, að þetta er sá flokkur landsins, sem ein­arð­legast stendur gegn því, að Ísland verði innlimað í Evrópusambandið. Miklar efasemdir verður að hafa um það, hvort þeim þremur flokkum, sem nú sitja að stjórnar­myndunar­viðræðum, sé treystandi fyrir sjálfstæði Íslands gagnvart hinu volduga og ágenga Evrópu­sambandi. Tveir þeirra flokka, "Viðreisn" og "Björt framtíð", eru báðir beinlínis flokkar ESB-innlimunar­sinna! Sá þriðji, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur ítrekað brugðizt sínum eigin landsfundum í sjálfstæðismálum (Icesave-málinu og að segja upp Össurarumsókninni um inngöngu í ESB; sá sami Össur fekk rauða spjaldið 29. okt. sl., en enn trássast Bjarni Benediktsson við að fylgja stefnu­mótun eigin flokks; greini­lega þarf að fylgjast með atferli hans á næstunni).

Við í Þjóðfylkingunni höfnum ennfremur hinum alls óþarfa Schengen-samningi, viljum njóta hér óskoraðs fullveldis yfir okkar landa­mærum, innflytjenda- og aðlögunarstefnu. Í því sambandi vörum við líka við hinum slapplegu ákvæðum nýrra útlendinga­laga, sem taka hér gildi eftir aðeins fjóra daga!

Þá er úrsögn úr EES einnig á stefnuskrá Íslensku þjóð­fylk­ingarinnar, en í staðinn lögð áherzla á tvíhliða fríverzl­unar- og viðskipta­samninga.

Jón Valur Jensson, meðlimur í flokksstjórn ÍÞ.


mbl.is 65,7% kjörsókn hjá 20-24 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins í áttina í stað glataðs sjómannaafsláttar

 Sjómenn vilja að fæðispeningar teljist ekki skattskyld... Vonir eru bundnar við að ákveðin skatt­fríð­indi fáist hjá rík­inu vegna fæðis­pen­inga sjó­manna, sem þeir greiða raunar sjálfir, og teng­ist þessi áherzla sjó­manna þeim kjara­samn­ingum sem hafa staðið yfir og hlotið víðast samþykki nema á Vest­fjörðum.

Gætu þessi skattfríðindi numið einum og hálfum milljarði króna.

Sjálfstæðis­flokkurinn stóð að því að afnema sjómanna­afsláttinn, er komið var fram á þessa öld, í tíð Geirs Haarde, en vel fer á því, að núverandi fjármála­ráðherra snúi þeirri öfugþróun við.

Flokksstjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar markaði þá stefnu fyrir kosningarnar, að taka beri upp 6% afslátt af tekjuskatti sjómanna. Um það mál segir hér í fyrri grein 11. okt. sl.:

Sumir hafa mælt gegn sjómanna-afslætti sem "mismunun", sem ekki sé þörf á fyrir stétt sem hafi tiltölulega góðar tekjur. Þar á móti kemur, að nánast engin umræða er um að hátekjumenn í öðrum stéttum eru bæði með ofurbónusa og önnur fríðindi ofan á laun sín og setjast ekki til vinnu eftir ráðningu sína fyrr en þeir hafa tryggt sér (oft) milljónatuga-starfslokasamninga!

En enginn þarf að öfunda sjómenn, þeir leggja mikið til samfélagsins án þess að nýta samfélags­þjónustu í sama mæli og aðrir, þeir eru langtímum saman fjarri fjölskyldum sínum, vinna gjarnan 12 tíma eða lengur á dag, eru með styttri starfsævi en aðrir og meiri slysatíðni. Áhætta þeirra og framlag til þjóðlífsins verðskuldar viðurkenningu.

Þar að auki er gróði af smáútgerð jákvæður kostur, ekki löstur. Hann smyr samfélög strand­byggðanna með aukinni veltu, útsvörum og öðrum gjöldum, og það er einungis jákvætt ef efnahagur sjómanna hjálpar þeim ekki aðeins til að borga hratt niður skuldir á dýrum bátum sínum og þeim tæknibúnaði, sem þar er þörf á, heldur líka til að geta með tím­anum hjálpað börnum sínum að kaupa sér sjálf bát til útgerðar. Þá verður mun líflegra að líta til athafnalífs við hafnir landsins: dæmið snýst við, og aflaheim­ildirnar hætta að streyma þaðan til vellríkra fákeppnis­útgerða, en haldast og aukast hjá fólkinu sjálfu, með veiði­aðferðum sem aldrei geta skemmt sjávarbotninn eða gengið á fiskistofna landsins.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Skattfríðindi metin á 1,5 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhroð Íslensku þjóðfylkingarinnar átti sér óeðlilegar ástæður!

Flokkurinn hlaut aðeins 0,5% atkvæða í NV-kjördæmi (90 atkvæði) og 0,8% í Suðurkjördæmi (213 atkvæði) sem er jafnvel minna en lág­marks­fjöldi meðmæl­enda þar (240+300). Augljóslega hrundu vonir margra um að flokkurinn gæti náð þingsæti í þessum tveimur kjördæmum, þegar ekki var boðið fram í hinum fjórum, með t.d. enga von um uppbótar- eða jöfnunarþingsæti.

Atkvæðin samanlögð voru ekki nema 303, þ.e. 0,2% af þeim 195.204 atkvæðum, sem greidd voru í kosningunum um allt land, en á kjörskrá voru 246.511 og kjörsókn því undir 80% og sú minnsta í 80 ár.

Þórðargleði andstæðinga Þjóðfylkingarinnar yfir úrslitunum fór ekki leynt!

En þessar munu vera helztu ástæður fyrir því, að flokkurinn var fjarri því að ná því 3,2% fylgi, sem hann hafði mælzt með í Gallupkönnun (hvað þá meira):

1) Aðalástæðan er vitaskuld ótrúlegt skemmdarverk, sem "fjórmenninga­klíka", sem sjálf nefndi sig svo, framdi á flokknum daginn áður en skila bar inn framboðum í síðasta lagi. Svo að gripið sé til orða eins fylgismanns þeirrar klíku á Facebók hans, í færslu um flokkinn:

"Hann var sprengdur í tætlur á sögulegum blaðamannafundi í Hörpu 14. október síðastliðinn þegar oddvitar framboðsins í Reykjavík norður og suður drógu framboð sitt til baka."

Þetta -- og meðfylgjandi aðrar skemmdaraðgerðir a.m.k. sumra í klíkunni -- var hin virka höfuðorsök fyrir því, að ekki tókst að bera fram fulla lista 70 frambjóðenda og fulla meðmælendalista (1.050 manns) í Reykjavíkur­kjör­dæm­unum tveimur og SV-kjördæmi. Uppreisnin hafði hins vegar engin áhrif á hina þrjá listana, þ.e.a.s. þá tvo sem tókst að bera fram (Norðvestur- og Suður­kjördæmi) og einn þar sem ekki náðist að safna nægum nöfnum á lista (NA-kjördæmi), en ástæðan í síðastnefnda tilvikinu kom til af mannfæð í röðum stuðningsmanna flokksins í því kjördæmi og að söfnun undirskrifta fór þar allt of seint af stað, einkum á Austurlandi.

Getgátur og kvittur hefur verið uppi um, að viss stjórnmálaflokkur hafi jafnvel mútað einum fjórmenninganna til að hafa forgöngu um eða til þátttöku í skemmdarverkinu, þessari afdrifaríku atlögu að flokknum, en við höfum ekkert fast í hendi um það mál og engar sannanir, og því verður nákvæmlega ekkert um það fullyrt hér.

2) Önnur ástæða er bersýnilega sú, að flokkur okkar er nýstofnaður (snemma á þessu ári) og hefur ekki náð að byggja sig upp að félagatölu, enda úr nánast engum efnum að spila til að boða til fjölmennra funda. Þó voru þeir, sem haldnir voru, mjög gagnlegir og bæði lög samtakanna og grunnstefna unnin með miklu samráði og samþykkt með vönduðum hætti. Samskiptanet náðist líka að byggja upp á opinni Facebók flokksins, þar sem 1.339 manns teljast meðlimir (en það merkir ekki, að þeir séu beinlínis flokksfélagar, heldur a.m.k. áhuga­samir eða forvitnir um flokkinn). Auk þess hafa stofnanir flokksins sín eigin samskiptanet. En dirfskan var mikil að sækja strax fram, með glænýjan flokk, til framboða í öllum kjördæmum landsins, í stað þess til dæmis að einbeita sér að þremur. Þar að auki er vitund almennings um eitt helzta baráttumál flokksins, gegn galopnu Útlendingalögunum, sem taka munu gildi 1. janúar nk., naumast orðin nægileg til að menn átti sig almennt á nauðsyninni á því að hnekkja þeim.

Dæmi um ný framboð flokka, sem ná strax nokkrum árangri, eru yfirleitt klofningsframboð úr öðrum flokkum eða sameining tveggja eða fleiri flokka. Það fyrrnefnda átti t.d. við um Bændaflokkinn 1934, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971, Borgaraflokkinn árið 1987 og jafnvel "Viðreisn" á þessu ári, en hið síðarnefnda (sameining flokka) átti við um Sósíalistaflokkinn 1938, Alþýðubandalagið 1956 og Samfylkinguna árið 2000 (helzta undantekningin frá því að falla í aðra hvora þessa kategóríu er Þjóðvarnarflokkurinn á 6. ára­tugnum). Í hvoru tveggja tilviki er hægara um vik að hefja skyndilega kosningabaráttu á landsvísu heldur en fyrir glænýjan flokk sem gefizt hefur sáralítið tækifæri til undirbúnings. Menn geta þó bent á furðugóðan árangur Flokks fólksins í þessum kosningum -- að hafa náð fylgi sem í raun var ígildi tveggja þingsæta (án þess að fá þau, vegna ranglátra kosningalaga) -- en í 1. lagi náði sá flokkur að vera með framboð í öllum kjördæmum, ótruflaður af óvildaröflum, og var svo í 2. lagi með mjög svipað kjörfylgi (3,5%) og Íslenska þjóðfylkingin var á leið með að ná (3,2% í Gallupkönnun), og hefði sá síðarnefndi flokkur þannig getað farið fram úr Flokki fólksins, ef hið ótrúlega hermdarverk, áðurnefnt, gegn framboði okkar hefði ekki verið unnið af fólki sem treyst hafði verið til lykilhlutverka!

3) Áhrif algerrar vöntunar á flokkssjóðum til baráttunnar voru gríðarleg. Allur Sexflokkurinn á því löggjafarþingi, sem nú er lokið, naut samtals yfir eins milljarðs króna stuðnings úr ríkissjóði, þ.e.a.s. vösum okkar skattgreiðenda, til að kosta rekstur á flokksskrifstofum sínum, starfsmannahaldi, erindrekum um allt land, skipulagi á félaga- og netfangaskrám til að virkja flokksmenn með litlum fyrirvara o.s.frv., auk fjármögnunar auglýsinga í fjölmiðlum, áróðurs­funda og prentunar hágæða-kynningarpésa til að laða til sín kjósendur, að ógleymdu kynningar­myndbandinu sem flokkarnir klykktu út með stuttu fyrir kosningarnar, til viðbótar við sínar sjónvarpsauglýsingar! Í samanburði við allt þetta var Íslenska þjóðfylkingin eins og tötrum búin aukapersóna úti í horni, og jafnvel kynningarmyndband hennar var af vanefnum gert, tæknilega og að flestu leyti, enda litlu kostað til.

Að svokölluð "Viðreisn" naut ekki ríkisstyrks eins og Sexflokkurinn á þingi til að reka sínar flokksmiðstöðvar og sinn áróður, virðist ekki hafa komið að neinni sök á þeim bænum eða í þeirri höllinni, enda líklegt, að flokkurinn (sem er ekki miðju-, heldur ótvíræður hægriflokkur) hafi notið ómældra styrkja frá atvinnu­rekendasamtökum eins og SA og SI (rétt eins og þau samtök studdu ESB-Benedikt og hans óþjóðræknu félaga til að agitera fyrir því, að Íslendingar skyldu greiða Icesave-kröfur Breta, Hollendinga og ESB), ef ekki beinlínis frá Brussel, enda vinnur flokkurinn einbeittur í þágu ESB-innlimunarstefnunnar. Og ekki var annað að sjá en að "Viðreisn" hafi vaðið í peningum, með tvær meiri háttar ráðstefnur hennar í Hörpu í huga og dýra auglýsingaherferð sem m.a. birtist í líflegu, kjörþokka-ítrekandi auglýsinga-myndefni efst á Eyjunni (eyjan.is) og víðar, auk heilsíðuauglýsinga í blöðum. Vitaskuld gnæfði þetta fokríka fyrirtæki eins og risi yfir fjárvana Þjóðfylkinguna. En það er sannarlega harmsefni, ef hér var um leið verið að innleiða erlend áhrif á íslenzka kosningabaráttu!

Helgi Helgason, formaður Íslenku þjóðfylkingarinnar.En svo má að endingu taka hér undir með Helga Helgasyni, formanni ÍÞ, sem í viðtali á Vísir.is í fyrradag "segir kjósendur ekki hafa verið að hafna málflutningi Íslensku þjóðfylkingarinnar," sjá nánar þar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Færri atkvæði en meðmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristin stjórnmálasamtök styðja Íslensku þjóðfylkinguna

Kristin stjórnmála­samtök, 17 manna samtök sem stofnuð voru 2007 og standa að Mogga­blogg­síð­unni Krist.blog.is, lýsa yfir stuðn­ingi við Ís­lensku þjóð­fylk­ing­una í kom­andi kosn­ing­um, m.a. vegna stuðn­ings þess flokks við full­veldi lands­ins, krist­in gildi og mál­efni fjölskyldna, heimila og fátækra; ennfremur að flokkurinn styðji trúfrelsi, en hafni trúarbrögðum sem eru andstæð stjórnar­skrá. Andstöðu Íslensku þjóðfylk­ingarinnar við hugsanlega islams­væðingu landsins á komandi árum skoða Kristin stjórn­mála­samtök sem eðlilega í ljósi reynslu nágranna­þjóða. Þau vænta einnig stuðnings flokksins við samvizku­frelsi lækna og hjúkrunar­stétta í mál­efnum ófæddra barna, sem og presta og kennara í störfum þeirra.

Aths.

Geta má þess, að ekki færri en fimm félagsmenn í Kristnum stjórnmála­samtök­um höfðu lagt Þjóðfylk­ingunni lið til að vera á framboðs­listum hennar. Vegna brott­hvarfs fjögurra af efsta fólki á Reykjavíkur­listunum og sorglegrar atlögu þeirra að framboð­unum 13. þ.m. misstu bæði Jón Valur Jensson og Tómas Ibsen Halldórsson af því að vera á listanum í Rvík-suður, og ekki náðist tímans vegna að safna nógu mörgum til stuðnings lista í NA-kjördæmi, þar sem KS-félaginn Snorri Óskarsson átti að leiða listann. Eftir eru þá tveir af KS-félagsmönnum í gildu framboði fyrir Þjóðfylkinguna: María Magnúsdóttir (í Keflavík) og Steindór Sigursteinsson (á Hvolsvelli) á Suðurlandslistanum.

Auk framboðs á Suðurlandi (frá Hornafirði til Reykjanesbæjar) býður Íslenska þjóðfylkingin einnig fram í Norðvesturkjördæmi (frá Akranesi og Hvalfirði vestur og norður um land, allt til Fljóta í Skagafirði). Er efsti maður í NV-kjördæmi Jens G. Jensson skipstjóri, en í Suðurkjördæmi Guðmundur Karl Þorleifsson rafiðnfræðingur.

XE fyrir Íslensku þjóðfylkinguna!

JVJ. 


mbl.is Bregðast ekki við fyrstu tölum í sjónvarpssal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar stefna á stórfellda stækkun Heathrow-flugvallar í Vestur-Lundúnum, meðan vantrúaðir vinstrimenn á Íslandi þrengja að miðstöð okkar innanlandsflugs!

Ekki er ónýtt að 1000 manns starfi á Reykjavíkurflugvelli, en um 77.000 ný störf myndast við lagningu 3. flugbrautar við Heathrow. Flug­vél­um yfir London mun fjölga um nær 50% og 200.000 í viðbót búa við hávaða þaðan. Sjötta flug­stöðin bætist og við. Kosta mun verkið allt um 17,6 millj­arða punda, þ.e. 2500 mill­jarða ís­lenskra króna, og þorpið Harmondsworth í ná­grenni Heathrow verður rifið.

Þarna skortir ekki á stórhug og róttækar breytingar, enda mikið um þetta deilt og t.d. bæði Boris Johnson utanríkisráðherra og múslimski borgarstjórinn í London andvígir þessum áformum.

En hér heima láta menn það sumir ægja sér, að flugvöllur sé yfirhöfuð í höfuð­borginni, eins og það sé ekki alvanalegt í borgum heims, og aðrir ætlast fyrst og fremst til að fá þarna lóðir (sem verða raunar dýrkeyptar), þótt gnægð lóða sé til á borgarlandinu!

Snorri Óskarsson, sem vera átti oddamaður framboðs Þjóðfylk­ingarinnar í NA-kjördæmi, var með athyglis­verðar hugmyndir um Reykja­víkur­flugvöll og fleira, er undir­ritaður hitti hann í lok ferðar um kjördæmið, þar sem reynt var að leggja hans mönnum á Austurlandi lið við söfnun undirskrifta vegna fram­boðs­ins (of seint, því miður, við hefðum þurft allt að hálfri viku til viðbótar til að ná þessu; en það fer bara í reynslubankann).

Við Snorri erum báðir eindregið fylgjandi því, að Reykjavíkurflugvöllur fái að vera þar sem hann er, og báðir vissum við, að lengja mætti neyðarbrautina með nýjum hætti þrátt fyrir hryðjuverkið sem Valsmenn og meirihluti borgar­stjórnar eru að vinna á NA-hluta þeirrar flugbrautar; en með því verki er verið að stórskaða flugöryggi í landinu og umfram allt að tefla lífi sjúklinga í hættu á komandi árum. En í stefnuskrá Íslensku þjóðfylk­ingarinnar segir: ÍÞ vill að staðsetning núverandi innanlands­flugvallar verði til frambúðar.

Tillaga Snorra um nauðsynlega, tiltölulega auðvelda lenginu neyðar­brautar­innar út í sjó er bæði raunhæf og innan viðráðan­legra kostnaðar­marka. Ekki þyrfti að ryðja burt nema einu litlu húsi við SV-enda núverandi brautar (rétt við það svæði þar sem undir­ritaður átti heima fimm fyrstu æviár sín á Shellvegi), en þar má svo lengja brautina að vild út í Skerja­fjörð. Yrði það mjög lítið mál saman­borið við hugmynd­irnar stórtæku sem menn voru með um að leggja glænýjan flugvöll (og byggja flugstöð sömuleiðis) á Löngu­skerjum úti í firðinum.

Allt þetta er hægt, ef vilji er fyrir hendi. En treysta menn borgar­stjór­anum Degi til annars en að þvælast fyrir því sem orðið getur lands­mönnum og borgarbúum til gagnkvæmra nytja?

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Samþykktu stækkun á Heathrow
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af blekkingarleik samsærishóps

Kynlegt er, að Gunnlaugi Ingvarssyni skiljist ekki það skaðræðisverk sem hann tók þátt í að vinna gegn Íslensku þjóðfylkingunni og biðjist ekki afsökunar. Í staðinn ásakaði hann formanninn og aðra hástöfum í viðtalsþætti hjá Edith Alvarsdóttur á Útvarpi Sögu í fyrradag og hélt þar áfram fyrri ásökunum sinnar fjórmenningaklíku (þau völdu sér sjálf það heiti í viðtali á Visir.is).

Einhliða var blekkingartal Gunnlaugs til að réttlæta gerræðisverk klíkunnar sem vann flokknum okkar óbætanlegt tjón. Enga iðrun var á honum að heyra – bara bætt við fyrri óhróður um flokksforystuna! Hann einkenndist ekki sízt af því að talað var niður til formannsins, hann sagður verklítill og ekki drífa flokkinn áfram í brýnum verkefnum hans. Ekki höfðu þessir gagnrýnendur þó kveðið upp úr um þær hugmyndir sínar á flokksstjórnarfundum og heldur ekki tekið að sér myndun málefnanefnda, þótt þau kvörtuðu yfir vöntun þeirra eftir á. En 22 manna flokksstjórn ber vitaskuld þá ábyrgð ekkert síður en formaður.

Svo langt gekk níðið í upphlaupshópnum (að meðtalinni einni félagskonu, sem gerðist annað sinni afar hávær á síðustu dögum), að jafnvel þurfti að búa sér til óframinn glæp formannsins einhvern tímann eftir þingkosningarnar! - þar sem sefasjúk ímyndunarveikin var komin á það stig að ætla honum fjárdrátt úr sjóði flokksins, þegar í hann færi að berast ríkisstyrkur! (slíkur hlotnast a.m.k. þeim flokkum sem ná 2,5% atkvæða). Er Helgi Helgason, formaður flokksins og stjórnmálafræðingur, þó vammlaus maður, af góðum foreldrum kominn og með tandur­hreina sakaskrá. En jafnvel það, að hann hafði lært stjórn­mála­fræði á háskóla­stigi, varð þessari viðbættu Gróu á Leiti í nefndum hópi tilefni til að rita á Facebók undirritaðs:

þessi reynsla ykkar í ÍÞ ætti að kenna fólki að taka ekki mann í for­mennsku flokks sem lærður er í fjór-flokks-fræðum frá HÍ.... það verður aldrei heiðarlegt afl frá svoleiðis manni.... einfalt... 

Þvílíkir fordómar! Þvílík ályktunargeta! En í takt við þetta fór hún (Ingibjörg Hafberg) líka létt með að rita þessi ófyrirleitnu orð um formanninn 16. þ.m. og það á Facebók undirritaðs:

er fólk búið að fatta hvað Helgi er búinn að vera að gera undanfarna mánuði? Hann lagði minnst fram í vinnuframlagi .... Hann er einn með prókúru fyrir flokkinn.... Hann einn hefur aðgang að bankareikningi flokksins... Hann hefur hegðað sér eins og "Erdogan Íslands" ... og sjálfsagt hefur Hann aldrei ætlað að flokkurinn færi á þing ... því Hann einn ætlar að þyggja styrkinn sem flokkurinn fær ... ef hann nær ekki 5% .... það eru nokkrar milljónir sem renna í Hans eigin sjóð....
 
Og þá svarar sú, sem undirritaður hyggur hafa verið virkasta í samsærinu gegn framboðunum, Inga G. Halldórsdóttir (sem var formaður kjördæmaráðs Reykjavíkur og 2. á listanum í Rvík-norður):
Nkl.. [= Nákvæmlega]. Það vill enginn formaður haga hlutunum svona sé hann heiðarlegur...

Hún tekur þarna m.ö.o. undir örgustu dylgjur um fyrirhugaðan fjárdrátt. Þessi vitaskuld tilhæfulausi, alls ósannaði rógur var látinn kvisast út og malla meðal frambjóðenda nokkra daga áður en skila bar framboðunum (14/10) og reynt að rökstyðja hann með því, að það væri enginn gjaldkeri í flokknum - að formaður færi sem sé með þau mál og það gert tortryggilegt, eins og hér sýndi sig, og látið sem brýnt væri, að slíkur gjaldkeri yrði skipaður, en ekki höfðu Ingurnar þó gert tillögu um það embætti á landsfundi flokksins 29. júní sl., þar sem lögin voru samþykkt. Þar að auki er nánast ekkert í flokkssjóði nema framlög flokksmanna sem rétt duga til að borga húsaleigu fyrir skrifstofu hans í Hafnarfirði og fyrir takmörkuðum auglýsingum og öðrum brýnustu útgjöldum eins og fjölföldun kynningarefnis.

Að auki var nefnd Ingibjörg engan veginn fær um að fullyrða neitt um vinnuframlag Helga formanns fyrir flokkinn, enda lét hún sig hverfa úr honum eftir fund í sumar þegar hún æstist öll upp út af nánast engu og salurinn gapti yfir látunum i henni. Síðan hefur hún ekki, að frétzt hafi, komið nálægt flokksstarfinu, t.d. líklega aldrei litið inn á skrifstofuna. Hún getur því engan samanburð gert á öðrum sjálfboðaliðum flokksins við helzta sjálfboðaliða hans: Helga formann! –––Enginn taki mark á henni, enda er þetta sú hin sama Ingibjörg, sem ritaði á Facebók undirritaðs að kveldi 16. október:

"Eina í stöðunni eins og hún er núna er að tryggja það að flokkurinn fái engin atkvæði." (!!!)

og sýnir þetta augljósan skemmdarverkahug hennar gagnvart flokknum. En nógu góð er hún samt í augum fyrrv. formanns kjördæmisráðs flokksins, Ingu, til að hafa sem bandamann í niðurrifs­sbaráttunni og í rógsherferð gegn kjörnum formanni flokksins!

Með dylgjum sínum á bak við tjöldin og masi um þessa ótímabæru hluti var klíkan í senn að eyða dýrmætum tíma annarra síðustu vikuna fyrir skil framboðanna, þegar mestu skipti, að allir listar (126 frambjóðenda og 1.890 til 2.520 meðmælenda um land allt) næðust heilir í höfn. En þarna var klíkan auðvitað að sá þeim efasemdafræjum, sem leitt gátu til tortryggni og ósam­lyndis sem nægði ásamt herhvöt fjórmenninganna á blaðamannafundi í Hörpu 13. þ.m. til að koma því höggi á flokkinn, að ýmsir  frambjóðendur yrðu fældir frá því að standa við framboð sín!

Þetta eru nokkur meginatriði atburða sem leiddu til uppreisnar fjórmenninganna og skaðræðisverka þeirra gegn flokknum. Þó er frásögninni hér hvergi nærri lokið, og bætist fleira við með nýjum degi.

Jón Valur Jensson.


Blekkingarleikur samsærismanna

Afhjúpandi grein um þetta efni birtist hér bráðlega á þessu vefsetri -- og full ástæða til, enda tókst saman­svörnum fjand­mönnum flokksstjórnar Íslensku þjóð­fylk­ingar­innar að koll­varpa fram­boðum flokks­ins í þremur fólks­flestu kjör­dæmunum, svo að einungis tvö standa eftir: í Norðvestur- og Suður­kjördæmum!

Mynd frá Helgi Helgason
 

 


Skemmdarverk gegn framboði Íslensku þjóðfylkingarinnar blasir við

Án efa er það rétt að unnið hafi verið skaðræðisverk gegn ÍÞ með því að m.a. odda­menn tveggja kjör­dæma drógu fram­boð sitt til baka. Meðmæl­enda­listar komu ekki allir fram til skrif­stofu flokksins, enda höfðu a.m.k. tvær konur í þessum hópi hótað því beinlínis.

Hlutur hins lítt virka Gústafs kann að hafa verið annar, ekki svo að skilja að hann hafi verið óvirkur í þessu samsæri, heldur hafði hann vanrækt bæði fyrirheitin skrif sín fyrir flokkinn í fríi á Spáni nokkrar vikur nýlega og mun lítt hafa safnað meðmælendum.

En belgingur tveggja kvenna vegna undirskriftalista þeirra (þótt margir aðrir hafi komið að þeim verkefnum og sumir af mikilli elju) virðist hafa ýtt undir árásarhvöt þeirra gegn framkvæmdastjórn flokksins, og hefur önnur þeirra gersamlega misst taumhald á ímyndunarafli sínu á því sviði og reynir á Facebók að fá aðra til að trúa jafnvel fráleitasta óhróðri. Andmæli henni einhver, er við­komandi gjarnan upp­teiknaður sem hand­bendi formannsins, jafnvel bein­lín­is á launum hjá honum! Hefur undirritaður t.d. fengið slíka skapofsaárás frá við­kom­andi á minni eigin Facebók, og er það í takti við, að formann og ritara ÍÞ kallar hún "glæpagengi", vitaskuld án minnsta snefils af sönnunum.

Það er á slíkum stundum sem maður leiðir hugann að því að slíta Facebókar-vináttu við viðkomandi fólk, og það varð undirritaður að gera rétt í þessu, þegar 3. persónan, sem áður var virk í Þjóðfylkingunni, hafði á Facebók minni misnotað hana til ekki aðeins argasta persónuníðs gegn forystu flokksins, heldur og hvatt eindregið til þess "að flokkurinn fái engin atkvæði" og að það sé það, sem gamlir stuðningsmenn flokksins eigi nú að "tryggja"! Hér var því eðlilega komið að þolmörkum hjá undirrituðum, enda myndi svona framkoma ekki líðast innan neins annars flokks.

Meðmælendalistarnir eru nú í brennidepli, rætt er um umboðssvik í sambandi við skil þeirra hér á suðvesturhorninu -- að skemmdarverkamenn hafi ekki skilað þeim til skrifstofu flokksins né til yfirkjörstjórnar, heldur haldið þeim vísvitandi eftir. Þetta mun nú reynt að fá á hreint, bæði með kæru til lögreglu og frestun á afgreiðslu málsins til kl. 14 í dag hjá yfirkjörstjórn í Kraganum, Suðvesturkjördæmi.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðfylkingin kærir stuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband