Afhroð Íslensku þjóðfylkingarinnar átti sér óeðlilegar ástæður!

Flokkurinn hlaut aðeins 0,5% atkvæða í NV-kjördæmi (90 atkvæði) og 0,8% í Suðurkjördæmi (213 atkvæði) sem er jafnvel minna en lág­marks­fjöldi meðmæl­enda þar (240+300). Augljóslega hrundu vonir margra um að flokkurinn gæti náð þingsæti í þessum tveimur kjördæmum, þegar ekki var boðið fram í hinum fjórum, með t.d. enga von um uppbótar- eða jöfnunarþingsæti.

Atkvæðin samanlögð voru ekki nema 303, þ.e. 0,2% af þeim 195.204 atkvæðum, sem greidd voru í kosningunum um allt land, en á kjörskrá voru 246.511 og kjörsókn því undir 80% og sú minnsta í 80 ár.

Þórðargleði andstæðinga Þjóðfylkingarinnar yfir úrslitunum fór ekki leynt!

En þessar munu vera helztu ástæður fyrir því, að flokkurinn var fjarri því að ná því 3,2% fylgi, sem hann hafði mælzt með í Gallupkönnun (hvað þá meira):

1) Aðalástæðan er vitaskuld ótrúlegt skemmdarverk, sem "fjórmenninga­klíka", sem sjálf nefndi sig svo, framdi á flokknum daginn áður en skila bar inn framboðum í síðasta lagi. Svo að gripið sé til orða eins fylgismanns þeirrar klíku á Facebók hans, í færslu um flokkinn:

"Hann var sprengdur í tætlur á sögulegum blaðamannafundi í Hörpu 14. október síðastliðinn þegar oddvitar framboðsins í Reykjavík norður og suður drógu framboð sitt til baka."

Þetta -- og meðfylgjandi aðrar skemmdaraðgerðir a.m.k. sumra í klíkunni -- var hin virka höfuðorsök fyrir því, að ekki tókst að bera fram fulla lista 70 frambjóðenda og fulla meðmælendalista (1.050 manns) í Reykjavíkur­kjör­dæm­unum tveimur og SV-kjördæmi. Uppreisnin hafði hins vegar engin áhrif á hina þrjá listana, þ.e.a.s. þá tvo sem tókst að bera fram (Norðvestur- og Suður­kjördæmi) og einn þar sem ekki náðist að safna nægum nöfnum á lista (NA-kjördæmi), en ástæðan í síðastnefnda tilvikinu kom til af mannfæð í röðum stuðningsmanna flokksins í því kjördæmi og að söfnun undirskrifta fór þar allt of seint af stað, einkum á Austurlandi.

Getgátur og kvittur hefur verið uppi um, að viss stjórnmálaflokkur hafi jafnvel mútað einum fjórmenninganna til að hafa forgöngu um eða til þátttöku í skemmdarverkinu, þessari afdrifaríku atlögu að flokknum, en við höfum ekkert fast í hendi um það mál og engar sannanir, og því verður nákvæmlega ekkert um það fullyrt hér.

2) Önnur ástæða er bersýnilega sú, að flokkur okkar er nýstofnaður (snemma á þessu ári) og hefur ekki náð að byggja sig upp að félagatölu, enda úr nánast engum efnum að spila til að boða til fjölmennra funda. Þó voru þeir, sem haldnir voru, mjög gagnlegir og bæði lög samtakanna og grunnstefna unnin með miklu samráði og samþykkt með vönduðum hætti. Samskiptanet náðist líka að byggja upp á opinni Facebók flokksins, þar sem 1.339 manns teljast meðlimir (en það merkir ekki, að þeir séu beinlínis flokksfélagar, heldur a.m.k. áhuga­samir eða forvitnir um flokkinn). Auk þess hafa stofnanir flokksins sín eigin samskiptanet. En dirfskan var mikil að sækja strax fram, með glænýjan flokk, til framboða í öllum kjördæmum landsins, í stað þess til dæmis að einbeita sér að þremur. Þar að auki er vitund almennings um eitt helzta baráttumál flokksins, gegn galopnu Útlendingalögunum, sem taka munu gildi 1. janúar nk., naumast orðin nægileg til að menn átti sig almennt á nauðsyninni á því að hnekkja þeim.

Dæmi um ný framboð flokka, sem ná strax nokkrum árangri, eru yfirleitt klofningsframboð úr öðrum flokkum eða sameining tveggja eða fleiri flokka. Það fyrrnefnda átti t.d. við um Bændaflokkinn 1934, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971, Borgaraflokkinn árið 1987 og jafnvel "Viðreisn" á þessu ári, en hið síðarnefnda (sameining flokka) átti við um Sósíalistaflokkinn 1938, Alþýðubandalagið 1956 og Samfylkinguna árið 2000 (helzta undantekningin frá því að falla í aðra hvora þessa kategóríu er Þjóðvarnarflokkurinn á 6. ára­tugnum). Í hvoru tveggja tilviki er hægara um vik að hefja skyndilega kosningabaráttu á landsvísu heldur en fyrir glænýjan flokk sem gefizt hefur sáralítið tækifæri til undirbúnings. Menn geta þó bent á furðugóðan árangur Flokks fólksins í þessum kosningum -- að hafa náð fylgi sem í raun var ígildi tveggja þingsæta (án þess að fá þau, vegna ranglátra kosningalaga) -- en í 1. lagi náði sá flokkur að vera með framboð í öllum kjördæmum, ótruflaður af óvildaröflum, og var svo í 2. lagi með mjög svipað kjörfylgi (3,5%) og Íslenska þjóðfylkingin var á leið með að ná (3,2% í Gallupkönnun), og hefði sá síðarnefndi flokkur þannig getað farið fram úr Flokki fólksins, ef hið ótrúlega hermdarverk, áðurnefnt, gegn framboði okkar hefði ekki verið unnið af fólki sem treyst hafði verið til lykilhlutverka!

3) Áhrif algerrar vöntunar á flokkssjóðum til baráttunnar voru gríðarleg. Allur Sexflokkurinn á því löggjafarþingi, sem nú er lokið, naut samtals yfir eins milljarðs króna stuðnings úr ríkissjóði, þ.e.a.s. vösum okkar skattgreiðenda, til að kosta rekstur á flokksskrifstofum sínum, starfsmannahaldi, erindrekum um allt land, skipulagi á félaga- og netfangaskrám til að virkja flokksmenn með litlum fyrirvara o.s.frv., auk fjármögnunar auglýsinga í fjölmiðlum, áróðurs­funda og prentunar hágæða-kynningarpésa til að laða til sín kjósendur, að ógleymdu kynningar­myndbandinu sem flokkarnir klykktu út með stuttu fyrir kosningarnar, til viðbótar við sínar sjónvarpsauglýsingar! Í samanburði við allt þetta var Íslenska þjóðfylkingin eins og tötrum búin aukapersóna úti í horni, og jafnvel kynningarmyndband hennar var af vanefnum gert, tæknilega og að flestu leyti, enda litlu kostað til.

Að svokölluð "Viðreisn" naut ekki ríkisstyrks eins og Sexflokkurinn á þingi til að reka sínar flokksmiðstöðvar og sinn áróður, virðist ekki hafa komið að neinni sök á þeim bænum eða í þeirri höllinni, enda líklegt, að flokkurinn (sem er ekki miðju-, heldur ótvíræður hægriflokkur) hafi notið ómældra styrkja frá atvinnu­rekendasamtökum eins og SA og SI (rétt eins og þau samtök studdu ESB-Benedikt og hans óþjóðræknu félaga til að agitera fyrir því, að Íslendingar skyldu greiða Icesave-kröfur Breta, Hollendinga og ESB), ef ekki beinlínis frá Brussel, enda vinnur flokkurinn einbeittur í þágu ESB-innlimunarstefnunnar. Og ekki var annað að sjá en að "Viðreisn" hafi vaðið í peningum, með tvær meiri háttar ráðstefnur hennar í Hörpu í huga og dýra auglýsingaherferð sem m.a. birtist í líflegu, kjörþokka-ítrekandi auglýsinga-myndefni efst á Eyjunni (eyjan.is) og víðar, auk heilsíðuauglýsinga í blöðum. Vitaskuld gnæfði þetta fokríka fyrirtæki eins og risi yfir fjárvana Þjóðfylkinguna. En það er sannarlega harmsefni, ef hér var um leið verið að innleiða erlend áhrif á íslenzka kosningabaráttu!

Helgi Helgason, formaður Íslenku þjóðfylkingarinnar.En svo má að endingu taka hér undir með Helga Helgasyni, formanni ÍÞ, sem í viðtali á Vísir.is í fyrradag "segir kjósendur ekki hafa verið að hafna málflutningi Íslensku þjóðfylkingarinnar," sjá nánar þar.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Færri atkvæði en meðmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Merkið er sérlega fallegt,er ekki fall fararheill? En nokkrir flokkar sem komu manni á þing voru ekki áberandi í fyrstu,en hafa minnt á sig með jöfnu millibili.

Helga Kristjánsdóttir, 1.11.2016 kl. 04:27

2 Smámynd: Íslenska þjóðfylkingin

Þakka þér, Helga. Og rétt mælirðu, t.d. átti norski kristilegi flokkurinn langan veg frá stofnun sinni til þess, er hann komst inn á Stórþingið. Og við munum vaxa, ekki minnka, sannaðu til. --M.b.kv, --JVJ (og færð hér fallega merkið til hliðar í stað myndar af mér!).

Íslenska þjóðfylkingin, 1.11.2016 kl. 05:10

3 Smámynd: Salmann Tamimi

Er ekki staðreyndin sú að Íslendingar vill ekkert með ykkur hafa?

Salmann Tamimi, 2.11.2016 kl. 09:07

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Salmann!

Í þessum alþingiskosningum gafst þjóðinni mjög takmarkaður kostur á að styðja frambjóðendur okkar, óraunhæft var við núverandi aðstæður og eftir atlöguna að flokknum að gera ráð fyrir, að efstu menn í tveimur dreifbýliskjördæmum næðu kjöri, og þeim mun fremur fækkaði þá atkvæðum þeirra.

En hvað segirðu sjálfur um höfnun þinnar eigin stefnu? Var ekki að birtast skoðanakönnun á DV-vefnum nýlega, þar sem 80% reyndust vera andvíg byggingu mosku? Hvers vegna heldurðu að það sé? Átt þú kannski einhverja sök á því, handarhöggs-predikarinn, sjálfur formaður Félags múslima á Íslandi?

Og það er ekki sagt hafa hjálpað Dögun hætishót að auka fylgi sitt að hafa þig innanborðs, heldur þvert á móti: fylgið minnkaði.

Og hvað með Samfylkinguna með sína hvatskeytlegu Semu Erlu Serdar með sínar hörðu fordæmingar fyrir meint kynþáttahatur (næsta bæ við félaga hennar Gunnar Waage)? Er ekki eitthvað til í því, að það hafi fælt ýmsa frá flokknum og stuðlað að fylgishruni hennar, niður í 5,7%, flokks sem eitt sinn náði 31% í kosningum og 29,8% fyrir aðeins sjö árum rúmum? Væri Samfylkingunni ekki nær, í stað allrar sinnar múltí-kúltí-stefnu, ESB-innlimunar-maníu, öfgakennds femínisma, daðurs við islam og fjandskapar við kristindóm (sbr. meðferð borgarráðs á Hjálpræðishernum, einni helztu hjálparstofnun landsins í þágu alþýðu), að gæta að hagsmunum verkalýðsstéttarinnar? Hún var nú einu sinni grundvöllur vinstri flokkanna, eins og jafnvel Eiríkur Bergmann Einarsson varð að benda flokknum á í ávítunarræðu í Fréttablaðinu í gær.

Flokkar á borð við Íslensku þjóðfylkinguna hafa verið lengi að ná upp fylgi í Norður-Evrópu, en á u.þ.b. 15 árum eru þeir þó orðnir meðal stærri flokkanna í ýmsum landanna. Ef Sjöflokkurinn heldur áfram að greiða fyrir islamsvæðingu Íslands á komandi árum, t.d. með því að breyta í engu Útlendingalögunum hans Óttars Proppé & félaga og Unnar Brár, þá stefnir allt að því, að andstæðingar þeirrar stefnu fari hröðum skrefum að hirða af þeim atkvæðin.

Jón Valur Jensson, 2.11.2016 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband