Þetta sýnir sig í orkupakkamálinu, sem klárlega er reynt að keyra í gegn í trássi við meirihlutavilja. ASÍ hafnar orkupakkanum, m.a. með þessum orðum:
"Raforka er grunnþjónusta og á ekki að mati Alþýðusambands Íslands að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.
Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi." (Alþýðusamband Íslands)
Guðmundur Ingi Kristinsson alþm. bendir á, að ekki aðeins getur rafmagnsverð þrefaldazt, heldur hefði það, vegna kostnaðarauka fyrirtækja, margháttuð hliðaráhrif á verðlag á öðrum sviðum, samfélaginu til tjóns. "Við eigum að fresta þessu máli" og hugsa það betur, er hans afstaða.
Það er ekki farið fram á mikið að beina þeim tilmælum til Alþingis að draga afgreislu þessa máls fram á haustið, þegar meðal annars hefur gefizt tóm til að skoða betur afleiðingar þessarar innleiðingar þriðja orkumálabálks ESB.
Ennfremur er ótækt að halda áfram með þetta mál í núverandi mynd án þess að lögspekingar verði að minnsta kosti fengnir til að leggja mat á þá furðulega óvissu "fyrirvara" sem stjórnvöld hafa slengt fram til að réttlæta orkupakkann. En lagalegir fyrirvarar í kjötmálinu (þ.e. þeir skilmálar, að hrátt kjöt mætti aðeins flytja hingað fryst) héldu ekki (eins og Birgir Þórarinsson benti á í þingræðu í dag), þó að þetta hafi verið fyrirvari í lögum, og svo eru sumir þingmenn að tala um að fyrirvarar í greinargerð haldi og gildi í miklu alvarlegra máli!
Raunar er það rétt, að aðeins ein leið er fær í þessu máli til að tryggja stjórnarþingmönnum þau "belti og axlabönd", sem þeir telja sig þurfa á að halda, og þetta er sú leið að fá lögformlega undanþágu samþykkta í sameiginlegu EES-nefndinni. Allt annað býður upp á óvissu og í versta falli dýrkeyptar ófarir íslenzks samfélags.
Íslenska þjóðfylkingin hefur á fundum sínum og á Facebók sinni mótmælt innleiðingu ORKUPAKKA 3 og hvetur landsmenn til að sýna stjórnvöldum hug sinn, hvatti þá m.a. til að mæta á mótmælafundinn á Austurvelli 20. maí sl.
"Seinni sjálfstæðisbarátta Íslands er hafin og er undir landsmönnum komin, framtíð afkomenda okkar er í húfi! HÖFNUM ORKUPAKKA 3."
Merkilegt er, að nánast væri hægt að skipa nýja ríkisstjórn með þeim mörgu fyrrverandi ráðherrum, sem lýst hafa andstöðu sinni við þriðja orkupakkann. Þeir eru Jón Baldvin Hannibalsson, Davíð Oddsson, Guðni Ágústsson, Sighvatur Björgvinsson, Jón Bjarnason, Tómas Ingi Olrich, Hjörleifur Guttormsson og Ögmundur Jónasson (hafi enginn gleymzt úr upptalningunni!). Eins og Þorsteinn Sæmundsson alþm. sagði í þingræðu í dag, "maður skyldi halda," að foringjar flokkanna hlýddu á þessa reyndu menn og ráðagóðu, í stað þess að láta skeika að sköpuðu og ana út í ófæru.
JVJ.