Færsluflokkur: Innanflokksmál

Þjóðfylkingin hugsar sinn gang

Landsfundi Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem til stóð að yrði 2. október nk., hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Flokks­stjórn­ar­menn ræða nýjar að­stæður og hugsanleg mannaskipti; þetta er þannig ekki síður en í aðdrag­anda fyrri landsfunda ástæða til að kalla eftir nýju blóði inn í forystuhóp flokksins.

  Jón Valur Jensson ritar þessa hugleiðingu.
 

Flokkurinn er, vel að merkja, ekki að hugleiða það að sameinast neinum öðrum, sízt af öllu sósíalískum flokkum, ESB-taglhnýt­inga­flokkum eða gírugum gróða­pungum Sjálfstæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks. En ekki höfum við fyrir fram útilokað að taka þátt í því með öðrum að mynda regnhlífar­samtök eða kosninga­bandalag, sem sameinað getur okkar sterku rödd fyrir þjóðlegum áherzlum, landvarnarmálum sem og vörnina fyrir þá sem minnst mega sín í samfélaginu, allt frá fullkomlega mannlegum börnum í móðurkviði til elztu kynslóðarinnar sem á allan rétt á tillitssemi og virðingu, bæði til mannsæmandi kjara og traustrar heilsugæzlu.

Endilega haldið sambandi við flokkinn, látið vita af ykkur, en þessi umræða mun halda hér áfram, og allar athugasemdir og tillögur, hvort heldur um menn eða málefni, eru velkomnar.

JVJ.


Af nokkrum könnunum á fylgi ÍÞ

Fylgi Þjóð­fylk­ing­ar­innar hefur skiljanlega, eftir tvö meiri háttar áföll fyrir flokkinn, við þing­kosn­ing­arnar 2016 og 2017, hrunið í könnunum og kosn­ingum. En það má alveg rifja hér upp nokkrar kannanir, óháð niður­stöðum kosninga:
 
Í skoðanakönnun MMR 15. nóv. 2016 var Íslenska þjóð­fylkingin með aðeins 0,6% fylgi. https://thjodfylking.blog.is/blog/thjodfylking/entry/2185145/
 
Í ágúst 2017 var Íslenska þjóðfylkingin komin upp í 1,6% í nýrri MMR-könn­un https://thjodfylking.blog.is/blog/thjodfylking/entry/2201082/
 
Í skoðanakönnun á vef Útvarps Sögu í byrjun okt. 2017 fekk Íslenska þjóðfylkingin 4,96%.  https://thjodfylking.blog.is/blog/thjodfylking/entry/2203725/
 
Og í skoðana­könnun á vef Útvarps Sögu birtri 12.4.2018 sögðust 6,42% myndu kjósa Íslensku þjóðfylk­inguna í borgar­stjórnar­kosn­ingunum. https://thjodfylking.blog.is/blog/thjodfylking/entry/2214640/
 
Þessar kannanir bera því vitni, að ÍÞ hefur oft átt nokkurn hljóm­grunn meðal kjósenda, og þar á geta vel orðið breyt­ingar til batn­aðar við nýjar og breyttar aðstæður, sem ekki verða séðar fyrir. Fleiri kannanir en þessar hafa verið gerðar, þar sem flokkurinn kemur við sögu, en þetta er látið nægja í bili. Ýtarlegri samantekt verður birt seinna, þegar meira hefur tínzt saman af þessu tagi.
 
Nú er líklegt, að Sigríður Andersen sé að gera hvað hún getur til að fæla ekki fleiri frá eigin flokki til íhalds­samari flokka í innflytj­enda­málum.
 
Þar að auki er ÍÞ eignalaus flokkur og sjóðs-laus og stendur því vitaskuld á meðan veikum fótum í athyglisbaráttu við flokka sem árlega "ræna" hundruðum milljóna króna úr ríkissjóði í eigin flokksskrifstofur í stað þess að láta félagsmennina standa undir útgjöldum þeirra, úr eigin vösum, eins og við í ÍÞ höfum árum saman þurft að gera!
 
Jón Valur Jensson.

Sigur í Bandaríkjaþingi, Brett Kavanaugh, staðfastur í vörn og sókn, er nýjasti hæstaréttardómarinn

Klárlega maður dagsins:

epa07074880 (FILE) - Federal appeals court judge Brett Kavanaugh listens to US President Donald J. Trump (not pictured) announce him as his nominee to replace retiring Supreme Court Justice Anthony Kennedy, in the East Room of the White House in
 
Ófyrirleitnum ásökunum þurfti hann að sæta, en lýsti því yfir í miðjum atganginum, að hann myndi aldrei gefast upp fyrir áreitnisliðinu. Frú Christine Blasey Ford græðir ugglaust á aðra milljón dollara fyrir óvott­fest­ar og óstað­festar ásakanir sínar, en hann fær að fylgja sinni samvizku í málum að störfum sem hæstaréttar­dómari, eins og hann hefur hingað til gert sem dómari, og var fróðlegt að fylgjast með ræðu þing­konunnar Collins fyrr í dag, þar sem hún rakti það, hve einstaklega vel hann hafði staðið sig í margvís­legum málum og iðulega staðið mjög með konum, til dæmis. Sjálf hafði hún áður bæði stutt tilnefningar Bills Clinton og Bush til hæstaréttardómara; hún ákveður sig á málefna­grundvelli, ekki eftir flokkslínum og virðist mjög virðingarverð þingkona. Og í dag kaus nú með Kavanaugh.
 
Snertir þetta mál Íslensku þjóðfylk­inguna á einhvern hátt? Já, það mun koma í ljós á næstu árum eða misserum! Hreyfing víða um lönd, þ.m.t. í Evrópu, fyrir því að takmarka árásir á ófædda í móður­kviði mun mjög sennilega fá ærlega hvatningu vestan um haf frá nýjum úrskurði Hæsta­réttar Banda­ríkjanna. En Íslenska þjóðfylkingin lýsti þessu yfir á sínu flokksþingi:

Ófædd börn eiga rétt til lífsins. Flokkurinn tekur einarða afstöðu gegn nýfram­komnum hugmyndum um róttækar breyt­ingar á fóstur­eyðinga­löggjöfinni og mun taka á þessum málum með það að mark­miði að draga sem mest úr fóstureyðingum.

Og eins og einn samherji undirritaðs orðaði það: "Nú ætla ég að vænta þess, að Hæstiréttur Banda­ríkjanna teygi ekki oftar og togi og afflytji landslög, til að styðja við fóstureyðingar."
 
Jón Valur Jensson.

mbl.is Kavanaugh samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissar horfur fram undan í Reykjavík

Rétt er hjá Sönnu Magdalenu í Sósíalistaflokknum nýja að vilja ekkert hafa með fráfarandi meirihluta Dagsmanna að gera, enda gagnrýndi flokkur hennar meirihlutann eindregið, en sér ekki færi á því að koma einn og óstuddur inn í samstarf þeirra, ófær um að hnika þeim nokkuð til.

En hér er aðsendur pistill frá Guðjóni Helgasyni:

Blessaður!

Jæja, flokkar fengu mismörg atkvæði.

Er barátta Þjóðfylkingarinnar einhverju að skila í dag ?

Að minnsta kosti vill almenningur ekki skipta sér af þessum útlendingamálum, vegna þess að þá er hinn sami stimplaður rasisti.

Já svona er nú umræðan í dag. Meðan flestir hafa vinnu þá láta þeir sig þessi mál engu skipta, en þó eru hugsanlega breyttir tímar í vændum og þá fer þjóðin kannski að vakna. Það eru t.d. allstaðar teikn á lofti um samdrátt í þjóðfélaginu, sem getur leitt til efnahagskreppu. Það er hugsanlega ekki svo langt í hana !

 

Fleiri mættu senda okkur hugleiðingar og annað efni.

Sendist til thjodfylking@gmail.com eða jvjensson@gmail.com


mbl.is Taka ekki þátt í meirihlutaviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfum bjartsýn fram á veg, þótt stórar valdablokkir virðist óvinnanlegar, það er enn hægt að breyta og bæta!

Gleðilega hvítasunnu! Það er birta yfir orðinu, þótt út­synn­ings-slag­virði hafi geng­ið yfir, sem dregur þó úr í dag, spáð glaða­sól­skini og hæg­virði á morg­un!

Nú eru 6 dag­ar til kosn­inga! Marg­ir hafa lagt mikið á sig að virkja áhuga ann­arra á nýjum fram­boðum til að vinna hug­sjón­um braut­ar­gengi, en horfa þó áhyggju­fullir á mis­traustar skoðana­kannanir sem virðast enn gefa stórum flokkum, sem fyrir eru, mest fylgi.

En ýmsir flokkar eiga leynt fylgi sem kemur ekki fram þegar hringt er í menn frá hlut­drægum fjöl­miðli og þeir þýfgaðir um það hvað þeir ætli að kjósa. Þeir fjölmiðlar vinna ekki í þágu nýrra hugsjóna.

Allur okkar aktívismi á að vera yljaður af trú á hið góða, að það hafi tilgang að vinna af alhug að framgangi góðra málefna, þótt einstaklingurinn virðist mega sín lítils að takast á við voldugar valdablokkir, fastmótaðar venjur eða ríkjandi rétthugsun.

Hin bandaríska Meghan Markle (nú nýgift hertogaynja af Sussex) sýndi það strax ung, að hún trúði á möguleikann til að breyta og bæta: Hún vildi ljá jafnrétti karla og kvenna sitt lið og gerði það, jafnvel sem 11 ára stelpa. Þegar henni ofbauð aug­lýs­inga­mennskan sem virtist ætla konum það einum að starfa í eld­húsinu, þá kaus hún að vinna gegn slíkri innrætingu sjón­varps­aug­lýs­inga og tókst að fá fyrir­tæki til að breyta þeim! Þetta gerði hún með sínum einfalda aktívisma: að skrifa bréf! Og það gerði hún seinna í þágu umhverfismála líka.

Og við gerum það sama, þegar við vitum hvað rétt er að kjósa og kjósum það, þótt einhverjir reyni að telja okkur hughvarf og fullyrði, að atkvæðið falli dautt og ómerkt. Það gerir það einungis, ef allir missa trúna. En látum engan taka þá trú af okkur og narra okkur til að kjósa það, sem við vitum að lakara er, eða að sitja heima í vantrú og vesöld þess sem útilokar birtuna fram undan!

"Ef þú sérð eitt­hvað sem þér lík­ar ekki eða tel­ur vera fals­skila­boð í sjón­varpi eða ann­ars staðar, skrifaðu þá bréf og sendu það til réttra aðila. Það get­ur skipt sköp­um," sagði hin 11 ára Meg­h­an Markle árið 1993.

 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Meghan varð aktívisti 11 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rýtingsstungan: Kjarni Frelsisflokksins er svikaraliðið sem sprengdi upp framboð ÍÞ til Alþingis í þremur helztu kjördæmum haustið 2016

Eðlilega (af því að stefna Frelsisfl. er í flestu kópía af stefnu ÍÞ) er spurt: Hver er munurinn á þessum flokkum? SVAR: Kjarni Frelsisflokksins er svikaraliðið sem sprengdi upp framboð ÍÞ til Alþingis í þremur helztu kjördæmum á versta mögulega tíma haustið 2016.

Eftir gríðarmikla vinnu við að safna undirskriftum 126 frambjóðenda til Alþingis og hátt á annað þúsund meðmælenda í framboðunum í kjör­dæmunum sex var það rýtingsstunga í bak okkar í Íslensku þjóðfylkingunni þegar fjórir einstaklingar, sem höfðu sótzt eftir fremstu framboðssætum, sprengdu upp framboðið á boðuðum blaða­mannafundi daginn áður en skila átti öllum framboðs­listum (20 klst. áður) með því að segja sig af listum okkar og hvetja aðra til þess sama, í krafti einskis annars en rógsherferðar þeirra gegn forystu flokksins og valda­ágreinings í nafni "kjör­dæma­ráðs Reykja­víkur­kjördæmanna" sem skipu­lags­lega séð hafði ekkert vald í flokknum miðað við kjörna flokksstjórn hans.

Viðkomandi svikaralið gekk svo langt í þessu að halda eftir undir­skrifta­listum sem með réttu tilheyrðu flokknum, ekki einstaklingum sem vildu kljúfa sig út úr honum. Jafnvel undir­skriftalistum, sem ein í hópnum (IGH) hafði komizt yfir með fláræði frá mikilvirkasta flokks­félaganum í söfnun undirskrifta (HHHd), héldu þau eftir og hindruðu að listarnir bærust skrifstofu flokksins að Dals­hrauni 5 í Hafnarfirði, auk þess sem rógurinn var látinn ganga gegn formanni flokksins og svo langt gengið að fullyrða blákalt út í loftið, að það, sem hann hefði í hyggju, væri að komast sjálfur yfir þann flokksstyrk, sem ÍÞ gæti hugsanlega fengið frá ríkissjóði, ef framboðið tækist!!! Hafði þó hinn rægði formaður, menntaskóla­kennarinn Helgi Helgason, hreint mannorð og flekklausan feril, enda af vænsta fólki kominn. En á grundvelli þess rógs og gróusagna þeirra um að bullandi óánægja væri með forystu flokksins tókst fjórmenninga­klíkunni (orðið smíðuðu þau sjálf um sig) að fá nógu marga aðra til að draga framboð sín til baka til að gera skaðann óbætanlegan á þeim skamma fresti sem gefinn hafði verið til að skila framboð­unum til kjörstjórnar. Og vitaskuld skaðaði opinber rógburður Gunnlaugs Ingvarssonar og Gústafs Níelssonar (Trjójuhests Valhallar í flokknum?) orðstír flokksins og spillti fyrir honum í kosningunum í öðrum kjördæmum þar sem framboðið tókst.

Ljóst varð undirrituðum og öðrum við þessi tíðindi, að aldrei yrði framar hægt að treysta þessum fjórmenningahópi, þ.m.t. Gunnlaugi Ingvarssyni og Gústaf Níelssyni, til neinna ábyrgðar- eða trúnaðarstarfa í stjórnmálum.

Jón Valur Jensson.


Hverjir aðrir vilja vera með?

Nú eru síðustu forvöð fyrir menn að skrifa sig á meðmælendalista Íslensku þjóðfylkingarinnar og jafnvel hugsanlega á frambjóðendalista hennar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Hafa má samband við skrifstofu flokksins að Dalshrauni 5 í Hafnarfirði fyrir eða um kl. 7 í kvöld, fimmtudag (sími 789-6223), eða við undirritaðan í síma 616-9070.

PS. Enn er færi á því, eftir flokksstjórnarfund í kvöld, að fá sæti (helzt neðarlega) á framboðslista ÍÞ, en listinn var að mestu ákveðinn á fundinum. Ennfremur geta menn enn, til hádegis á þeim föstudegi sem nú fer í hönd, skráð sig á annan lista með samþykki við því að flokkurinn bjóði fram.

Jón Valur Jensson.


Skrifaðu flugvöll !

Fyrir mörgum árum gekk mynd af frambjóðanda á landsbyggðinni að deila út kosningaloforðum. Hann var á tali við kjósanda og sneri sér að aðstoðar­manni sínum og sagði. "Skrifaðu flugvöll"

Íslenska þjóðfylkingin hefur mótað stefnu í mörgum málum til borgar­stjórnar­kosninga. Meðal annars frítt í strætó fyrir allt skólafólk. Þar er verið að hugsa um að létta á umferð, minnka mengun og ekki síst að kanna hvernig almenningssamgöngur gætu þróast áður en farið er í milljarða fjárfestingu í Borgar­línu og að afla sér heimilda.

Daginn eftir að Íslenska þjóðfylkingin kynnti þessa stefnu voru aðrir flokkar byrjaðir að boða hana.

Íslenska þjóðfylkingin boðaði líka að reyna ætti aftur árangurs­tengd bekkjarkerfi í grunnskólum borgarinnar. Ekki kom fram hvers vegna, en nú eru aðrir flokkar búnir að taka upp þetta stefnumál, t.d. Flokkur fólksins samkvæmt útvarpi Flokks fólksins, sem gengur undir nafninu Útvarp Saga.

En ástæðurnar eru þunnar, enda skilningsleysið algert. Skólakerfið og gæði þess fer eftir og mun fara eftir þrýstingi frá hagsmuna­aðilum og hagsmunaaðilar eru foreldrar. Ef mengi nemanda breytist verulega og skólastarf verður erfiðara, munu möguleikar þeirra sem best geta staðið sig minnka, án þess að möguleikar hinna muni aukast. Þarna koma foreldrar inn í myndina og grípa í taumana, en ekki allir foreldrar, bara örfáir. En það eru einmitt hinir örfáu foreldrar sem láta sig skólastarfið varða sem eru verðmætasta eign skólans. Þessa foreldra má ekki missa með sín börn yfir í einkarekna skóla, vegna þess að það yrði vondur spírall fyrir hið opinbera skólakerfi. Opinberi skólinn myndi versna og versna, eftir að bestu og síðan næstbestu foreldrar myndu yfirgefa hann með börnin sín. Þetta er örugg leið til að skapa misskipt samfélag, misskipt við fæðingu, vegna þess að það barn sem valdi sér foreldra er ekki enn fætt.

Íslenska þjóðfylkingin setti þessa stefnu fram í þessum tilgangi, ekki til að auka misskiptingu innan hins opinbera skólakerfis, heldur til að reyna að halda skólakerfinu saman og koma til móts við þessa fáu en áríðandi foreldra, sem láta menntun barna sinna sig varða. Þessir fáu foreldrar eru í raun ekki bara foreldrar barna sinna, þeir eru foreldrar allra barna og draga vagninn í að viðhalda gæðum í hinu opinbera skólakerfi og skólinn má ekki missa þá yfir í sérskóla.

Jens G. Jensson, einn frambjóðenda Íslensku þjóðfylkingarinnar.


Stolnar fjaðrir Flokks fólksins

Kolbrún Baldursdóttir í efsta sæti FF fullyrti í viðtali við Arnþrúði á Útvarpi Sögu að flokkurinn vildi breytta stefnu í skólamálum með árangurs-skiptum bekkjum og að FF hefði verið fyrstur með þetta stefnumál.

En það er rangt. Það hafði engin stefna komið frá FF fyrir tilkynningu Íslensku þjóðfylkingarinnar á framboði sínu og stefnumálum á fréttamannafundi þar sem einmitt þetta kom fram um stefnu okkar! Við höfnum ríkjandi stefnu borgarstjórnar um "skóla án aðgreiningar", stefnu sem hefur spillt skólastarfi og verið dragbítur á árangur góðra nemenda.

Það er full ástæða til að leiðrétta svona mismæli. Aðrir geta cóperað stefnu ÍÞ í málum, en skulu þá geta heimildarinnar!

Guðmundur Þorleifsson/jvj


Ánægjulegar fréttir frá Frakklandi -- og Íslandi!

Jean-Marie Le Pen, stofnandi Front National, var svipt­ur heiðurs­félaga-nafn­bót á þingi flokks­ins í dag, en áður rekinn úr hon­um 2016 vegna ósæmi­legra um­mæla um hel­för Gyðinga und­ir valdi nazista. Þetta er ánægjulegt og til marks um and­stöðu Marine Le Pen við allar öfgar í flokknum.

Ennfremur var ákveðið að breyta nafni flokks­ins í Rassemblement National, úr Þjóðfylkingu í Þjóðarbandalag. 

Enskt heiti Íslensku þjóðfylk­ingar­innar er, vel að merkja, ekki National Front (sem minnir á suma öfgaflokka), heldur The Icelandic National Alliance.

Flokkurinn stefnir á framboð til borgar­stjórnar Reykjavíkur í vor. Allir áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við flokks­skrifstofuna í síma 789-6223

JVJ.


mbl.is Le Pen vill nýtt nafn á flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband