Færsluflokkur: Spilling í stjórnmálum

Nú skal reynt að blekkja landann til að mjólkurkýr Engeyjarættarinnar þrífist sem best, eins og púkinn á fjósbitanum

Íslenska þjóðfylkingin hafnar alfarið arfavitlausum tillögum sem komu eru fram frá efnahags- og fjármálaráðuneytinu.  

Í fyrsta lagi er hvergi minnst á ríkið, ríkissjóð og framgang Alþingis sem og ríkisstjórna þegar kemur að kennitöluflakki. Ætli það séu ekki meiri fjármunir sem þessir gæðingar stinga undan með aðstoð fjármálakerfisins? Tökum til dæmis fyrirtækin sem breytt var um kennitölu á í hruninu og fengu afskrifaða milljarða. Bankana sem fengu nýjar kennitölur og var gefið veiðileyfi í boði alþingismanna á hinn almenna borgara. 900 fjölskyldur misstu heimili sín, eða ef við reiknum með að í hverri fjölskyldu séu fjórir fjölskyldumeðlimir, þá erum við að tala um 3600 einstaklinga, auk áþjánar á tengda vini og ættingja. Millj­arða tilfærslur á Keflavíkurflugvelli og svo mætti lengi telja. Hversu margir verktakar, verslanir, sem og fólk sem stundaði almennan rekstur, þurftu að axla ábyrgð vegna misvitra embættismanna?

Þarna tala þessir menn digurbarkalega um verktakabransann. Ekki var hætt að skipta við stóru verktakafyrirtækin, t.d. Ístak, ÍAV eða aðra stórtæka bygging­ar­verktaka þó svo að þeir fengju nýjar kennitölur. En skýrt var tekið fram í útboðsgögnum að menn þyrftu að hafa hreinar kennitölur í að minnsta kosti 2 til 3 ár og eiginfjárstöðu jákvæða. Þessi atriði voru aðeins látin gilda um lítil og meðalstór fyrirtæki.  

Að koma í veg fyrir að menn noti peninga í stað korta er galin hugmynd og einungis ætluð til að fita Engeyjarpúkana sem og önnur kortafyrirtæki. Hér ætti frekar að banna að taka við greiðslum sem eru innan við 1000 kr. vegna umsýslugjaldsins þó við séum ekki að mæla með slíku. Hvernig almenningur hagar sínum fjármálum á hvorki að vera miðstýrt af hinu opinbera né á það að hafa nokkrar letjandi tillögur til að stýra slíku.

Íslenska þjóðfylkingin telur að fjármála­ráðuneytið ætti frekar að taka til heima hjá sér og styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki með því að bjóða verkefni sem einungis eru ætluð þeim. Banna ætti stóru fyrirtækjunum að bjóða í slíkar fram­kvæmdir vegna þess að þau hafa notið óeðlilegrar aðstoðar annaðhvort frá hinu opinbera eða bankaelítunni. Þá á hið opinbera að hætta að bjóða út verkefni sem eru tilsniðin fyrir einhver sérstök fyrirtæki eða afhenda þeim þau án útboðs. Þetta á við um fleira en bygg­ingar­geirann. Ég vísa í hann sérstaklega því fjármála­ráðuneytið sá ástæðu til að nefna þá starfsemi. Þetta yrði til þess að leggja grunn að nýrri og öflugri millistétt í landinu sem mun skila þjóðar­búinu margföldum tekjum til baka. Í góðu samfélagi er það millistéttin sem er grunnur þess.

F.h. flokksstjórnar Íslensku þjóðfylkingarinnar,

Guðmundur Karl Þorleifsson formaður.


mbl.is Meira yrði prentað af verðminni seðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarlaust framferði Pírata gæti valdið stíflun Neyðarlínunnar, jafnvel dauðsföllum!

Varaþingmaður Pírata í SV-­kjör­dæmi, Andri Þór Sturlu­son, gerir sig ekki aðeins frægan að endemum, heldur stofnar lífi fólks í hættu með því ein­stæða athæfi sínu að "hvet[­ja] fólk til að teppa síma­lín­ur Neyðarlín­unn­ar í mót­mæl­um gegn vopna­b­urði lög­regl­unn­ar. Hvatn­ing­una send­ir hann út á op­in­ber­um vett­vangi á Face­book, bæði í hópn­um „Pírata­spjall­inu“ og á hans per­sónu­legu síðu." (Mbl.is)

Flest­ir þeirra sem tjá sig um málið gagn­rýna hug­mynd­ina þar sem uppá­tækið gæti bitnað á þeim sem síst skyldi. (Sst.)

Þór­hall­ur Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Neyðarlín­unn­ar 112, skýrir betur aðstæður þar. Hann 

seg­ir Neyðarlín­una bera fullt traust til al­menn­ings að mis­nota neyðar­núm­erið 112 ekki. „Neyðarlín­an treyst­ir því að al­menn­ing­ur sýni mik­il­vægi þjón­ust­unn­ar skiln­ing og valdi ekki vilj­andi trufl­un á henni, hér eft­ir sem hingað til,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

Hann seg­ir sveifl­ur í fjölda inn­hringj­enda til Neyðarlínu vera mikl­ar og stund­um séu álag­stopp­ar sem Neyðarlín­an á fullt í fangi með að anna.

„Ef þess­ar inn­hring­ing­ar sem verið er að gera til­lögu um bæt­ast við þegar það er mikið álag get­ur það valdið því að ein­hverj­ir nái ekki strax inn og valdið veru­leg­um skaða. Iðulega skipt­ir hver mín­úta máli í viðbragði þannig að aðgerð sem fel­ur í sér að teppa síma­lín­ur Neyðarlínu get­ur valdið al­var­legu heilsutjóni eða dauða.“ (Mbl.is)

Makalaust má það heita af varaþingmanni að ganga svo langt í pólitísku offorsi gegn öryggisráðstöfunum lögreglu, að hann er reiðubúinn að trufla sjúkra­flutninga og jafnvel útköll vegna slysa eða heilsuáfalla til þess að HANN geti komið sínu þrælpólitíska séráhugamáli á framfæri.

Réttast væri að lögreglan láti ná í hann til yfirheyrslu (þó ekki hjá haturs­löggunni, undirritaður hefur þá reynslu af henni, að hún sé vanhæf, enda pólitískt skipuð silkihúfa á lögreglustöðinni), því að hann nýtur ekki þinghelgi.

Píratar verða að lýsa hneykslan sinni á framferði unga mannsins, vilji þeir ekki deila með honum allri ábyrgð á þessu hættulega athæfi hans.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Varaþingmaður vill teppa neyðarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilja Dögg gerir rétt í því að hlífa ekki brauðfótastjórn hagsmunaaflanna

„Verk­efnið er að koma þess­ari rík­i­s­tjórn frá og sam­ein­ast í því svo þjóðin geti ein­beitt sér að al­vöru­stjórn­mál­um og þurfi ekki að horfa upp á hvert klúðrið á fæt­ur öðru,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir réttilega á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins.

Sig­urði Inga Jó­hanns­syni, formanni flokksins, blandast heldur ekki hugur um, að "svo virðist sem einn flokk­ur, um­fram aðra, stjórni land­inu upp á sitt ein­dæmi," því að "viðheng­in tvö", Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki afl til að standa í lapp­irn­ar. "Viðreisn er úti­bú frá Sjálf­stæðis­flokkn­um, Björt framtíð virðist svo vera orðin úti­bú frá Viðreisn," segir Sig­urður.

Benti hann á að í ell­efu manna rík­is­stjórn sitji sex Sjálf­stæðis­menn og að ekki fyr­ir svo löngu síðan voru 9 af þeim, sem eru ráðherr­ar nú, í Sjálf­stæðis­flokkn­um. „Rík­is­stjórn­in sem nú sit­ur hef­ur því væna hægri slagsíðu,“ sagði Sig­urður skv. frétt Mbl.is.

Þetta Framsóknarþing lofar góðu. Flokkurinn verður ekki lengur misnotaður til að styðja afleitar ríkisstjórnir á brauðfótum -- og heldur ekki þær, sem reyna að vinna sér upp atkvæða­leysið og óvin­sældirnar með því að reyna að gera sig voldugar í krafti fjárráða með því að sópa til sín almannaeignum með einka­væðingu í stíl við fyrri feril núlifandi Engeyinga, ekki sízt í fjölskyldu forsætis­ráðherrans sjálfs.

Og það mun heldur ekki halda þessari ríkisstjórn á floti, að hún er að gerast mesta skattpín­ingar­stjórn sögunnar, svíkst um að efna loforð um skattalækk­anir, en bætir bara í með nýja skatta. Kemst enginn með tærnar þar sem hún hefur hælana í þeim efnum, nema við teljum þar með hinn staðfasta ásetning vinstri-meiri­hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, sem vill leggja þung­bærar klyfjar á alla fasteigna­eigendur -- og raunar með ófyrir­leit­inni, sennilega ólög­mætri skatt­heimtu: "innviðagjaldi" -- í þágu óhag­kvæm­asta samgöngu­verkefnis á norður­hveli jarðar: "Borgarlínunnar"!

Það vantar sannarlega nýtt afl inn í stjórnmálin, bæði á borgar- og landsmála­vettvangi. Íslenska þjóðfylkingin er reiðubúin til þess eftir næstu kosningar, hvort sem þær verða á sviði sveitarstjórna eða jafnvel í landsmálunum strax á þessu ári -- og að taka þátt í stjórnarmyndun með flokkum, sem hægt er að vinna með, en ekki ríkisstjórn sem fylgir leiðarstjörnu sérhagsmuna fámennrar auðstéttar.  

Jón Valur Jensson.


mbl.is Mun aldrei styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt við það sama í gervifrétta­burði Rúv og þöggunar­starfsemi fréttastofunnar

Fréttastofa Rúv virðist ekki hafa haft trausta heimild fyrir því að Trump hafi neitað að taka í hönd Angelu Merkel.* Samt var hamazt í því máli á Rúv nokkra daga! Hitt þegir Rúv um endalaust, að sænskir þingmenn sósíal­demókrata sýna Svíþjóðar­demókrötum ís­kalt við­mót og hafa frá fyrsta degi þeirra á þingi árið 2010 neitað að heilsa þeim, jafnvel þótt þeir síðarnefndu bjóði fram höndina! Þetta er ekki bara nokkurra andartaka ástand í Ríkis­deginum, eins og í Hvíta húsinu, heldur gengur það þannig áfram ár eftir ár eftir ár!

En kannski eru sósíaldemókratar, sér­stak­lega sænskir, undan­þegnir þeim kurt­eisis­reglum sem Rúv hefur búið sér til þegar horft er í vesturátt úr Efstaleiti.

Fréttastofa Rúv er vel að merkja jafnan valkvæm í ÞÖGGUN sinni ekkert síður en í GERVIFRÉTTUM sínum - tíðindalaust sem sé af þeim vettvangi!

* Sbr. fréttartengil Mbl.is hér neðar.

Jón Valur Jensson.

PS. Íslenska þjóðfylkingin hefur, vel að merkja, engin formleg tengsl við Sví­þjóð­ar­demó­krata, en saga þeirra er áhuga­verð. Flokk­urinn var stofnaður árið 1988, en tókst ekki að rjúfa 4% múrinn til að komast inn á þjóðþingið (Riks­dagen) fyrr en í kosn­ingunum 2010, eftir 22 ára utan­þingslíf flokksins. En árangur hans síðan þá er óumdeilanlegur: Svíþjóðar­demó­kratar hafa nú 49 af hinum 349 þing­mönnum á Ríkisdeginum.

Einn mikilvægur áfangi Svíþjóðar­demó­krata var sá að reka ungliða­deildina úr flokknum árið 2015 vegna ásakana um rasisma og tengsla við öfgahópa.

(Aths. JVJ.)


mbl.is Neitaði ekki að taka í hönd Merkel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnubrögð kringum skýrslu ECRI-nefndar ámælisverð

Einstaklega vel upplýstur hagfræðingur, dr. Ólafur Ísleifs­son, átti glæsi­leg­an sprett um þessa álits­gjöf s.k. Evrópu­ráðs­nefnd­ar (tveggja full­trúa sem voru hér tvo daga!) í Út­varpi Sögu í fyrradag, og ættu menn að reyna að ná endur­flutn­ingi þátt­ar­ins eða hlusta á hann á vef ÚS, á þess­ari vef­slóð: ÞÆTTIR, og velja þar "Síðdegis­útvarpið 1-hluti 10.mars", en þessi umfjöllun Ólafs er þar einmitt í upphafi þátt­arins (sem byrjar sem oftar á Bítlalagi!).

Enginn sem hlustar með athygli og opnum huga á málflutning Ólafs ætti að verða fyrir vonbrigðum. Þetta er hreint og beint frábær frammistaða.

Áherzlan undir lokin er m.a. á það, að stjórnvöld verði hér að fara að lögum og virða þann andmælarétt sem löggiltur var hér á landi með stjórnsýslulögunum snemma á 10. áratugnum. Ennfremur þarf velferðarráðuneytið "undan­bragða­laust og mögl­unar­laust" að upplýsa um sinn hlut að þessu máli, sem er háalvarlegt, þegar svo er komið, að fyrirtæki hér á landi þurfi að búa við órökstudda ófrægingu um meint "hatur", þ.e. í Omega og á Útvarpi Sögu, af hálfu þessarar nefndar og dulinna "heimildarmanna" hennar.

Nánar verður væntanlega fjallað um mál þetta síðar.

Jón Valur Jensson.


Á leið úr bankanum

 

  • Bankinn segir það borgi sig 
  • að bíða eftir því
  • sem virkilega vantar mig:
  • ég verð að komast í frí !
  • En vexti sína hefur hann
  • himinháa´---upp í ský!
  • Á vaxtamuni þá vinna kann ...
  • En verð ég að lúta því?

 

Í grein sinni Kæri Lars ritar Agnar Tómas Möller 8. þ.m. í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál (leturbr. hér):

Ákvörðun vaxta hefur líklega sjaldan verið jafn mikilvæg og nú þegar við siglum inn í jafnvægi sem við vitum í raun ekki hvar liggur vegna breyttrar samsetningar hagkerfisins. Þrátt fyrir mikla gengisstyrkingu á seinasta ári og ótrúlega forðasöfnun Seðlabankans, bendir flest til þess að viðskiptaafgangur muni ekki byrja að dragast saman í bráð þar sem þjónustuafgangur vex hraðar en vöruskiptahallinn og mikill vaxtamunur hefur ýtt undir gríðarlegt fjármagnsinnflæði, líkt og sést í tölum Seðlabankans á þriðja ársfjórðungi seinasta árs. Raunvaxtamunur við Evrópu er í dag um 5% og þarf að minnka en ekki aukast, á sama tíma og við afléttum gjaldeyrishöftum að fullu. Annars er hættan sú að nýtt jafnvægi krónunnar og hagkerfisins verði óstöðugt og brotni vegna ofriss krónunnar sökum of hárra vaxta. Blessunarlega virðist hluti peningastefnunefndar smám saman vera að átta sig á þessari þróun og vonandi mun hún ekki láta úrtölumenn hafa áhrif á sig horft fram á veginn.

Vel mælt. En þekktasti úrtölumaðurinn er vitaskuld Már Guðmundsson Seðlabankastjóri, mesti baráttujaxl fyrir háum vöxtum á Íslandi og þótt víða væri leitað, til stórfellds tjóns fyrir íbúðakaupendur og fjölda manns og fyrirtækja. Væri Íslenska þjóðfylkingin í ríkisstjórn, væri eitt forgangsmála ugglaust það að breyta lögum um Seðlabankann, svo að hægt verði að ráða nýjan seðlabankastjóra.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Afkoman í takt við væntingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðræða um sjómannaverk­fallið sem er hvorki við hæfi né ábyrg

Það er rangt hjá Þorgerði Katrínu, ráðfrú sjáv­ar­útvegs­mála, að laga­setn­ing til að stoppa verk­fallið sé "óheppileg" og "ein­fald­lega að pissa í skó­inn okk­ar." Þvert á móti er það aug­ljós skylda ríkis­valdsins að grípa inn í, í 1. lagi þúsunda verklausra manna vegna, þegar ekki hefur náðst nein sátt í viðræðum deilu­aðila, og í 2. lagi vegna ugg­laust betri mál­staðar sjómanna, sem útgerðar­menn þvinga til að borga fyrir allan sinn dýra vinnu­fatnað, þótt endingar­tíminn sé skammur, einnig vegna dagpeninga sjómanna, sem þeir borga skatt af, ólíkt dagpeningum alþingismanna! - og ennfremur vegna þess að Alþingi og ríkis­stjórn tók sjómanna­afsláttinn af þessari stétt manna sem við lengstu fjarvistir býr frá fjölskyldum sínum, leggur manna mest til samfélagsins í formi skatta, án þess að geta notað samgöngur og aðra samfélagsþjónustu í sama mæli og aðrir skattgreiðendur, og býr ennfremur við skemmri starfsævi að meðaltali en aðrar stéttir vegna vinnuálags og slysahættu.

Ríkisstjórn SA-manna, SI-manna, FA-manna og útgerðar­manna er bersýnilega ekki "kjörin" til þess að standa með málstað sjómanna, þótt margir hafi þeir eflaust glapizt á að styðja einhverja þeirra þriggja flokka sem að henni standa.

Þor­gerður biðlaði þá til deiluaðila að fara inn í vik­una með það í huga að semja og binda enda á verk­fallið. „Ég hvet menn til að hverfa frá þeim hugs­un­ar­hætti að ríkið komi að deil­unni með sér­tæk­um aðgerðum.“ (Mbl.is)

Þetta ábyrgðarlausa blaður hennar gefur sjómönnum ENGA VON, bara puttann!

Þvert á móti stefnu Sjálfstæðisflokks, "Viðreisnar" og viðhengis þeirra stendur Íslenska þjóðfylkingin með sjómönnum í þesari deilu og hefur margítrekað sett fram kröfuna um 5-6% sjómannaafslátt. Ásamt kröfu okkar um að útgerðin borgi vinnugalla sjómanna, myndi þetta nægja til að höggva á þennan verk­fallshnút, sem veldur sjómönnum og fiskvinnslu­fólki milljarða skaða í töpuðum launum, sviptir sjávar­útveginn og landið gífurlegum gjaldeyris­tekjum og ríkis­sjóð ómældum skatttekjum. Ríkið á allan hag af því, að hjól og skrúfur þessarar atvinnugreinar fari að snúast sem fyrst og skipin að stefna úr höfn á miðin.

Að Þorgerður Katrín, sem stökk aftur inn í pólitík úr hálauna-starfi fyrir atvinnurekendur, sýnir þessu engan skilning, er ekki gæfulegt fyrir traust á henni meðal kjósenda, sem geta spurt sig, til hvers hún hafi aftur farið inn á vettvang stjórnmála. Henni nægir ekki til að vinna upp tiltrú á sér að flytja skrifstofu ráðuneytis síns nokkra daga til Ísafjarðar! Menn láta ekki blekkjast af slíkri yfir­borðs­mennsku.

Vilhjálmur Vilhjálmsson í HB-Granda var í löngu opnuviðtali í Viðskipta-Mogganum nú í vikunni og er þar sérstaklega að verja það, að útgerðin fái um 30% í sinn hlut utan skiptaprósentu, af því að þetta þurfi til að dekka kostnað útgerðarinnar. En þá ættu útgerðarmenn að sýna sóma sinn í því að borga fyrir vinnufata- og hnífakostnað sjómanna. Ríkið getur svo komið til móts við deilu­aðila með því að afnema skattheimtu af dagpeningum og endurvekja sjómanna­afsláttinn, sem þeir eiga svo sannarlega skilinn. Það er auðvelt að réttlæta það með því að benda t.d. á, að norska ríkið greiðir miklar fúlgur í styrki til útgerðarfyrirtækja þar í landi.

En ætla þessir hægriflokkar sér að verða frægir að endemum: að spilla fyrir trausti á Íslandi og langtíma-markaðsuppbyggingu erlendis með því að rýna bara í naflann á sér og fara með sínar frjálshyggju-þulur?!

Leysið verkfallið strax, það er auðvelt, ef og þegar viljinn er til staðar!

Séu stjórnvöld stöð og þver í málinu eins og Þorgerður Katrín, verður að auka þrýsting á þau og opinskáa gagnrýni sem flestra. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í því efni, félagar í Íslensku þjóðfylkingunni. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Eins og að pissa í skóinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál var að linnti aðförinni að Pétri Gunnlaugssyni

Fagna ber úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að vísa frá dómi máls­höfðun gegn Pétri Gunn­laugs­syni, hdl. og útvarps­manni á Útvarpi Sögu, fyrir [meinta] haturs­orðræðu og út­breiðslu hat­urs. Óska má Pétri til ham­ingju með niður­stöðuna, einnig Jóni Stein­ari Gunn­laugs­syni hrl., verjanda hans.

Fráleitur var allur þessi mála­tilbúnaður af hálfu ákæruvaldsins og þeirra sem að baki þessu stóðu, en það voru annars vegar "lögreglufulltrúi hatursglæpa", Eyrún Eyþórsdóttir, fv. varaþingmaður Vinstri grænna, og stjórn Samtakanna 78 og lögfræðingur þeirra, hin lítt reynda Björg Valgeirsdóttir.

Vel mælt og víslega hugsuð orð á Ragnhildur Kolka um þetta mál í dag á skorinorðri vefsíðu Páls Vilhjálmssonar

"Það á að leggja niður þessa stöðu hatur­ssnuðrara innan lögregl­unnar. Nóg er af málum sem nýtt gætu meiri mannafla.

Enda er staðan pólitísk og ætlað að fylgjast með afar umdeildu pólitísku álitaefni. Orðið á að vera frjálst og aðeins á að hefta það ef um hvatningu til ofbeldis er að ræða."

Nákvæmlega. Lögreglan hefur verið fjársvelt, eins og líka Land­helgis­gæzlan (sbr. einnig hér), í mörg undan­farin ár, svo að til skammar og stórskaða hefur verið. Mál er að linni, að eytt sé stórfé úr ríkis­sjóði í pólitísk gælu­verkefni, sem virðast ekki hafa annan tilgang en að hefta eðlilegt tjáningarfrelsi.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Máli Péturs á Útvarpi Sögu vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur vill deila og drottna

Það hyggst hann gera í Reykjavík með því að hindra að aðrir en Fjór­flokk­urinn og Píratar komi mönnum að í borgar­stjórn; við það gengur honum bet­ur með því að þvert gegn lög­um verði borg­ar­full­trú­um ekki fjölg­að úr 15 við næstu kosn­ingar.

Sjálf­stæðis­flokkurinn, öllu heldur ráðandi öfl þar á bæ, hugsa jafnan fyrst um flokks­hag fremur en um lýðræðislegan valkost manna. Þetta átti sér ekki aðeins stað í aflandsskýrslumálinu í sept.-okt. sl., heldur einnig í þessu máli. Eftir að bæði borgarfulltrúi og þingmaður Sjálfstæðisflokks hafa kvabbað yfir þessari eðlilegu, með lögum ákveðnu fjölgun borgarfulltrúa, stígur nú fram Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem ætlar að "leggja fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér að skylda Reykjavíkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum eftir næstu sveitarstjórnarkosningar verði afnumin." En af hverju á að undanþiggja eitt sveitarfélag öðrum fremur lagaskyldu, hr. ráðherra? Valhallar vegna, svo að hún fái meira tækifæri til að deila og drottna? En þetta er eini flokkurinn sem á færi á því að ná meirihluta borgarfulltrúa í krafti minnihluta atkvæða, með því kerfi sem viðgengizt hefur.

En með fjölgun fulltrúanna í 23 býðst smærri flokkum, jafnvel nýjum og fjárvana, tækifæri til að ná kjöri síns fyrsta borgarfulltrúa í krafti 4 til 4,3% atkvæða. Og það er sannarlega kominn tími til að fleiri raddir og sjónarmið heyrist í borgarstjórn heldur en hingað til. Vinstri menn hafa stjórnað þar afleitlega, fara illa með fé borgarbúa, gatnakerfið, leikskólana, grunnskólana, Reykjavíkurflugvöll og mörg önnur mál, en héldu einmitt kosningafylgi sínu í krafti þess hve lítið var traustið á Sjálfstæðisflokknum eftir Hrunið og er enn.

Og þetta er ekki spurning um að auka útgjöld borgarinnar. Eitt fyrsta verk nýrrar borgarstjórnar þarf að verða að lækka verulega laun borgarfulltrúa.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Afnema sjálfvirka fjölgun fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin óvinsæl

Hún mælist nú með 35% fylgi. Sjálfstæðisflokkur hefur enn misst fylgi, er nú 1,5% lægri en í MMR-könnun 10. jan. Aðrir þingflokkar auka svolítið fylgi sitt, nema Viðreisn sem mælist nú með 6,8%.

35% fylgið er mun minni stuðning­ur en aðrar rík­is­stjórn­ir hafa mælst með við upp­haf stjórn­ar­setu.

Þetta er jafn­framt í eina skiptið sem ný rík­is­stjórn hef­ur ekki mælst með stuðning meiri­hluta kjós­enda, sam­kvæmt MMR.

Við upp­haf stjórn­ar­setu síðustu tveggja rík­is­stjórna mæld­ist stuðning­ur við þær 56% (Sam­fylk­ing­in og Vinstri græn­ir) og 60% (Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn).

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mæl­ist stærst­ur flokka í könn­un­inni með 24,6% fylgi. (Mbl.is)

Fylgistap flokks Bjarna Ben. kemur ekki á óvart eftir lélega frammistöðu hans gagnvart kjósendum í aflandseyjamálinu. Hann væri reyndar varla við stjórn­völinn nú, hefðu kjósendur verið upplýstir um feluleikinn strax í október, svo naumlega náði hann þingfylgi sínu.

46,7% kusu núverandi stjórnarflokka, og enn hrapa þeir í trausti.

JVJ.


mbl.is Lítill stuðningur við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband