Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Dagur verkalýðsins, 1. maí. Ávarp formanns Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Íslenska þjóðfylkingin sendir öllum landsmönnum baráttukveðju í tilefni dagsins.

1. maí er og á að vera hugleikinn öllum þeim sem annt er um mannréttindi og jöfnuð í samfélagi okkar.

Íslenska þjóðfylkingin hafnar nútíma þrælahaldi með innflutningi á ódýru vinnuafli, til þess eins að moka auðnum undir fáa útvalda.

Íslenska þjóðfylkingin krefst þess að lámarkslaun verði 300.000 kr., þau verði skattlaus og skerðingar krónu á móti krónu á aukatekjum öryrkja og aldraðra verði aflagðar.

Einnig mótmælir Íslenska þjóðfylkingin áformum ríkisstjórnar Íslands, sem hafa það að leiðarljósi að halda áfram skerðingum á framfærslu þeirra sem minna mega sín.

Íslenska þjóðfylkingin skorar á verkalýðsleiðtoga að standa í lappirnar og krefjast réttmætra launa, vera óhræddir við að setja inn ákvæði í samninga sem taka mið af launaskriði þeirra sjálftökustétta sem mismuna samfélaginu.

Íslenska þóðfylkingin krefst þess að hafist verði handa til verndar minni og meðalstórra fyrirtækja.

Íslenska þjóðfylkingin krefst tafarlausra úrbóta á lóðaskorti sveitarfélaganna og þeim verði skylt að útvega lóðir á kostnaðarverði. Fjármálastofnanir verði einnig skyldaðar til að koma á viðunandi fyrirkomulagi lána fyrir þá sem hyggjast ráðast í kaup eða byggingaframkvæmdir á húsnæði til eigin afnota.

Það er kominn tími til að íslenska þjóðin standi saman gegn ósanngjörnu auðvaldskerfi sem lítur á þegna samfélagsins sem þræla sína.

Guðmundur Karl Þorleifsson.


Stefnir í að Ísland verði mesta fóstur­eyðinga­land Norður­landa og þótt víðar væri leitað!

Fjölgun fóstureyðinga í 1021 í fyrra og HRIKALEG áform alþingismanna um langtum róttækari lagaheimildir gefa tilefni til að minna á, að Íslenska þjóð­fylkingin, sem er kristinn flokkur, ólíkt flokkunum sjö á Alþingi, samþykkti eftirfarandi ályktun á landsfundi sínum 2.apríl sl.:

"Ófædd börn eiga rétt til lífsins. Flokkurinn tekur einarða afstöðu gegn nýfram­komnum hugmyndum um róttækar breyt­ingar á fóstur­eyðinga­löggjöfinni og mun taka á þessum málum með það að markmiði að draga sem mest úr fóstur­eyðingum."

Hér var um ánægju­lega ákvörðun að ræða í stefnu­málum flokksins og full sátt um hana.

En með  fjölgun fóstureyðinga um næstum 100 milli ára (úr 926 árið 2015) þá er tíðnin hér komin upp í 13 fóstur­eyðingar á hverjar þúsund konur á frjósemis­aldri (15-49), en eru 13,3 á hverjar 1000 konur á Norður­löndunum. Með "líber­alíseringu" laganna frá 1975 -- með því að gera þetta formlega að "sjálfs­ákvörðunarr­étti" konunnar einnar og með lengingu fósturvígs­heimildanna úr 12/16 vikum upp í fullar 22 vikur -- stefnir þess vegna í, að Ísland verði mesta fóstur­eyðinga­land Norður­landa og þótt víðar væri leitað!

Gegn þessu mun einn flokkur standa og veita ábyrgðarlausum og gersamlega óupplýstum alþingismönnum fullt aðhald. Sá eini flokkur er Íslenska þjóð­fylkingin.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Fjölgun fóstureyðinga ekki óvenjuleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarlaus stjórnvöld vilja í raun fækka í lögreglunni um 6-8 manns!

Þegar fjölga þarf í lögreglunni um 100-200 manns, ætlar ríkisstjórnin enn að þrengja að henni með 90 millj­óna "aðhalds­kröfu" sem kostar fækkun í mannafla um 6-8 manns! Sigríður Guðjónsdóttir lögreglustjóri er ekki par hrifin: 

„Miðað við veltu embættis lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu má því reikna með að fækka þurfi um 6-8 stöðugildi lög­reglu­manna strax á næsta ári,“ seg­ir í um­sögn hennar til Alþingis.

Þá er þessi aðhaldskrafa sögð úr takti við full­yrðing­ar í frum­varp­inu að fjár­mögn­un lög­gæslu­áætlun­ar sé tryggð. Bent er á að í frum­varp­inu sé meðal ann­ars ekki minnst á að lög­reglu­mönn­um verði fækkað. (Mbl.is)

Þessum skollaleik þarf að linna. Hér er ástæða til að minna á þessi orð í einni af ályktunum landsfundar Íslensku þjóðfylk­ingarinnar 2. þ.m.:

Íslenska þjóðfylk­ingin ályktar að örygg­is­mál þjóðar­innar séu í ólestri. Mesta hættan að innra öryggi ríkisins er hryðju­verka­ógnin sem vofir yfir Evrópu­ríkjum um þessar mundir og um ófyrir­séða framtíð og er Ísland þar ekki undan­skilið. Bregð­ast þarf við á tvenn­an hátt. Annars vegar að efla lög­gæslu með því að fullmanna lögregluna og Land­helgis­gæsluna. Hins vegar með stofnun heima­varnar­liðs eða öryggis­sveita.

JVJ.


mbl.is Kallar á fækkun lögreglumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Macron og Le Pen áberandi efst í frönsku forsetakosningunum. "Bylting," segir The Times

Í 1. skipti í 59 ára sögu 5. lýðveldisins tapa stóru flokk­arnir báðir fyrri umferð. Óháði miðju­mað­ur­inn Macron er efst­ur með 23,8% atkvæða, Le Pen með 21,5%, tveir næstu með tæp 20% hvor, sósíalistinn Hamon langtum neðar með 6,5% að töldum 36,4 millj. atkvæða kl. rúml. 7 í morgun (skv. BBC, enn kl. 8.20). Um tíma var Marine le Pen komin upp fyrir Macron, en með atkvæðum úr stærstu borgum landsins hefur hann aftur komizt í efsta sætið. Þjóðfylkingin nýtur hins vegar meiri stuðnings fólks á stjálbýlli svæðum landsins.

Graphic showing results

Margir telja Le Pen eiga litla möguleika á að vinna í seinni umferðinni eftir hálfan mánuð, enda hafa flestir hinna frambjóð­endanna lýst yfir stuðningi við Emmanuel Macron, sem er sá nýi, óvænti spútnik í þessari baráttu, sem fáir bjuggust við að gæti borið sigur út býtum fyrir um hálfu ári, áður en upp fór að komast um ýmis spill­ing­armál frambjóð­enda; franska þjóðin hefur þannig kosið gegn spillingu í þetta sinn. En það er of snemmt að spá fyrir um úrslitin að lokum, það getur m.a. ráðizt af frammi­stöðu þessara tveggja í kosninga­bar­átt­unni og að ekkert nýtt og gruggugt komi upp úr dúrnum um fortíð þeirra.

En Marine Le Pen hefur staðið sig glæsilega; það hefur farið um bæði Brussel­menn og "góða fólkið" í Frakklandi, hve mikið henni varð ágengt, en meðal stefnumála hennar var að afnema evruna og að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild innan hálfs árs.

En þetta verður ekki endapunktur sögunnar; þróunin heldur áfram, m.a. ójöfn fjölgun innfæddra og aðfluttra, og í Frakklandi sem víðar í álfunni er það hægfara efni í enn meiri togstreitu, árekstra og jafnvel langtum alvarlegri þjóðfélagshræringar en hingað til það sem af er þessari öld.

Gott gengi Le Pen mun vafalaust einnig stuðla að auknum hlut frönsku Þjóð­fylkingarinnar í þing­kosningum og til héraðsþinganna og í bæjarstjórnum Frakklands. Ekki dregur það úr ánægju Íslensku þjóðfylkingarinnar með þessa snjöllu, þjóðhollu, en öfgalausu baráttukonu.

PS. The Times (of London) kallar úrslit þessara kosninga New French revolution as outsiders sweep to victory. Í fréttinni er myndband sem sýnir "how Le Pen made it to the final round." En ESB-stuðnings­maðurinn Macron fer ekki dult með hvert hann leitar styrks, enda hefur Juncker, forseti framkvæmda­stjórnar Evrópu­sambandsins, og þýzka ríkisstjórnin óskað honum til hamingju með "sigurinn".

 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Macron vill verða rödd vonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talibanar og Ríki islams eru jafn-verðug allsherjarstríðs gegn þeim

Talibanar sýna það enn og aftur með grimmdar-morðum sínum* að þeir eru af sama sauða­húsi og ISIS-menn, fremj­a fjölda­víg hvar sem þeir komast til þess.

Samt voru nokkrir íslenzkir stjórn­mála­menn að mæla upp í þeim víga­mennsk­una, hafa kannski reynt að túlka þá sem þjóðfrelsismenn í baráttu gegn erlendri heims­valda­stefnu eins og Víet Cong á sokka­bands­árum þessara misvitru stjórn­mála­manna okkar! Var Steingrímur J. sérstaklega orðaður við samúð með þessum ribbalda- og trúar­ofstækis­flokki, innfluttum raunar í kjarna sínum frá Saudi-Arabíu til Afgan­istans; en hugsan­lega hefur hann séð að sér í þessu máli, af augljósri og blóð­ugri reynslu af þessum mann­höt­urum og kven-fyrirlítendum, þótt hann kunni enn ekki að iðrast sumra innlendra synda sinna eins og í Ice­save-málinu. En svo lengi lærir sem lifir. Svo er það bara spurning með hrein­skilnina, hvort hún fái að njóta sín eða er stungið undir stól.

* Sjá tengilinn hér neðar, með hrikalegri frásögn af morðæði talibana.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Þeir drápu marga vini mína“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sönn sjálfstæðisstefna rakar að sér fylgi, ólíkt ESB-innlimunarstefnunni

Theresa May og Íhalds­flokk­ur­ hennar stefna á stór­sig­ur í boð­uð­um þing­kosn­ing­um 8. júní. Nú er fylgi þeirra jafn­vel tvö­falt á við Verka­manna­flokk­inn, skv. könn­un YouGov: 48% gegn 24%, hefur risið upp á við eft­ir ákvörðun May um kosningar í sum­ar, en í ann­arri könnun þar á und­an hjá sama fyrir­tæki var fylgi íhalds­manna 44%. Mbl.is segir frá þessu og byggir á Telegraph.

Frjáls­lynd­ir demó­krat­ar eru þriðji stærsti flokk­ur­inn með 12% og Breski sjálf­stæðis­flokk­ur­inn (UKIP) mæl­ist með 7% en var áður 10%.

Vera má, að bilið milli stóru flokkanna verði ekki svona mikið, því að

önnur skoðana­könn­un fyr­ir­tæk­is­ins Com­Res bend­ir til þess að Íhalds­flokk­ur­inn sé með 46% fylgi og Verka­manna­flokk­ur­inn 25%. Stjórn­mála­skýr­end­ur gera ráð fyr­ir að Íhalds­flokk­ur­inn vinni stór­sig­ur í kosn­ing­un­um á sama tíma og Verka­manna­flokk­ur­inn tapi miklu fylgi frá síðustu kosn­ing­um þegar flokk­ur­inn hlaut 30% fylgi. Þá var fylgi Íhalds­flokks­ins 37%. (Mbl.is)

Tvöfalt fylgi Íhaldsflokks á við Verkamannaflokk myndi hins vegar skila þeim fyrrnefnda miklu meira en tvöföldum þingmannafjölda - 200 þingmanna yfir­burðir væru líklegri.

En ljóst er af þessu, að Íhaldsflokkurinn hefur stigið skrefin í rétta átt með því að leggjast heilshugar á sveif með Brexit-stefnunni. Ástandið á Evrópu­samband­inu gefur síst tilefni til hrifningar meðal Breta, og nú er verkefnið einfaldlega að tryggja í sessi nýja stöðu mála, með fullum rétti landsins til allra sinna við­skiptasamninga, án aðkomu ESB-möppudýra, ráða og þinga í Brussel.

Við Íslendingar ættum þjóða helzt að skilja mikilvægi sjálfstæðis og fullveldis­réttinda landsins, sem tryggt hafa okkur 200 mílna landhelgi, réttinn til að ákveða veiðar okkar sjálfir (ólíkt ESB-þjóðum) og gefið okkur dýrmæta og í rauninni glæsta sigra gegn öllu veldi og ofríkis­tilburðum Evrópu­sambandsins í bæði Icesave- og makrílveiði-málunum.

Íslenska þjóðfylkingin er allra flokka einarðastur gegn inngöngu Íslands í ESB.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Fengi tæpan helming atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska þjóðfylkingin styður Le Pen sem næsta forseta Frakklands

Liberation sagði ræðu Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda Þjóðfylkingarinnar, vera mestu ...

Hér er leiðtogi Frakka, Marine Le Pen, sem stendur með sinni þjóð, eini valkosturinn sem Frakkar eiga til verndar gegn islams­væðingu landsins á borð við Tyrkland.

Eftir­far­andi sagði hún á kosn­inga­fundi:

"Ég mun vernda ykkur. Það fyrsta sem ég geri sem forseti verður að koma á frönskum landamærum á ný."

"Valkostirnir á sunnudag eru einfaldir. Það er valkostur á milli Frakklands sem rís aftur og Frakklands sem sekkur."

Íslenska þjóðfylkingin styður Le Pen sem næsta forseta Frakklands.

Guðmundur Þorleifsson. 


mbl.is Le Pen ætlar að stöðva komu innflytjenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir bregðast ýmsum sjóðfélögum sínum

Helgi Helgason, fyrrv. formaður Ísl. þjóðfylkingarinnar, fékk þessa frásögn senda í pósti (stytt af honum).

„Ég á íbúð sem ég keypti 2005. Þegar hrunið kom hækkaði afborg­unin úr um 100 þús. á mánuði í tæplega 180 þús. á mánuði. Með auka­vinnu og spar­semi hef ég getað staðið við greiðslur í öll þessi ár, meðal annars með því að hafa núðlur í hvert mál fyrir fjöl­skylduna, í mörg ár.

Svo sá ég að lífeyrissjóðurinn minn býður 3,6% vexti á lánum en lánin mín eru á 4,15% til 5,2% vöxtum. Á lánareiknivél lífeyrissjóðsins reiknaði ég út að ef ég skuld­breytti lánunum á kjörum lífeyris­sjóðsins þá myndi greiðslu­byrði lækka um 45 þús. á mánuði. Svo ég sótti um lán hjá þeim en fékk þau svör að ég gæti ekki borgað af þessu!

Lánið hjá lífeyrissjóðnum hefði verið um 130 þús. á mánuði, en síðastliðin 8 ár hef ég borgað 180 þús. af bankaláninu. Þegar ég benti á þetta var svar lífeyris­sjóðsins: „Computer says NO!“ Þegar ég spurði frekar þá var bent á neyt­endalög sem sett voru af Árna Páli (Samfylkingu og VG) og hafa verið hert af öðrum ráðherrum.

Er nema von að fólk sé að taka smálán sem bera himinháa vexti til að geta keypt sér í matinn? Sem betur fer er ég með svarta vinnu en ég er að gefast upp.“

Svona er því miður ástandið hjá mörgum í dag. En það er merkilegt að það skuli vera stjórnvöld sem standa í vegi fyrir því að fólk geti hjálpað sér sjálft. Ætli Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráherra viti af þessu?

Athyglisverð umræða um þennan pistil er hér á opinni Facebók Íslensku þjóðfylkingarinnar, og meðal annarra tekur þátt í henni hinn nýkjörni formaður Guðmundur Þorleifsson. (Aths. JVJ)


Erdogan Tyrklandsforseti fær nánast einræðisvöld, gegn fólki þar í stóru borgunum, en með stuðningi sveitafólks og Tyrkja í Evrópu

73,5% Tyrkja í Aust­ur­ríki, sem greiddu atkvæði um að færa Erdogan þessi miklu völd, sögðu JÁ, 63% í Þýskalandi, rúm­l. 75% í Belg­íu og 71% í Hollandi. Tryggari eru þeir islamista-forsetanum en lýðræðis­hugsjón Evrópu­manna. Það sama er að segja um afstöðu kjósenda á dreifbýlli svæðum Tyrklands, í Mið-Tyrklandi, sunnar og norðar við Svartahaf.

Karlinn rétt mer þetta með rúmu 51% atkvæða, og því getur það hafa ráðið úrslitum, að kosninga­svik hafi verið í tafli, eins og yfirvöld eru nú þegar sökuð um og kröfur uppi um að kæra það. En ekki auðvelda þessi úrslit gengi lýð­ræðis­flokka og fjölmiðla að andmæla hinum yfirlýsta islam­ista Erdogan, en nú þegar hefur hann beitt blöð, útvarps- og sjónvarps­stöðvar miklu harðræði eftir uppreisnar­tilraunina gegn honum í fyrra.

Að vera með mikinn meirihluta meðal hinna 2,9 milljóna Tyrkja í Evrópu á bandi forsetans í þessu máli, styrkir ekki trú fólks hér í álfu á að gott geti hlotizt af því að standa uppi í hárinu á Erdogan varðandi flótta fólks í gegnum Tyrkland til Evrópu. Fyrir að halda slíkum flótta í skefjum fær tyrkneski ríkissjóðurinn mörg hundruð milljarða árlega frá ríkjum eins og Þýzkalandi, Austurríki og Evrópu­sambandinu, en Erdogan hefur þegar ítrekað beitt þeim hótunum, að flóttamannabylgju verði hleypt í gegn, ef stjórn­mála­stétt Evrópu­ríkja situr ekki og stendur eins og honum þókknast.

Menn geta svo leitt getum að því (m.a. með hliðsjón af því, að erfitt er að þjóna tveimur herrum), hvort tugir milljóna annarra múslima í Evrópu hafi til að bera sam­bærilega afstöðu gagnvart lýðrétt­indum og lýðræðis­skipulagi búsetu­ríkja sinna eða vilja fylgja islömskum siðvenjum, m.a. sjaríalögum, en fjöldi sjaría­dómstóla er nú þegar við lýði í Bretlandi, Þýzkalandi o.fl. Evrópu­löndum, með sorglegum afleiðingum. Eitt er víst, að ekki styrkir þetta réttindi kvenna.

Við Íslendingar þekkjum fleiri en eitt dæmi um mikla erfiðleika íslenzkra kvenna, sem gifzt hafa múslimum og annaðhvort misst allt forræði barna sinna* eða verið nálægt því.**

* Sophia Hansen missti þannig af forræði sinna dætra og mestöllum samgangi við þær.

** Sbr. bókina Barist fyrir frelsinu eftir fjölmiðla­mógúlinn Björn Inga Hrafns­son (287 bls., Vaka-Helgafell 2002), en efni bókarinnar er lýst þannig á forsíðunni: "Áhrifamikil saga Guðríðar Örnu Ingólfsdóttur og Hebu Shahin og ævintýralegur flótti þeirra frá Egyptalandi."

Jón Valur Jensson.


mbl.is Meirihluti Tyrkja í Evrópu sagði já
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllings-ofsóknir islamista gegn kristnum í algleymingi: 37 koptar drepnir við messur í Egyptalandi þennan pálmasunnudag!

Þetta gerðist í tveimur kirkjum. "Ríki islams" lýsti ábyrgð á hendur sér vegna beggja hryðjuverkanna,* þar sem 37 að minnsta kosti eru látnir.**

Níu milljónir talsins eru koptar í Egyptalandi, einn elzti kristni trúflokkur heims, og hafa orðið fyrir sífjölgandi árásum af hálfu heittrúar-múslima á síðustu misserum.***

Er nú svo komið, að ofsóknir gegn kristnu fólki í heim­inum eru orðnar á borð við það sem mest hefur verið áður,**** í hinu heiðna Rómaveldi.

Þetta hefur heimurinn haft upp úr linkind við öfgamúslima. Ef Evrópu- og Amer­íku­menn taka ekki rækilega við sér vegna blóðbaðsins gegn kristnum mönnum í Mið-­Austur­löndum, fer það þó að gerast í sívaxandi mæli þegar spjótin taka að beinast gegn þeim sjálfum og kristni­haldi meðal vest­rænna manna.

Einn þáttur í vitundar­vakn­ingu Evrópu­manna hlýtur að vera því bundinn hvernig ISIS-samtökin hafa hagað sér í Frakklandi, Belgíu, Rússlandi og Svíþjóð síðustu eitt-tvö misserin. Stóraukið fylgi við flokka, sem taka afstöðu gegn hinni óvin­sælu múslima­væðingu landanna, er ein helzta afleiðingin. Nú eru t.d. Svíþjóð­ar­demókratar komnir með næstmest fylgi allra sænskra flokka, og Marine Le Pain verður að minnsta kosti nr. 2 í kapphlaupinu í frönsku forseta­kosningunum á næstunni. Pólitískir andstæðingar Íslensku þjóðfylkingarinnar geta aðeins skamma hríð dulizt þess sannleika, að í sömu átt mun þróunin ganga hér á landi.

* http://news.sky.com/story/deadly-explosion-near-a-church-in-egypt-10831418  

** http://edition.cnn.com/2017/04/09/middleeast/egypt-church-explosion/index.html

*** Sbr. hér: Fremja sannir múslimar og karlmenni fjöldamorð á kristnum konum og börnum?

**** Sjá hér: Um árleg tvöföldun á fjölda kristinna sem láta lífið vegna trúar sinna (úr predikun sr. Maríu Ágústsdóttur í Dóm­kirkjunni) og hér: Ofsóknir á kristnu fólki 2015 jöfnuðust á við þjóðernishreinsanir

Jón Valur Jenssson.


mbl.is 35 farast í mannskæðum árásum á kirkjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband