Föstudagur, 12.7.2019
Bandarísk trúfélög vilja hjálpa til við að rétta af vinstri slagsíðuna í evrópskum stjórnmálum
Allir vita hvernig efnishyggja og eiginhagsmunir stórfyrirtækja tröllríða stjórnmálaflokkum, hér á landi sem annars staðar. Verða mörg mjúku málin undan að láta, jafnvel líf hinna ófæddu, og heiðarlegir, réttlætissinnaðir flokkar eiga erfitt uppdráttar gegn þeim pólitísku veldiskjörnum sem þrífast á mútugreiðslum og öðrum framlögum auðkýfinga og fyrirtækja, sem leita áhrifa í löggjafarsamkundum og sveitarstjórnum, sjálfum sér í hag.
Þess vegna er það einmitt svo ágætt, sem Guðrún Hálfdánardóttir segir frá í grein sinni á Mbl.is, að a.m.k. 50 milljónir Bandaríkjadala, 6,3 milljarðar króna, hafa komið frá mörgum bandarískum trúarhópum til stuðnings við evrópska flokka sem beita sér gegn dæmigerðum vinstri og öfgafrjálshyggju-áherzlum eins og fósturvígum, harðri LGBTQ-stefnu og þeirri fásinnu að leyfa svo til hömlulausan innflutning fólks til Evrópu frá næstu heimsálfum.
Meðal þeirra samtaka, sem hafa tekið til hendi í þessu efni, eru Billy Graham-trúboðssamtökin, sem af rausnarskap hafa gefið 20 milljónir Bandaríkjadala til evrópskra stjórnmálahreyfinga árin 2008-2014.
Því ber að fagna, að það eru ekki lengur efnishyggjurekandi stórfyrirtæki sem ein eða öðrum fremur sitja (með útsendurum sínum og áhrifum) að kjötkötlum stjórnmálaflokka, heldur sýna kristin samtök og kirkjufélög í Ameríku nú ábyrgð í verki með því að rétta hjálparhönd hinum fjársveltu kristnu flokkum í Evrópu og þeim sem standa gegn glórulausum glóbalisma í anda Georgs Soros og Angelu Merkel.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 04:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.