Sunnudagur, 27.5.2018
Augljóst tímamótamarkandi TAP Samfylkingar í borginni, sér í lagi Borgarlínu! Fögnum því! -- AFHROÐ ÍÞ!
Jafnvel í meirihluta vinstrisins með "Viðreisn" og FF næðist þar ekki meirihluti með Borgarlínu; Flokkur fólksins hafnar henni!
AFHROÐ beið Ísl. þjóðfylkingin öllum flokkum fremur. Skal hér reynt að ráða í ástæður þess, en fyrst þetta:
Flokkurinn þurfti 160 manns til að styðja framboðið, fekk raunar heldur fleiri), en þegar 25 frambjóðendum hans er bætt við þá tölu, gerir það 185 manns, sem hann hefði átt að eiga vísa, en hann fær þó ekki nema 115 atkvæði (0,21%, lægstur allra flokkanna) í kosningunni! (og er raunar ekki einn um þetta, R-listi, Y-listi og Þ-listi náðu heldur ekki jafnmörgum atkvæðum og í fjölda undirskrifta og frambjóðenda, en slíkt hefur áður viljað til í kosningum, eins og Ólafur Þ. Harðarson benti á í nótt). Allt slíkt krefur flokksmenn ÍÞ að taka sér tak í sjálfsgagnrýni og algeru endurmati á stöðunni. En sé útkoma Ísl. þjóðfylkingarinnar borin saman við það, sem Svíþjóðardemókrötum er spáð í þingkosningum þar í haust, þ.e. 18,5% atkvæða, þá er hér um gerólíkt ástand að ræða og þeim mun meira kinnroða-efni fyrir okkar íslenzka flokk. En tökum eftir þessu: Í alþingiskosningunum 2016 fekk Íslenska þjóðfylkingin fleiri atkvæði í Suðurkjördæmi heldur en í hinni margfalt fólksfleiri Reykjavík nú. Í báðum tilvikum var þó Guðmundur Þorleifsson oddamaður viðkomandi lista, en 2016 fekk hann 0,8% atkvæða í Suðurkjördæmi, þ.e. 213 atkvæði, fleiri en nú!
Þá er að spá í ástæðurnar, sem að baki ósigursins nú gætu hafa búið:
- Það dugar ekki að kenna Sigríði Hagalín Björnsdóttur einni eða helztri um ástæður afhroðsins, en hún á þar óneitanlega hlut að máli. (Með tilvitnun í kosningavakt undirritaðs í nótt: "Lokakvöldið fyrir kosningarnar tókst afar illa, hefði ella getað gefið býsna mörg atkvæði, en flokkurinn kom ekki traustsverður eða afgerandi út, hvað þá sigurstranglegur, og átti sinn þátt í því afar frekjuleg atlaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur að formanni Þjóðfylkingarinnar, einstaklega ófagleg framkoma fréttakonunnar, og mun hún ekki koma vel út úr því, professionelt, þegar orðaskipti þeirra verða krufin eftir á. Þetta kom í opna skjöldu hjá formanninum og hún síðan snögg að gefa honum ekkert færi á að svara, heldur sneri hún sér að öðrum og öðru efni!!! Og hlutir sem hún hélt fram þarna, um múslima bæði á Íslandi og erlendis, standast ekki heldur. Þessi rammhlutdræga og fordómahlaðna manneskja á ekki heima í slíkum úrslitaþætti í sjónvarpssal daginn fyrir kosningar.") Bæta má við, að formanni ÍÞ var augljóslega gefinn minni tími í þættinum heldur en öðrum oddvitum flokkanna -- klárt hlutleysisbrot Rúv, en kemur ekki úr óvæntri átt! -- og hefði formaðurinn vissulega átt að bregðast mjög hart við árás SHB og þöggunarviðleitni þáttarstjórnendanna.
- Ýmsir, sem ella hefðu greitt ÍÞ atkvæði sitt, hafa augljóslega gert eitt af þrennu, þegar þeir sáu hvað við blasti í síðustu Gallupkönnun (0,1% fylgi) og í lok kynningarkvölds flokkanna í fyrrakvöld, 25/5, þ.e.a.s.: þeir hafa ákveðið 1) að mæta ekki á kjörstað eða 2) að skila auðu (auðir seðlar í Reykjavík reyndust 1.268 (2,1%) og ógildir 183 (0,3%)) eða 3) að "kjósa taktískt", þ.e. að nota atkvæði sitt, í gjörtapaðri stöðu, til að styðja þá annan flokk í staðinn, og hafa þá trúlega flestir þeirra kosið Sjálfstæðisflokk eða Flokk fólksins eða hugsanlega Miðflokkinn.
- Almenn þöggun af hálfu fjölmiðla um framboð ÍÞ og beinlínis rógmælgi margra fjölmiðlamanna um flokkinn.
- Skortur flokksins á rekstrarfé, á sama tíma og allir flokkarnir á Alþingi gátu gengið í milljónatuga-sjóði flokksskrifstofa sinna til að auglýsa frambjóðendur sína sem mest þeir máttu í blöðum og sjónvarpi, prenta litmyndabæklinga til dreifingar, leigja flettispjöld o.s.frv. (Einhverjir gætu gert þá athugasemd við þetta, að Sósíalistaflokkurinn nýi hafi verið í hliðstæðri stöðu peningaleysis, en aðstaða hans var um margt ólík: a) hann var nýtt og "ferskt" afl, ÍÞ ekki; b) hann hafði verulega fjölmennari grasrót á að skipa; b) Gunnar Smári átti trúlega hlut að sniðugum aðferðum flokksins til dreifingar kynningarpésa/blaða, m.a. í innkaupakörfur stórmarkaða! og tilhöfðun til útlendinga (margra óupplýstra) og plaggötum hér og þar, sem og auglýsingum í fjölmiðum; flokknum hefur greinilega áskotnazt meira söfnunarfé en ÍÞ, c) en helzta ástæða velgengni þess flokks, sem hlaut 6,37% og einn mann kjörinn (konu raunar) hefur trúlega verið tenging hans við uppreisina nýlega í stéttarfélaginu Eflingu, enda var Sólveig Anna Jónsdóttir (Múla), hinn nýkjörni formaður Eflingar, í 6. sæti á lista þessa "Sósíalistaflokks Íslands", og víðtækt andóf er nú í verkalýðshreyfingunni gegn Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, og stöðnuninni í baráttu undangenginna ára, og það hefur trúlega smitazt yfir í áhuga á framboði Sósíalistaflokksins, og þar til kemur líka vaxandi óánægja vinstri manna með Vinstri græn, enda tapaði sá flokkur miklu fylgi.)
- Of fáum fulltrúum ÍÞ var teflt fram til baráttunnar í fjölmiðlum.
- Í ljósi fyrri reynslu (en einkum þó í ljósi reynslunnar af kynningarkvöldinu í Sjónvarpi 25. maí) hefði harðskeyttur baráttukraftur Jens G. Jenssonar skipstjóra (3. frambjóðanda flokksins í Reykjavík) trúlega nýtzt flokknum betur en heldur daufleg frammistaða formannsins.
- Sá klofningur þessarar hreyfingar allrar, sem átti sér stað á haustdögum 2016, nokkrum vikum fyrir alþingiskosningarnar þá, hefur haft varanleg skaðsemisáhrif á gengi og framgang þeirra stefnumála sem lagt var upp með í byrjun. Almenningur sér það ekki sem trúverðugt að fulltrúar tveggja slíkra framboða standi hlið við hlið í sjónvarpssal og reyni að boða sömu stefnuna, en bítist á um sömu atkvæðin; hugsunin: "Af hverju gátu þeir ekki staðið saman, í stað þess að kljúfa sig upp í stríðandi einingar," kemur án efa upp í huga margra; "er þetta þá orðin spurning um metnað einstaklinga fremur en samstöðu um stefnu og hugsjónir?" En ábyrgðina á klofningnum 2016 bera þeir, sem tóku ákvörðun um hann (þ.á m. núv. formaður Frelsisflokksins) og gerðu hann heyrinkunnan alþjóð og reyndu að fá sem flesta til að draga sig til baka af framboðslistum ÍÞ í því skyni að spilla fyrir framboðinu.
- Slæm áhrif þessa klofnings birtast ljóslega í því, að ef hann hefði aldrei átt sér stað og þau þrjú framboð, sem leggja áherzlu á að standa gegn mosku og framtíðar-islamsvæðingu landins, þ.e. E-listinn (ÍÞ), O-listinn (Borgin okkar, á vegum Sveinbjargar Birnu) og Þ-listinn ("Frelsisflokkurinn"), hefðu þess í stað snúið bökum saman um EITT framboð í borginni, þá hefði niðurstaðan ekki orðið, respective, 0,21% fylgi + 0,39% + 0,22% = 0,82%, heldur sennilega miklu fremur fimmfalt meiri, einfaldlega vegna (1) meiri trúverðugleika og samstöðu, sem er forsenda trausts kjósenda, (2) vegna meiri áhrifa slíks bandalags á úrslit skoðanakannana og síðan áhrifa þeirra á val fólks á framboðum til að kjósa, (3) til þessa bendir það líka, að í raun eru Íslendingar mjög mótfallnir bæði mosku hér og mótfallnir fjölgun flóttamanna; hvort tveggja hefur komið skýrt fram í nýlegum skoðanakönnunum; (4) þar að auki náði Ísl. þjóðfylkingin mest upp í 3,6% fylgi árið 2016, áður en klofningurinn átti sér stað.
Jón Valur Jensson.
Hættið að röfla um borgarlínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.5.2018 kl. 03:38 | Facebook
Athugasemdir
Ég hafði nýlega hlýtt á Jens G Jensson í viðtali á útv. Sögu og fannst hann með eindæmum mælskur og málefnalegur.
Helga Kristjánsdóttir, 28.5.2018 kl. 01:56
Innilega sammála þér, Helga, hann er afar mælskur og röksnjall og með allt sitt á hreinu við að kynna sinn (og okkar) góða málstað.
Með kærri kveðju,
JVJ.
Íslenska þjóðfylkingin, 28.5.2018 kl. 03:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.