Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur sem kveður á um að erlendur karlmaður, sem synjað var um hæli hér á landi skuli sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2.október. Lögregla telur manninn ógna almannahagsmunum en hann hefur ítrekað komist í kast við lögin undanfarnar vikur. Maðurinn villti á sér heimildir fyrir íslenskum yfirvöldum og er brotamaður samkvæmt ógnarmati RLS.
Manninum var synjað um vernd síðast með ákvörðun kærunefndar útlendingamála 26. janúar á þessu ári Unnið er að því að brottvísa manninum frá Íslandi og er embætti Ríkislögreglustjóra í því skyni í samskiptum við yfirvöld í móttökulandinu.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að maðurinn hafi sótt um hæli á Íslandi í september 2015. Gaf hann þá upp ákveðið nafn og sagðist vera frá Marokkó. Sagðist hann einnig hafa setið í fangelsi í Marokkó í fimm mánuði vegna þátttöku sinnar í andspyrnuhreyfingu.
Þá kemur fram að lögregla hafi ítrekað haft afskipti af manninum undanfarna mánuði, meðal annars vegna hótana, ógnandi og annarlegrar hegðunar hans, ofbeldis og fíkniefnalagabrota. Í kjölfar þess hafi farið fram ógnarmat á manninum hjá embætti Ríkislögreglustjóra þar sem meðal annars var óskað eftir upplýsingum frá erlendum löggæslustofnunum um hann. Við gerð matsins kom í ljós að maðurinn hafði birt mynd á Facebooksíðu sinni 1. ágúst sl. tengda hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og ritað Ísland undir myndina.
Maðurinn leyndi eftirnafni sínu fyrir íslenskum yfirvöldum og villti þannig á sér heimildir. Gaf hann upp nokkur mismunandi nöfn og útgáfur af nafni sínu og annað fæðingarár, meðal annars í Noregi, Belgíu, Hollandi og Frakklandi. Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegum löggæslustofnunum gerðist maðurinn sekur um þjófnaði í Noregi á árinu 2014, notaði fölsuð ferðaskilríki í Hollandi, braut útlendingalög í Frakklandi á árinu 2008 og þá er hann skráður í málaskrá lögreglu í Marokkó fyrir ofbeldi og hótanir í garð foreldra sinna árið 2012.
Niðurstaða ógnarmats RLS er sú að maðurinn sé brotamaður og fullt tilefni til að lögregla ynni í hans málum vegna ógnandi og undarlegs atferlis hans.
Mál sem eru til meðferðar og rannsóknar lögreglu undanfarna mánuði í tengslum við manninnn eru tíu talsins og eiga sér stað á tímabilinu 6.júlí til 2.september á þessu ári ...
----Rakið er þetta nánar á DV.is, látum fyrsta tilfellið nægja hér:
6. júlí sl. barst lögreglu tilkynning um að maðurinn hefði verið nakinn og blóðugur og gengið berserksgang. Braut hann topplúgu á bifreið og tók um andlit manns, reif af honum gleraugun og klíndi blóði í fötin hans. Sagðist hann hafa neytt lyfja og reykt maríjúana áður en þetta gerðist og því ekki getað ráðið við sig og ekki geta útskýrt hegðun sína....
----Að lokum: "Var það niðurstaða héraðsdóms að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi til 2.október og hefur Hæstiréttur sem fyrr segir staðfest úrskurðinn." (DV.is)
Já, hingað koma ýmsir sem notfæra sér gestrisni okkar og misnota aðstöðu sína, með álagi á okkar allt of fámenna lögreglulið, að ógleymdum ríkissjóði og skattgreiðendum, en nú er talið, að heildarkostnaður vegna hælisleitenda og flóttamanna á þessu ári einu saman sé ekki undir 14 milljörðum króna. En í boði veiklyndra pólitískra flokka eins og "Viðreisnar" og "Bjartrar framtíðar", auk VG, Samfylkingar og Pírata, sem og jafnvel í boði Sjálfstæðisflokksins, hefur þetta verið liðið og umborið og því jafnvel hossað í umræðum manna sem dæmi um mannúð og umburðarlyndi!
Ef þetta, þessi óumbeðni kostnaður samfélagsins, er þeirra mannúð og umburðarlyndi, biðjum þá heldur um vægð stjórnvalda við fátæka Íslendinga, aldraða og öryrkja og jafnvel fárveikt fólk sem hírist í tjöldum og má senn búast við mun kaldari nóttum!
Eitt er víst: að Íslenska þjóðfylkingin tekur málstað Íslendinga fyrst og fremst, ekki þeirra sem misnota sér græskulausa gestrisni okkar og ástæðulausa vorkunnsemi.
Jón Valur Jensson.