Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 2.1.2017
Hefjast mun barátta á móti og með Evrópusambands-umsókn
þ.e.a.s. ef af stjórnarmyndun verður hjá Sjálfstæðisflokki, "Viðreisn" og "Bjartri framtíð" sem hafa 1 þingmanns meirihluta.
Íslenska þjóðfylkingin er eindregið andvíg inngöngu í stórveldið!
Ætla má, að með orðalaginu, sem þarna er viðhaft ("að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi viðræður við ESB á ný") telji Bjarni Benediktsson sig standa við fyrri stjórnarstefnu sína, þ.e. að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og hans ákvað að draga ESB-umsóknina formlega til baka með bréfi utanríkisráðherra til Evrópusambandsins; nú sé þannig ekki verið að fella þessa ákvörðun í mót Samfylkingarmanna, sem vildu einfaldlega "halda áfram viðræðunum", heldur að gefa þjóðinni færi á því að taka ákvörðun um nýjar viðræður, sem gerist þá með nýrri aðildarumsókn.
Við höfum ekkert að gera með að ganga inn í Evrópusambandið, sem sjálfur Jón Baldvin Hannibalsson hefur lýst sem svo, að sé eins og að ganga inn í brennandi hús. Síðan hann mælti þau orð, hefur atvinnuleysið haldið þar áfram á fullu og evran sigið og andstaðan aukizt við sambandið og ekki aðeins í Bretlandi, þar sem meirihluti þjóðarinnar ákvað að segja landið úr Evrópusambandinu. En Bretar eru okkar helzta viðskiptaþjóð og því enn síður ástæða til þess nú en fyrir fáum árum að ganga inn í þetta hálf-dauðvona, en valdfreka samband.
Valdfrekjan birtist í kröfum þar innan borðs um auknar valdheimildir á sviði bæði efnahagsmála og varnarmála, en stefnt er þar nú að stofnun ESB-hers. Yrði meðlimaþjóðunum, jafnvel þeim sem engan her hafa, ekki hlíft við framlagi til þess hers.
Höldum uppi merki sjálfstæðs og fullvalda Íslands.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Þjóðaratkvæði um ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 31.12.2016
Losum okkur undan áþján bankaauðvaldsins
Ágætt er að heyra hvatningar til þjóðarinnar og minnt á góðan árangur í mörgu. En hvað er að hjá forsætisráðherra sem segir okkur þurfa lægri vexti, en gerir ekkert í málinu?
Það er vaxtaokurs-stefna Seðlabankans og bankanna, sem einna mest háir fjárhagslegri velferð heimilanna í landinu.
Dæmi má taka af 9,2 millj. kr. Íbúðalánasjóðs-láni, sem tekið var 2010. Það stendur nú í 8.584.000 kr. fyrir 67. afborgun. Að breyttri vísitölu neyzluverðs úr 365,3 stigum í júlí 2010 í 438,4 stig nú í árslok væru þessar 9,2 milljónir orðnar jafnvirði 11.044.031 kr., en eftir 67 afborganir eru eftirstöðvarnar með verðbótum orðnar 10.301.807 kr., sem sé um 700.000 kr. lægri en uppreiknaða verðið. Samt hefur verið borgað um 60.000 kr. af láninu mánaðarlega í 67 greiðslum!
Í hvað fara greiðslurnar þá, verðtrygginguna? NEI, heldur vaxtagreiðslurnar. 5% vextir eru af láninu. Af 60.813 kjr. afborgun 1.1. 2017 eru heilar 35.828 kr. VEXTIR, afborgun af nafnverði er 14.782, en afborgun verðbóta aðeins 2.958 kr. og verðbætur vegna vaxta 7.170 kr.
Með því að lækka þessa vexti niður í 2% myndi mánaðarleg afborgun lækka gríðarlega, vextirnir niður í 14.331 kr. og verðbætur vegna vaxta niður í 2.868 kr., samtals 25.800 króna lækkkun frá mánaðarlegu afborguninni!
Ætlar forsætisráðherra að gera eitthvað í málinu?
"Íslenska þjóðfylkingin vill almenna skuldaleiðréttingu íbúðalána og afnema verðtryggingu" (úr stefnuskrá), en meðan verðtryggingin helzt við, viljum við, að sett verði 2% þak á verðtryggðar vaxtagreiðslur íbúðalána og að okurvextirnir af óverðtryggðum íbúðalánum verði einnig færðir niður.
Íslenska þjóðfylkingin þakkar stuðningsfólki sínu árið sem er að líða og óskar landsmönnum öllum gæfu og gengis á nýju ári.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Þörf að endurskoða peningastefnuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2017 kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28.12.2016
Reynsla fólks og yfirsýn vegur þungt í fullveldismálum - En geta þrír flokkar teflt þeim í tvísýnu?
Þetta mun hafa sín áhrif í næstu kosningum: að í haust var kjörsókn minnst meðal kjósenda 20-24 ára, 65,7%, en mest hjá kjósendum 65-69 ára, 90,2%.
Þeir reynslumiklu, sem lengst hafa unnað sjálfstæði landsins, hafa þeim mun meiri ástæðu til að kjósa Íslensku þjóðfylkinguna. Og hér skulu menn minntir á, að þetta er sá flokkur landsins, sem einarðlegast stendur gegn því, að Ísland verði innlimað í Evrópusambandið. Miklar efasemdir verður að hafa um það, hvort þeim þremur flokkum, sem nú sitja að stjórnarmyndunarviðræðum, sé treystandi fyrir sjálfstæði Íslands gagnvart hinu volduga og ágenga Evrópusambandi. Tveir þeirra flokka, "Viðreisn" og "Björt framtíð", eru báðir beinlínis flokkar ESB-innlimunarsinna! Sá þriðji, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur ítrekað brugðizt sínum eigin landsfundum í sjálfstæðismálum (Icesave-málinu og að segja upp Össurarumsókninni um inngöngu í ESB; sá sami Össur fekk rauða spjaldið 29. okt. sl., en enn trássast Bjarni Benediktsson við að fylgja stefnumótun eigin flokks; greinilega þarf að fylgjast með atferli hans á næstunni).
Við í Þjóðfylkingunni höfnum ennfremur hinum alls óþarfa Schengen-samningi, viljum njóta hér óskoraðs fullveldis yfir okkar landamærum, innflytjenda- og aðlögunarstefnu. Í því sambandi vörum við líka við hinum slapplegu ákvæðum nýrra útlendingalaga, sem taka hér gildi eftir aðeins fjóra daga!
Þá er úrsögn úr EES einnig á stefnuskrá Íslensku þjóðfylkingarinnar, en í staðinn lögð áherzla á tvíhliða fríverzlunar- og viðskiptasamninga.
Jón Valur Jensson, meðlimur í flokksstjórn ÍÞ.
![]() |
65,7% kjörsókn hjá 20-24 ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9.12.2016
Öryggishagsmunir sjómanna fyrir borð bornir
Hagsmunir evrópskra, mikið til múslimskra hælisleitenda, sem hafa hér engan landnemarétt, skipa nú hærri sess hjá stjórnvöldum og Rauða krossinum heldur en sú nauðsyn að fækka hér hvorki björgunarþyrlum né áhöfnum varðskipa Landhelgisgæslunnar!*
Vanhæf ríkisstjórn!
JVJ.
* Sjá fyrri grein hér og aðra hér og þá þriðju hér: Við núverandi ástand þyrlumála verður ekki unað til lengdar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7.12.2016
Reyndu að vakna, Bjarni! Afborganir skulda eiga ekki að ganga fyrir lífsöryggi landsmanna! Gæslan þarf sitt rekstrarfé!
Það ber að lýsa fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir að fjársvelta Landhelgisgæsluna. Þar er tekin áhætta um líf og limi sjófarenda, ferðamanna, sjúkra og slasaðra næstu mánuði og misseri.
Bjarni Benediktsson, hættu að safna í þinn peningagrís eða láta afborganir skulda ganga fyrir lífsöryggi landsmanna!
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að komið sé að vendipunkti hjá starfsemi Gæslunnar með frumvarpi um fjárlög sem lögð verða fram á Alþingi í dag. Fyrir liggi að segja þurfi upp áhöfn af varðskipi og 165 daga á ári verði ekkert varðskipt við Íslandsstrendur, sem sé algjörlega óviðunandi. (Vísir.is: Forstjóri LHG: Ísland varðskipalaust 165 daga ársins, þyrlu skilað og starfsmönnum sagt upp).
Hér er komið upp uggvænlegt ástand vegna eilífrar, óskiljanlegrar aðhaldssemi núverandi stjórnvalda á þessu sviði, ráðherra sem slá sig til riddara fyrir sparsemina, en gætu með þessu verið að taka á sig ábyrgð vegna mannfórna á næstunni, Þegar of seint og illa tekst að bregðast við stórslysum og háska.
Georg greinir frá því að niðurskurður hjá Landhelgisgæslunni hafi verið um 30% frá árinu 2009, sem svarar um 1.200 milljónum. Til að fylla aðeins í það gat hefur stofnunin aflað sértekna með vinnu í útlöndum og notað til þess gömlu skipin sín. Þau eru aftur á móti ekki lengur tæk í þau verk vegna þess hve gömul þau eru orðin og því verður stofnunin af í það minnsta 700 milljónum króna á næsta ári.
Til þess að halda úti lágmarksþjónustu óskuðum við eftir 300 milljónum en verði þetta að lögum þýðir það í raun að við föllum fram af ákveðinni brún. Við erum búin að vera á línunni í langan tíma en þetta ýtir okkur fram af þessari brún.
Hann segir afleiðingarnar þær að að ekki verður unnt að gera út varðskip nema hluta árs og allt bendir til þess að stofnunin þurfi að skila einni af þremur þyrlum sem hún hefur til umráða.
Þetta þýðir á mannamáli að Landhelgisgæslan er ekki lengur öruggur þáttur í leitar- og björgunarkeðju þessa lands, segir Georg í sömu frétt á Mbl.is og heldur áfram:
Ná ekki að sinna útköllum
Forstjórinn bætir við að stofnunin muni illa geta farið út á sjó að sækja sjómenn eða aðra sem eru í nauðum þar og að almennt séð nái hún ekki að sinna þeim útköllum sem hún þarf að sinna. Verkefnin hafi aukist gríðarlega með fjölgun ferðamanna og útköll á þyrlu haldist í hendur við þá 30-40% aukningu sem hefur orðið á milli ára í þeim geira. Jafnframt hafi siglingar í kringum landið og innan leitar- og björgunarsvæðis stofnunarinnar aukist mikið. Ekki verði hægt að mæta því miðað við frumvarpið sem núna liggur fyrir.
Kjósendur Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks geta ekki verið hreyknir af sínum leiðtogum fyrir frammistöðuna í þessu máli. Gæslan er að biðja um litlar 300 milljónir króna (og þyrfti miklu meira), en fær ekki. Á sama tíma ausa þessi stjórnvöld yfir milljarði króna ár eftir ár í evrópska hælisleitendur sem hafa ekkert hingað að gera, eiga hér ekkert tilkall til ríkissjóðs og ætti að senda samstundis til baka með frímerki á rassinum.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Geigvænlegar afleiðingar fyrir Gæsluna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6.12.2016
Skammarleg skammsýni í málefnum Gæslunnar
Það er skammarlegt að Landhelgisgæslunni verður nú gert að fækka um heila varðskipsáhöfn á næsta ári! auk þess sem draga þarf úr annarri starfsemi, ef fjárlagafrumvarp, sem nú er lagt fram, verður að veruleika, með áframhaldandi alls óþörfum aðhaldsaðgerðum.
Þetta er í fullkominni andstöðu við stefnu Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem "vill stórefla löggæslu, landhelgis- og tollgæslu og auka þátttöku Íslands í öryggis- og varnarmálum með beinum hætti." Hér er stefnuskrá flokksins: thjodfylking.is/stefnan.
Jafnframt er vitað, að fjölga þarf um a.m.k. 150 manns í lögregluliði landsins. Að fresta því ár eftir ár, eftir sársaukafullar sparnaðaraðgerðir, gengur ekki lengur, og furðulegt að nýjum, kostnaðarmiklum gæluverkefnum í þágu pólitísks rétttrúnaðar hefur nú verið hrint af stokkunum í nýrri undirdeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á sama tíma og fé er ekki tiltækt til að manna nauðsynleg störf og vaktir í löggæslunni.
Sbr. einnig: Við núverandi ástand þyrlumála verður ekki unað til lengdar
JVJ.
![]() |
Gæslan þarf að draga úr starfsemi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22.11.2016
Skoðanakannanir benda strax til breytinga frá fylgi flokka í kosningunum
Sú nýjasta var hjá Útvarpi Sögu 18.-21. nóv. Þar var fylgi D-lista 31,3%, B 17,8%, P 6,6% aðeins, VG 4,7%, Samfylkingar 2,7%, BF um 2%, Viðreisnar undir 2%. Mistök voru það að hafa ekki með smærri flokkana, því að "annað" kusu heil 32,9%. Víst er, að þar á Íslenska þjóðfylkingin eitthvað í þeim atkvæðum, enda var hún á leið upp á við fram undir miðjan október, þegar hún var svikin í tryggðum af nokkrum talsmönnum sínum, og meðal hlustenda Útvarps Sögu hefur hún notið vinsælda, fekk þar raunar lygileg 32,93% i könnun fyrir miðjan október.
Könnun MMR 15. nóv. er sýnd hér á eftir. Þar er augljóst, að dregið hefur úr fylgi Pírata, sá flokkur stefnir í sömu átt og Samfylkingin hefur gert. Íslenska þjóðfylkingin er þar með o,6%, eftir hið mikla afhroð sem hún galt vegna árása fjórmenningahóps innan hennar á framboðin 13.-14. okt. En einmitt í MMR-könnun birtri 14. okt. var Þjóðfylkingin með 2,8% stuðning, áhrif svikanna þá ekki komin í ljós, en gerðu það vitaskuld í kosningunum, þar sem þau höfðu valdið því, að einungis var hægt að bera fram í tveimur kjördæmum (í NV-kjördæmi fengum við 0,5%, en 0,8% í Suðurkjördæmi). Heildar-hrun flokksins var í þessu ljósi skiljanlegt, en við erum að safna kröftum á ný og munum bjóða fram aftur og ekki síðar en í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2018.JVJ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16.11.2016
Aðeins í áttina í stað glataðs sjómannaafsláttar
Vonir eru bundnar við að ákveðin skattfríðindi fáist hjá ríkinu vegna fæðispeninga sjómanna, sem þeir greiða raunar sjálfir, og tengist þessi áherzla sjómanna þeim kjarasamningum sem hafa staðið yfir og hlotið víðast samþykki nema á Vestfjörðum.
Gætu þessi skattfríðindi numið einum og hálfum milljarði króna.
Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því að afnema sjómannaafsláttinn, er komið var fram á þessa öld, í tíð Geirs Haarde, en vel fer á því, að núverandi fjármálaráðherra snúi þeirri öfugþróun við.
Flokksstjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar markaði þá stefnu fyrir kosningarnar, að taka beri upp 6% afslátt af tekjuskatti sjómanna. Um það mál segir hér í fyrri grein 11. okt. sl.:
Sumir hafa mælt gegn sjómanna-afslætti sem "mismunun", sem ekki sé þörf á fyrir stétt sem hafi tiltölulega góðar tekjur. Þar á móti kemur, að nánast engin umræða er um að hátekjumenn í öðrum stéttum eru bæði með ofurbónusa og önnur fríðindi ofan á laun sín og setjast ekki til vinnu eftir ráðningu sína fyrr en þeir hafa tryggt sér (oft) milljónatuga-starfslokasamninga!
En enginn þarf að öfunda sjómenn, þeir leggja mikið til samfélagsins án þess að nýta samfélagsþjónustu í sama mæli og aðrir, þeir eru langtímum saman fjarri fjölskyldum sínum, vinna gjarnan 12 tíma eða lengur á dag, eru með styttri starfsævi en aðrir og meiri slysatíðni. Áhætta þeirra og framlag til þjóðlífsins verðskuldar viðurkenningu.
Þar að auki er gróði af smáútgerð jákvæður kostur, ekki löstur. Hann smyr samfélög strandbyggðanna með aukinni veltu, útsvörum og öðrum gjöldum, og það er einungis jákvætt ef efnahagur sjómanna hjálpar þeim ekki aðeins til að borga hratt niður skuldir á dýrum bátum sínum og þeim tæknibúnaði, sem þar er þörf á, heldur líka til að geta með tímanum hjálpað börnum sínum að kaupa sér sjálf bát til útgerðar. Þá verður mun líflegra að líta til athafnalífs við hafnir landsins: dæmið snýst við, og aflaheimildirnar hætta að streyma þaðan til vellríkra fákeppnisútgerða, en haldast og aukast hjá fólkinu sjálfu, með veiðiaðferðum sem aldrei geta skemmt sjávarbotninn eða gengið á fiskistofna landsins.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Skattfríðindi metin á 1,5 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7.11.2016
Við núverandi ástand þyrlumála verður ekki unað til lengdar
Strax í fyrstu haustveðrum og við upphaf skammdegistímans er þetta ljóst. "Tvær af þremur þyrlum Landhelgisgæslunnar eru ekki í notkun, önnur vegna bilunar en hin er í reglubundinni skoðun eftir 500 flugtíma. Þriðja þyrlan aðstoðaði við leit að rjúpnaskyttunum tveimur á sunnanverðu Snæfellsnesi í nótt," segir í frétt Mbl.is.
Er ekki augljóst, að landinu nægir ekki að hafa kannski einungis 1-2 þyrlur upp á að hlaupa? Hvað ef skip strandar eða ennþá alvarlegri vandi sækir að en að rjúpnaskyttur eða ferðamenn teppist á fjöllum? Hvað ef rútuslysið nýlega hefði átt sér stað á Norðausturlandi, ekki í nágrenni Reykjavíkur? Hvað ef náttúruhamfarir steðja að, t.d. Kötlugos með miklum flóðum, eða fleiri en eitt stórslys á sama tíma, meðal annars með skipsstrandi eða þegar skip og áhafnir eru í bráðri hættu úti á reginhafi?
Þetta ófremdarástand í tækjakosti Landhelgisgæzlunnar staðfestir nákvæmlega það, sem Íslenska þjóðfylkingin leggur áherslu á í stefnuskrá sinni:
ÍÞ vill stórefla löggæslu, landhelgis- og tollgæslu og auka þátttöku Íslands í öryggis- og varnarmálum með beinum hætti.
Meðal annars hefur verið á það bent á fundum flokksins, að Ísland eigi að sækja um réttmætan styrk úr mannvirkja- og öðrum sjóðum Norður-Atlantshafsbandalagsins til slíkra nauðsynjamála sem þyrlugæzlan verður að teljast, ekki aðeins okkar vegna, heldur sjófarenda og annarra sem leið eiga um land okkar og fiskveiðilögsöguna (meira en sjöfalt stærri en landið) og hið ennþá stærra flugstjórnarsvæði sem okkar menn hafa eftirlit með.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni bilaði önnur þyrlan á æfingu á föstudaginn. Búið er að panta varahluti í hana, og gert er ráð fyrir að hún komist í lag á morgun. Óvíst er hversu lengi ástandsskoðunin mun taka á hinni þyrlunni en hún verður eflaust frá í nokkra daga. (Mbl.is)
Þess er óskað, og þess er vænzt, að stjórnvöld taki við sér í þessu nauðsynjamáli með því að fjölga þyrlum hér. Eins og hinn flugreyndi Ómar Ragnarsson bendir á, er viðhald og bilanatíðni þyrlna um tvöföld á við flugvélar. Okkur vantar því sárlega fleiri þyrlur, og ef vel ætti að vera, væri æskilegt, að a.m.k. ein eða tvær þeirra væru jafnan á Akureyri eða Egilsstöðum.
Kippum þessum málum í lag, tökum ekki frekari áhættu með því að keyra hér allt í áhættusamri lágmarksþjónustu eins og á sviði lögreglu- og heilbrigðismála.
JVJ.
![]() |
Tvær þyrlanna ekki í notkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 1.11.2016
Afhroð Íslensku þjóðfylkingarinnar átti sér óeðlilegar ástæður!
Flokkurinn hlaut aðeins 0,5% atkvæða í NV-kjördæmi (90 atkvæði) og 0,8% í Suðurkjördæmi (213 atkvæði) sem er jafnvel minna en lágmarksfjöldi meðmælenda þar (240+300). Augljóslega hrundu vonir margra um að flokkurinn gæti náð þingsæti í þessum tveimur kjördæmum, þegar ekki var boðið fram í hinum fjórum, með t.d. enga von um uppbótar- eða jöfnunarþingsæti.
Atkvæðin samanlögð voru ekki nema 303, þ.e. 0,2% af þeim 195.204 atkvæðum, sem greidd voru í kosningunum um allt land, en á kjörskrá voru 246.511 og kjörsókn því undir 80% og sú minnsta í 80 ár.
Þórðargleði andstæðinga Þjóðfylkingarinnar yfir úrslitunum fór ekki leynt!
En þessar munu vera helztu ástæður fyrir því, að flokkurinn var fjarri því að ná því 3,2% fylgi, sem hann hafði mælzt með í Gallupkönnun (hvað þá meira):
1) Aðalástæðan er vitaskuld ótrúlegt skemmdarverk, sem "fjórmenningaklíka", sem sjálf nefndi sig svo, framdi á flokknum daginn áður en skila bar inn framboðum í síðasta lagi. Svo að gripið sé til orða eins fylgismanns þeirrar klíku á Facebók hans, í færslu um flokkinn:
"Hann var sprengdur í tætlur á sögulegum blaðamannafundi í Hörpu 14. október síðastliðinn þegar oddvitar framboðsins í Reykjavík norður og suður drógu framboð sitt til baka."
Þetta -- og meðfylgjandi aðrar skemmdaraðgerðir a.m.k. sumra í klíkunni -- var hin virka höfuðorsök fyrir því, að ekki tókst að bera fram fulla lista 70 frambjóðenda og fulla meðmælendalista (1.050 manns) í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og SV-kjördæmi. Uppreisnin hafði hins vegar engin áhrif á hina þrjá listana, þ.e.a.s. þá tvo sem tókst að bera fram (Norðvestur- og Suðurkjördæmi) og einn þar sem ekki náðist að safna nægum nöfnum á lista (NA-kjördæmi), en ástæðan í síðastnefnda tilvikinu kom til af mannfæð í röðum stuðningsmanna flokksins í því kjördæmi og að söfnun undirskrifta fór þar allt of seint af stað, einkum á Austurlandi.
Getgátur og kvittur hefur verið uppi um, að viss stjórnmálaflokkur hafi jafnvel mútað einum fjórmenninganna til að hafa forgöngu um eða til þátttöku í skemmdarverkinu, þessari afdrifaríku atlögu að flokknum, en við höfum ekkert fast í hendi um það mál og engar sannanir, og því verður nákvæmlega ekkert um það fullyrt hér.
2) Önnur ástæða er bersýnilega sú, að flokkur okkar er nýstofnaður (snemma á þessu ári) og hefur ekki náð að byggja sig upp að félagatölu, enda úr nánast engum efnum að spila til að boða til fjölmennra funda. Þó voru þeir, sem haldnir voru, mjög gagnlegir og bæði lög samtakanna og grunnstefna unnin með miklu samráði og samþykkt með vönduðum hætti. Samskiptanet náðist líka að byggja upp á opinni Facebók flokksins, þar sem 1.339 manns teljast meðlimir (en það merkir ekki, að þeir séu beinlínis flokksfélagar, heldur a.m.k. áhugasamir eða forvitnir um flokkinn). Auk þess hafa stofnanir flokksins sín eigin samskiptanet. En dirfskan var mikil að sækja strax fram, með glænýjan flokk, til framboða í öllum kjördæmum landsins, í stað þess til dæmis að einbeita sér að þremur. Þar að auki er vitund almennings um eitt helzta baráttumál flokksins, gegn galopnu Útlendingalögunum, sem taka munu gildi 1. janúar nk., naumast orðin nægileg til að menn átti sig almennt á nauðsyninni á því að hnekkja þeim.
Dæmi um ný framboð flokka, sem ná strax nokkrum árangri, eru yfirleitt klofningsframboð úr öðrum flokkum eða sameining tveggja eða fleiri flokka. Það fyrrnefnda átti t.d. við um Bændaflokkinn 1934, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1971, Borgaraflokkinn árið 1987 og jafnvel "Viðreisn" á þessu ári, en hið síðarnefnda (sameining flokka) átti við um Sósíalistaflokkinn 1938, Alþýðubandalagið 1956 og Samfylkinguna árið 2000 (helzta undantekningin frá því að falla í aðra hvora þessa kategóríu er Þjóðvarnarflokkurinn á 6. áratugnum). Í hvoru tveggja tilviki er hægara um vik að hefja skyndilega kosningabaráttu á landsvísu heldur en fyrir glænýjan flokk sem gefizt hefur sáralítið tækifæri til undirbúnings. Menn geta þó bent á furðugóðan árangur Flokks fólksins í þessum kosningum -- að hafa náð fylgi sem í raun var ígildi tveggja þingsæta (án þess að fá þau, vegna ranglátra kosningalaga) -- en í 1. lagi náði sá flokkur að vera með framboð í öllum kjördæmum, ótruflaður af óvildaröflum, og var svo í 2. lagi með mjög svipað kjörfylgi (3,5%) og Íslenska þjóðfylkingin var á leið með að ná (3,2% í Gallupkönnun), og hefði sá síðarnefndi flokkur þannig getað farið fram úr Flokki fólksins, ef hið ótrúlega hermdarverk, áðurnefnt, gegn framboði okkar hefði ekki verið unnið af fólki sem treyst hafði verið til lykilhlutverka!
3) Áhrif algerrar vöntunar á flokkssjóðum til baráttunnar voru gríðarleg. Allur Sexflokkurinn á því löggjafarþingi, sem nú er lokið, naut samtals yfir eins milljarðs króna stuðnings úr ríkissjóði, þ.e.a.s. vösum okkar skattgreiðenda, til að kosta rekstur á flokksskrifstofum sínum, starfsmannahaldi, erindrekum um allt land, skipulagi á félaga- og netfangaskrám til að virkja flokksmenn með litlum fyrirvara o.s.frv., auk fjármögnunar auglýsinga í fjölmiðlum, áróðursfunda og prentunar hágæða-kynningarpésa til að laða til sín kjósendur, að ógleymdu kynningarmyndbandinu sem flokkarnir klykktu út með stuttu fyrir kosningarnar, til viðbótar við sínar sjónvarpsauglýsingar! Í samanburði við allt þetta var Íslenska þjóðfylkingin eins og tötrum búin aukapersóna úti í horni, og jafnvel kynningarmyndband hennar var af vanefnum gert, tæknilega og að flestu leyti, enda litlu kostað til.
Að svokölluð "Viðreisn" naut ekki ríkisstyrks eins og Sexflokkurinn á þingi til að reka sínar flokksmiðstöðvar og sinn áróður, virðist ekki hafa komið að neinni sök á þeim bænum eða í þeirri höllinni, enda líklegt, að flokkurinn (sem er ekki miðju-, heldur ótvíræður hægriflokkur) hafi notið ómældra styrkja frá atvinnurekendasamtökum eins og SA og SI (rétt eins og þau samtök studdu ESB-Benedikt og hans óþjóðræknu félaga til að agitera fyrir því, að Íslendingar skyldu greiða Icesave-kröfur Breta, Hollendinga og ESB), ef ekki beinlínis frá Brussel, enda vinnur flokkurinn einbeittur í þágu ESB-innlimunarstefnunnar. Og ekki var annað að sjá en að "Viðreisn" hafi vaðið í peningum, með tvær meiri háttar ráðstefnur hennar í Hörpu í huga og dýra auglýsingaherferð sem m.a. birtist í líflegu, kjörþokka-ítrekandi auglýsinga-myndefni efst á Eyjunni (eyjan.is) og víðar, auk heilsíðuauglýsinga í blöðum. Vitaskuld gnæfði þetta fokríka fyrirtæki eins og risi yfir fjárvana Þjóðfylkinguna. En það er sannarlega harmsefni, ef hér var um leið verið að innleiða erlend áhrif á íslenzka kosningabaráttu!
En svo má að endingu taka hér undir með Helga Helgasyni, formanni ÍÞ, sem í viðtali á Vísir.is í fyrradag "segir kjósendur ekki hafa verið að hafna málflutningi Íslensku þjóðfylkingarinnar," sjá nánar þar.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Færri atkvæði en meðmælendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)