Laugardagur, 12.5.2018
Málpípa Samfylkingar staðfestir grímulaust að þau ætla að þvinga fólk til að gera það, sem hentar því ekki, eða taka valið af því. Hún hafnar mislægum gatnamótum og greiðfærum lausnum sem antibílisti!
Hlálega afhjúpaði Helga Vala, málsvari Samfylkingarinnar, æpandi vanþekkingu sína og fordóma í pistli í Mbl. í gær, en Özur Lárusson, frkvstj. Bílgreinasambandsins, malar hann mélinu smærra í grein þar í dag,* ritar m.a.:
Helga Vala talar líka um í sínum pistli að ekki eigi að byggja mislæg gatnamót, göngubrýr eða græn umferðarljós svo bílaflotinn komist hraðar á milli, heldur verði að fækka einkabílum. Þetta er athyglisvert í tvennum skilningi. Fyrst hefur verið sýnt fram á það að umferð sem er stopp eða gengur mjög hægt mengar margfalt meira en greiðfær umferð. Hitt, að fækka verði einkabílum á götum borgarinnar, er að sjálfsögðu grímulaus staðfesting á því að þvinga á fólk til að gera það, sem hentar því ekki, eða taka valið af borgurunum.
Af afstöðu Helgu Völu, eins leiðandi Samfylkingarmanna, er augljóst, að hún vill ekki stuðla að greiðfæru umferðarkerfi í Reykjavík. Grænar bylgjur (samræmd græn umferðarljós með vissu millibili svo að bílaflotinn komist hraðar á milli) eru ekki að skapi Samfylkingarmanna, sbr. að nú hafa þau komið fyrir pýramída-hraðahindrun á Miklubraut hjá Klambratúni og göngubrautarljósum þar líka, til að stöðva umferðina -- og það um hraðbraut! -- í stað göngubrúar.
Og mislæg gatnamót, sem ríkið mundi borga 80 eða 85% í á stofnbrautum í höfuðborginni, vilja þau alls ekki, hafa ekki komið neinum slíkum í framkvæmd og ætla ekki að gera, jafnvel þótt slík gatnamót greiði mikið fyrir þjálli og hraðri umferð (sbr. gatnamótin miklu við Elliðaár, á mótum Ártúnsbrekku, Miklubrautar og Elliðavogs/Reykjanesbrautar, sem og Vesturlandsvegar við Höfðabakka). Sú greiða umferð, laus við sífelld stopp og tafir, mengar langtum minna en hægtgangandi bílar á ljósum, eins og Özur bendir á.
En Helga Vala veit greinilega ekkert í sinn haus í megin-umferðar- og mengunarmálum, eins og enn ljósar kemur fram í grein Öszurar (sjá einnig hér í samantekt undirritaðs**).
Hún hélt þessu blákalt fram:
"Það er óhrekjanleg staðreynd að einkabíllinn er stærsti sökudólgurinn hvað varðar losun kolefnis og við höfum ekkert val um það að við verðum að minnka stórlega notkun okkar á honum." (Sic!)
En staðreyndin er sú, eins og Özur bendir á, að ...
"Losun fólksbíla af gróðurhúsalofttegundum [er] 4% af heildinni. Hvernig er þá hægt að fá það út eins og Helga Vala heldur fram að einkabíllinn sé stærsti sökudólgurinn?"
Þar að auki hefur hlutur einkabílsins farið stórlega minnkandi í mengandi útblástursefnum (kolefni er raunar ekki eitt þeirra, það er þvert á móti ein aðalfæða jurtalífsins), og rekur Özur það einnig í grein sinni.
En málsvari Samfylkingar í þessu máli stendur uppi eins og tossi á prófi í loftslagsmálum og hefur jafnframt viðrað nógsamlega skýrt, hve mjög Samfylkingar-forystunni er í nöp við einkabílinn eða öllu heldur fjölskyldubílinn. Það virðist enn eiga að keyra áfram á þá stefnu að fækka þeim ökutækjum verulega, eins og líka nýjasta Birkimels-ævintýri þessa liðs er til vitnis um, með uppsettum, alls óþörfum einrásar-umferðarstíflum nálægt hvorum enda þess áður greiðfæra vegar, og hefur þegar valdið löngum umferðartöfum á álagstímum (m.a. þegar margir, HÍ-nemar eða bíógestir, koma á sama tíma úr Háskólabíói). Þessu þarf nýr borgarstjórnarmeirihluti að ryðja burt sem fyrst eftir kosningarnar!
Fólk vill fá að eiga sína bíla í friði. Það þarf að komast í stórmarkaði og alls konar erinda sinna, skutla börnum í skólann og í tómstundir, en umfram allt að hafa gott ferðafrelsi um okkar frábæra land.
Með þakklæti til Özurar Lárussonar, málsvara bíleigenda, sem hér er:
* Er betra að veifa röngu tré en öngu? Eftir Özur Lárusson (Mbl. 12. maí 2018).
** Þvílíkur klaufi er Helga Vala í hástemmdu bulli sínu.
Jón Valur Jensson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.