Sunnudagur, 6.5.2018
Menn eða málefni? Um snjallar lausnir ÍÞ í málefnum aldraðra og í sjúkrahúsmálum
Án efa mun frammistaða frambjóðenda hafa mikil áhrif á hvernig kjósendur nota atkvæði sitt 26. þessa mánaðar. Málefnin skipta þó mestu fyrir almenning.
Ein allra flokka er Íslenska þjóðfylkingin með þá snjöllu lausnarleið í málefnum aldraðra að breyta Fossvogsspítala í hjúkrunarheimili fyrir aldraða og byggja á þeirri rúmgóðu lóð bæði þjónustuíbúðir og dvalarheimili fyrir aldraða.
Stefna flokksins í landspítalamálum er að reisa skuli nýjan landspítala á Hólmsheiði, þar liggur hann vel við umferð til borgarinnar og nýjum hverfum hennar austan Elliðaáa, en léttir um leið á umferðarþunga og bílastæðavanda við Hringbraut.
Við erum andvíg þeirri leið í umsjármálum aldraðra, að í vaxandi mæli hefur þeim verið útvistað til þeirra verktaka sem verið hafa með lægstu tilboð, en með því móti hafa margir útlendingar verið ráðnir til slíkra starfa. Ekkert höfum við á móti útlendingum, en allir sjá, að aldraðir og lasburða þurfa ekki aðeins faglega þjónustu, heldur einnig af hálfu starfsfólks sem er mælandi á okkar þjóðtungu. Allir sjá þetta, en engir gera neitt í því á heilbrigðissviði né á vettvangi borgarinnar. Íslenska þjóðfylkingin sér hins vegar réttu lausnina og vill fylgja henni eftir í verki. Þvert gegn sinnuleysi um þessi mál, sem valda mörgum öldruðum ama og vansælu og allt að því einangrun á hjúkrunarheimilum, viljum við frambjóðendur Íslensku þjóðfylkingarinnar að allir starfsmenn félagsþjónustu á þessu sviði verði sendir í íslenzkunámskeið, annað er ekki bjóðandi, enda gera aðrar þjóðir kröfu um ekkert minna en kunnáttu opinberra starfsmanna í tungu viðkomandi þjóða. En vellíðan þeirra, sem eiga rétt á þjónustu þeirra, er hér fyrir mestu.
PS. Jens G. Jensson, 3. maður á framboðslista ÍÞ til borgarstjórnar, ritar á Facebók flokksins: "Útvistun umönnunar aldraðra er ekkert annað en meðferð á niðursetningum fyrri tíma. Útvistað til lægstbjóðanda, sem síðan sækir ódýrasta vinnuaflið og lætur það vinna í uppmælingu við umönnun foreldra okkar."
Jón Valur Jensson. Höfundur skipar 4. sæti á framboðslista Íslensku þjóðfylkingarinnar til borgarstjórnar í komandi kosningum.
Margir flokkar sækja á sömu mið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Borgarmál, Kjaramál, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 17:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.