Sunnudagur, 8.10.2017
Íslendingar þurfa að njóta virðingar og það gera þeir með því að standa með eigin menningu!
Íslenska þjóðfylkingin vill standa vörð um eigin tungu, menningu og grunngildi þau sem gert hafa þjóðina að því, sem hún er, og vill ekki láta eyðileggja, misbjóða og vanvirða það sem foreldrum og forfeðrum okkar hefur áunnist við að gera þetta þjóðfélag að einu því eftirsóknaverðasta sem á jarðarkringlunni er.
Íslenska þjóðfylkingin hefur pólitískar skoðanir og hugmyndafræði, það sem aðrir flokkar virðast hafa glatað í endalausu miðjumoði og eru komnir langt frá grunnhugmyndum sínum, enda altalað manna á milli að þeim sé illa treystandi.
Íslenska þjóðfylkingin var eini flokkurinn sem stóð vaktina og varaði við nýju útlendingalögunum og fékk á sig þær ákúrur að hann væri rasistaflokkur. En viti menn, flest það sem varað var við hefur þegar komið fram og hefur því miður forsendur til að versna með tilliti til þróunar annarra landa Evrópu. Við erum jú nokkrum árum á eftir þeim, verði ekki gripið inn í þessa kolvitlausu löggjöf. Land sem virðir ekki sín eigin landamæri eða landsmenn á ekki langa lífdaga. Þess vegna þarf að bregðast við og það gerir Íslenska þjóðfylkingin, því erfitt mun reynast fyrir þá flokka sem stóðu að útlendingalögunum að viðurkenna verknaðinn.
Margir eru í raun fylgjandi þessari stefnu innan annarra flokka en er haldið til hliðar. Áróður frjálshyggjufólks hefur orsakað að ekki hefur mátt ræða þessi vandamál opinberlega, án þess að vera stimplaður sem rasisti. Er þar verið að keyra málfrelsið og skoðanafrelsið niður.
Að vera gestrisin og bjóða fólk velkomið þýðir ekki að vera með buxurnar á hælunum og opna landið upp á gátt. Íslendingar þurfa að njóta virðingar og það gera þeir með því að standa með eigin menningu. Íslendingar eiga að standa vörð um menningu sína og lífshætti, eins og innflytjendur gera þegar þeir koma til annarra landa, þá halda þeir upp á sína menningu án þess að gera tilkall til að landið sem tekur á móti þeim hendi frá sér sinni. Þetta kallast að hafa rætur.
Íslenska þjóðfylkingin býður öllum landsmönnum, hvaða uppruna sem þeir eiga, að hugsa málið og spyrja sig, í hvernig landi þeir vilja búa. Þá þarf Íslenska þjóðfylkingin ekki að hafa áhyggjur af fylgi, því við erum fyrir fólkið, sjálfstæði þjóðarinnar og skoðanafrelsi.
Við gerð þessa pistils studdist undirritaður við gott innlegg Guðmundar Karls Þorleifssonar, formanns Íslensku þjóðfylkingarinnar, á FB-síðu hans.
Steindór Sigursteinsson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Innanflokksmál, Innflytjendamál, Menning og listir | Breytt 9.10.2017 kl. 01:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.