Fimmtudagur, 16.3.2017
Gylfi Arnbjörnsson: persona non grata?
Athygli vekur, að sigurvegarinn í formennskukjöri í VR, Ragnar Þór Ingólfsson, afþakkar sæti í miðstjórn ASÍ, meðan Gylfi Arnbjörnsson er þar forseti. Hvöss svör Gylfa í Sjónvarpi skiljast vel af hans eigin hag!
Ekki þarf að gera manninn útlægan, þótt eflaust myndi hann una sínum hag vel í Brussel. En lítum á þessi atriði, sem sýna, að það er löngu kominn tími til að hann sleppi sínu tangarhaldi á verkalýðshreyfingunni eða verði sviptur völdum:
- Þessi hagfræðingur er á forstjóra-ofurlaunum sem forseti ASÍ - sennilega með langt yfir eina og hálfa milljón á mánuði. Hvernig getur slíkur maður borið ærlegt skynbragð á kjör fólks, sem jafnvel þarf að framfleyta sér á um eða undir 200.000 kr. á mánuði eftir skatta? Ólíkt Gylfa var eitt fyrsta verk Ragnars Þórs að lækka eigin formannslaun í VR um 300.000 kr. á mánuði.
- Gylfi er virkur baráttumaður, á sínum vettvangi með margvíslegum hætti, fyrir innlimun Íslands í erlent stórveldi, Evrópusambandið. Í þessu skyni er ýtt undir það innan varkalýðshreyfingarinnar að senda menn í löngum röðum í Brusselferðir, með miklum dagpeningum, glæsi-uppihaldi og fríðindum, eins og m.a. Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, hefur upplýst um í afar fróðlegri Fréttablaðsgrein, en allt slíkt stuðlar að því að veikja viðnámsþrótt þeirra fulltrúa verkalýðsfélaganna, sem fara í slíkar ferðir, og má kenna þetta við mútustarfsemi á vegum stórveldis, en hér með þegjandi samþykki og samvinnu verkalýðsforingja undir forystu ESB-mannsins Gylfa Arnbjörnssonar.
- Í takt við sína undirgefnisafstöðu gagnvart Evrópusambandinu tók hagfræðingurinn Gylfi Arnbjörnsson afstöðu GEGN ÞJÓÐARHAG og GEGN LAGALEGUM RÉTTI ÍSLENDINGA í Icesave-málinu, sbr. hér á vef Þjóðarheiðurs, samtaka gegn icesave: Þau studdu hinn ömurlega Icesave-II-samning og líka Icesave-III-samninginn!
- Ragnar Þór segir að fenginni reynslu, að honum hafi þótt forseti ASÍ ekki vera í neinu sambandi við vilja fólksins í landinu og sá grunur hafi reynzt vera réttur. "Ég bauð mig fram á móti honum og hef gert það þrisvar sinnum, til þess að sýna almenningi í landinu hversu mikils stuðnings hann nýtur á meðal þessa þrönga hóps sem er valinn inn á þing sambandsins.
- Gylfi Arnbjörnsson er einn þeirra sem bera höfuðábyrgð á ólýðræðislegu kosningakerfi til stjórna verkalýðsfélaga og til bæði Alþýðusambands Íslands og lífeyrissjóðanna. Afar þunglamalegt kosningakerfi, með miklum kröfum um fulla lista og fjölda meðmælenda, gera sjálfsprottin framboð nær óhugsandi, og tilgangurinn virðist vera að varðveita hagsmunastöðu valdaklíku, sem hefur komið sér vel fyrir innan samtakanna, og jafnvel misnotkun þeirra til hálauna og bitlinga.
- Þá ber Gylfi einnig ábyrgð á því að hafa ekkert gert til að losa um tök atvinnurekenda á þeirri eign verkafólks, sem geymd er í lífeyrissjóðum landsins. Með setu margra foringja verkalýðsfélaganna í stjórnum lífeyrissjóða fá þeir ekki aðeins tækifæri til að smyrja ofan á laun sín, heldur eru einnig komnir í samkrull við atvinnurekendur, eru á fundum með þeim og að njóta lífsins með þeim í fríum sínum, þess vegna í utanlandsferðum og í dýrum laxveiðiám.
- Ekki hafa Gylfi og félagar tekið við sér, þegar Ragnar Þór og samherjar hans hafa lagt til, að lífeyrissjóðirnir komi að lausn húsnæðismála almennings með beinum hætti, t.a.m. með því að "leggja fjármagn í uppbyggingu leigufélaga og byggingu íbúða sem seldar væru á kostnaðarverði eða með hóflegri álagningu," eins og Ragnar gerir tillögu um. "Hann vill ennfremur að lögum verði breytt þannig að slík samfélagsverkefni væru ekki háð arðsemiskröfu." (Mbl.is) Ég er ekki að leggja það til að lífeyrissjóðirnir hendi peningum í einhver gæluverkefni þar sem þeir muni tapast að öllu leyti. Ég er eingöngu að tala um að sjóðirnir komi með þolinmótt fjármagn tímabundið inn í slík verkefni sem væru ekki hagnaðardrifin og breyta þeim síðan yfir í samvinnufélög með tíð og tíma og sjóðirnir fengju þá sitt fjármagn til baka, segir hinn skynsami og sanngjarni Ragnar Þór.
- Þá hefur Gylfi Arnbjörnsson vanrækt einn al-erfiðasta kjaramálaþátt alþýðu: vaxta- og verðtryggingarmálin -- tekur hvorki undir kröfur um afnám verðtryggngar né um lækkun stýrivaxta og íbúðalánavaxta. (Krafa Þjóðfylkingarinnar er þar um afnám verðtryggingar, en ella um 2% vaxtaþak á íbúðalán. Af 15 millj. kr. láni hjá Íbúðalánasjóði myndi þessi lækkun úr 5% verðtryggðum vöxtum í 2% verðtryggða vexti þýða lækkun vaxtanna úr 48.719 kr. á mán. í 19.488 kr. Sparnaðurinn af því eina láni yrði þannig hátt í 30.000 kr. á mánuði! Fjölskyldur munar um minna! En gegn slíkri lækkun standa hinir eilífu augnakarlar: Már Guðmundsson og Gylfi Arnbjörnsson!) -- Ragnar Þór segir, að ítrekað hafi verið reynt að fá ályktanir samþykktar á þingum ASÍ um afnám verðtryggingar, en þær hafi verið útþynntar af ASÍ vegna þess að það henti ekki stefnu þeirra sem ráðið hafi ferðinni innan sambandsins.
- Stefna þeirra í þessum málum hefur verið að leysa lána- og vaxtamálin með því að ganga inn í Evrópusambandið og taka upp evru, segir Ragnar Þór í þessu sambandi. "En launafólk og almenningur í landinu á ekki að þurfa að hafa byssustinginn í bakinu. Við eigum að geta tekið slíka ákvörðun með upplýstum hætti. Það á ekki að nota ástandið gegn launafólki því við getum gert miklu betur."
- Ragnar vísar þar til margítrekaðrar stefnu ASÍ og til að mynda Samfylkingarinnar að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu af lánum nema með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Ragnar tekur fram að hann hafi ekki tekið afstöðu til Evrópusambandsins sjálfur en hann telji rangt að stilla launafólki upp við vegg með þessum hætti.
- Þarna er um að ræða margítrekaða stefnu bæði Samfylkingarinnar og ASÍ og þar á milli eru mikil tengsl. Þannig að maður hlýtur að draga þá ályktun að verið sé að nota sér þetta ástand til þess að afla sér meira fylgis við þessa risastóru pólitísku ákvörðun sem felst í því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er bara allt önnur umræða. (Mbl.is)
Af síðustu klausunum hér má ráða, að Gylfi Arnbjörnsson hafi beitt sér fyrir vagn Samfylkingarinnar í þessum ESB-málum, en trúlega á hann einnig sína tengla sjálfur í Brussel.
Það er fagnaðarefni, að sjálfstætt hugsandi verkalýðsforingi, nefndur Ragnar, mikill grasrótarmaður, hefur tekið við formennsku í stærsta verkalýðsfélagi landsins og bætist þar í hóp ágætra hugsjónamanna eins og Vilhjálms Birgissonar á Akranesi og Aðalsteins Baldurssonar á Húsavík.
Jón Valur Jensson.
Sest ekki í miðstjórn ASÍ með Gylfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Kjaramál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 17.3.2017 kl. 19:38 | Facebook
Athugasemdir
Til ennþá skýrari áminningar:
Íslenska þjóðfylkingin, 16.3.2017 kl. 01:42
Ssamanber einnig þessa afhjúpandi grein undirritaðs:
Er ekki allt í lagi með þennan Gylfa Arnbjörnsson?
JVJ.
Íslenska þjóðfylkingin, 18.3.2017 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.