Af blekkingarleik samsærishóps

Kynlegt er, að Gunnlaugi Ingvarssyni skiljist ekki það skaðræðisverk sem hann tók þátt í að vinna gegn Íslensku þjóðfylkingunni og biðjist ekki afsökunar. Í staðinn ásakaði hann formanninn og aðra hástöfum í viðtalsþætti hjá Edith Alvarsdóttur á Útvarpi Sögu í fyrradag og hélt þar áfram fyrri ásökunum sinnar fjórmenningaklíku (þau völdu sér sjálf það heiti í viðtali á Visir.is).

Einhliða var blekkingartal Gunnlaugs til að réttlæta gerræðisverk klíkunnar sem vann flokknum okkar óbætanlegt tjón. Enga iðrun var á honum að heyra – bara bætt við fyrri óhróður um flokksforystuna! Hann einkenndist ekki sízt af því að talað var niður til formannsins, hann sagður verklítill og ekki drífa flokkinn áfram í brýnum verkefnum hans. Ekki höfðu þessir gagnrýnendur þó kveðið upp úr um þær hugmyndir sínar á flokksstjórnarfundum og heldur ekki tekið að sér myndun málefnanefnda, þótt þau kvörtuðu yfir vöntun þeirra eftir á. En 22 manna flokksstjórn ber vitaskuld þá ábyrgð ekkert síður en formaður.

Svo langt gekk níðið í upphlaupshópnum (að meðtalinni einni félagskonu, sem gerðist annað sinni afar hávær á síðustu dögum), að jafnvel þurfti að búa sér til óframinn glæp formannsins einhvern tímann eftir þingkosningarnar! - þar sem sefasjúk ímyndunarveikin var komin á það stig að ætla honum fjárdrátt úr sjóði flokksins, þegar í hann færi að berast ríkisstyrkur! (slíkur hlotnast a.m.k. þeim flokkum sem ná 2,5% atkvæða). Er Helgi Helgason, formaður flokksins og stjórnmálafræðingur, þó vammlaus maður, af góðum foreldrum kominn og með tandur­hreina sakaskrá. En jafnvel það, að hann hafði lært stjórn­mála­fræði á háskóla­stigi, varð þessari viðbættu Gróu á Leiti í nefndum hópi tilefni til að rita á Facebók undirritaðs:

þessi reynsla ykkar í ÍÞ ætti að kenna fólki að taka ekki mann í for­mennsku flokks sem lærður er í fjór-flokks-fræðum frá HÍ.... það verður aldrei heiðarlegt afl frá svoleiðis manni.... einfalt... 

Þvílíkir fordómar! Þvílík ályktunargeta! En í takt við þetta fór hún (Ingibjörg Hafberg) líka létt með að rita þessi ófyrirleitnu orð um formanninn 16. þ.m. og það á Facebók undirritaðs:

er fólk búið að fatta hvað Helgi er búinn að vera að gera undanfarna mánuði? Hann lagði minnst fram í vinnuframlagi .... Hann er einn með prókúru fyrir flokkinn.... Hann einn hefur aðgang að bankareikningi flokksins... Hann hefur hegðað sér eins og "Erdogan Íslands" ... og sjálfsagt hefur Hann aldrei ætlað að flokkurinn færi á þing ... því Hann einn ætlar að þyggja styrkinn sem flokkurinn fær ... ef hann nær ekki 5% .... það eru nokkrar milljónir sem renna í Hans eigin sjóð....
 
Og þá svarar sú, sem undirritaður hyggur hafa verið virkasta í samsærinu gegn framboðunum, Inga G. Halldórsdóttir (sem var formaður kjördæmaráðs Reykjavíkur og 2. á listanum í Rvík-norður):
Nkl.. [= Nákvæmlega]. Það vill enginn formaður haga hlutunum svona sé hann heiðarlegur...

Hún tekur þarna m.ö.o. undir örgustu dylgjur um fyrirhugaðan fjárdrátt. Þessi vitaskuld tilhæfulausi, alls ósannaði rógur var látinn kvisast út og malla meðal frambjóðenda nokkra daga áður en skila bar framboðunum (14/10) og reynt að rökstyðja hann með því, að það væri enginn gjaldkeri í flokknum - að formaður færi sem sé með þau mál og það gert tortryggilegt, eins og hér sýndi sig, og látið sem brýnt væri, að slíkur gjaldkeri yrði skipaður, en ekki höfðu Ingurnar þó gert tillögu um það embætti á landsfundi flokksins 29. júní sl., þar sem lögin voru samþykkt. Þar að auki er nánast ekkert í flokkssjóði nema framlög flokksmanna sem rétt duga til að borga húsaleigu fyrir skrifstofu hans í Hafnarfirði og fyrir takmörkuðum auglýsingum og öðrum brýnustu útgjöldum eins og fjölföldun kynningarefnis.

Að auki var nefnd Ingibjörg engan veginn fær um að fullyrða neitt um vinnuframlag Helga formanns fyrir flokkinn, enda lét hún sig hverfa úr honum eftir fund í sumar þegar hún æstist öll upp út af nánast engu og salurinn gapti yfir látunum i henni. Síðan hefur hún ekki, að frétzt hafi, komið nálægt flokksstarfinu, t.d. líklega aldrei litið inn á skrifstofuna. Hún getur því engan samanburð gert á öðrum sjálfboðaliðum flokksins við helzta sjálfboðaliða hans: Helga formann! –––Enginn taki mark á henni, enda er þetta sú hin sama Ingibjörg, sem ritaði á Facebók undirritaðs að kveldi 16. október:

"Eina í stöðunni eins og hún er núna er að tryggja það að flokkurinn fái engin atkvæði." (!!!)

og sýnir þetta augljósan skemmdarverkahug hennar gagnvart flokknum. En nógu góð er hún samt í augum fyrrv. formanns kjördæmisráðs flokksins, Ingu, til að hafa sem bandamann í niðurrifs­sbaráttunni og í rógsherferð gegn kjörnum formanni flokksins!

Með dylgjum sínum á bak við tjöldin og masi um þessa ótímabæru hluti var klíkan í senn að eyða dýrmætum tíma annarra síðustu vikuna fyrir skil framboðanna, þegar mestu skipti, að allir listar (126 frambjóðenda og 1.890 til 2.520 meðmælenda um land allt) næðust heilir í höfn. En þarna var klíkan auðvitað að sá þeim efasemdafræjum, sem leitt gátu til tortryggni og ósam­lyndis sem nægði ásamt herhvöt fjórmenninganna á blaðamannafundi í Hörpu 13. þ.m. til að koma því höggi á flokkinn, að ýmsir  frambjóðendur yrðu fældir frá því að standa við framboð sín!

Þetta eru nokkur meginatriði atburða sem leiddu til uppreisnar fjórmenninganna og skaðræðisverka þeirra gegn flokknum. Þó er frásögninni hér hvergi nærri lokið, og bætist fleira við með nýjum degi.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband