Fimmtudagur, 6.10.2016
Hræðslubandalag Sjöflokksins útilokar Íslensku þjóðfylkinguna, þótt æ fleiri sjái þverbrestina í innflytjendastefnunni
Þetta gefa þeir allir út, foringjar bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka á Alþingi og "Viðreisn" að auki, í fréttaskýringu í nýju DV og þykjast ugglaust snöggtum skárri fyrir vikið. Allt þetta óforsjála fólk, með Sigurð Inga og Bjarna Ben. í fararbroddi og Katrínu Jakobs, Oddnýju Harðar, Óttar Proppé, Benedikt Jóhannesson (sem er skotspónn sérstakrar aðfinnslugreinar í Mbl. í dag vegna hugsanlegra innherjaviðskipta) og Smára McCarthy í sínu föruneyti, kann fótum sínum greinilega ekki forráð. Þau ætla ekki að sjá að sér í innflytjendamálum fyrir kosningarnar, og þó er þegar farið að kvarnast úr sannfæringu sumra í flokkum þeirra.
Svo er nefnilega mál með vexti, að jafnvel innanríkisráðfrúin, Ólöf Nordal, hefur sýnt merki um, að hún sé farin að læra af reynslunni í þessu efni: "Við þurfum kannski að herða á reglunum, þannig að þeir sem ekki uppfylla skilyrði um neyðarhjálp verði sem fyrst sendir aftur úr landi, segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra skv. þessari frétt í Mbl. í morgun.
Um þetta ritar Ívar Pálsson viðskiptafræðingur, einn af gleggstu mönnum á Moggabloggi:
"Nú rignir yfir Ísland hælisleitendum á röngum forsendum, þar sem t.d. 2/3 hluti þeirra í september var frá Albaníu og Makedóníu. Ekki eru það stríðshrjáð sýrlensk börn. Fullhraustir ungir menn frá þessum og öðrum löndum taka sénsinn á því að koma hingað og nýta sér upplausnarástandið sem skópst fyrir botni Miðjarðarhafs, en á okkar kostnað og með okkar fyrirhöfn." (Berum enga ábyrgð á þeim)
Og hann bendir á stóran meinbug á landamæravörzlu okkar:
Auðvelt er að komast hingað eftir að búið er að lauma sér inn á Schengen-svæðið. Ef eitthvert vit á að vera í kerfinu hér, þá verður að snúa þeim umsvifalaust við sem ekki uppfylla einföld skilyrði eins og það að vera frá stríðshrjáðu landi til þess að umsóknin verði tekin til greina. Ekki á að taka mark á hælisumsókn frá þegnum landa sem eru í lagi, þótt erfitt sé að búa þar. Auðvitað er sósíalisminn ýmsum erfiður, en við getum ekki tekið á þeim mistökum annarra, nógu erfitt er slíkt hér á landi. (Lbr.jvj)
En Íslenska þjóðfylkingin er eini flokkurinn sem vill uppsögn Schengen-samningsins. Höfum þá líka í huga, að hvorki Bretland né Írland eru á Schengen-svæðinu, og hefur það hjálpað þeim að hafa meiri stjórn á innflytjendastraumnum en ella hefði tekizt.
Þá ritar Ívar:
Milljón á mann?
Íslendingar gera sér fæstir grein fyrir því hvað þessi efnahags-ferðalög ungu mannanna kosta okkur. Hver og einn sem fær þessa flugu í höfuðið að sækja um á rokbitna eldfjallaskerinu (til þess gjarnan að koma sér síðan annað) er verulega íþyngjandi fyrir kerfin hér ...
Auk Ólafar Nordal hefur fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, ritað af viti og hyggindum um þessi mál, m.a. þetta (leturbr. jvj):
Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri neyðarvarnasrviðs Rauða krossins, segir Rauða krossinn hafa verið viðbúinn auknum fjölda hælisleitenda hér á landi á þessu ári en ekki hafi verið búist við að svo margir kæmu í einu, líkt og hefur verið á síðustu vikum.
Allt ber hér að sama brunni og áður. Á sama tíma og nágrannaþjóðir fagna fækkun hælisleitenda, fjölgar þeim hér. Fjölgunin á einkum rætur að rekja til komu fólks frá Albaníu og Makedóníu sem á engan lagalegan rétt til að fá hér hæli en er í nokkrar vikur, mánuði og jafnvel ár á opinberu framfæri hér á meðan mál þess velkist í kerfinu nú dragast mál á langinn hjá opinberri kærunefnd og þeim sem framkvæma brottflutning fólksins eftir úrskurð um brottvísun.
Þarna sést, í hvílíkan ólestur ríkisstjórn og Alþingi hafa komið þessum málum. En einnig þetta í sama pistli Björns er harla lærdómsríkt:
"Það er í sjálfu sér frekar nöturlegt að gamalt húsnæði Lögregluskólans skuli notað sem neyðarrými til bráðabirgða fyrir hælisleitendur. Virðist þeirri ráðstöfun tekið sem næsta sjálfsögðum hlut í fréttum í stað þess að leita skýringa á hvers vegna svona er komið í þessum málaflokki þegar unnt er að beita mun öflugri úrræðum en gert er til að draga úr fjölda þeirra sem hingað koma.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur lýst áhyggjum af ástandinu. Hún glímir hins vegar við sama vanda og ýmsir forverar hennar á stóli dómsmálaráðherra sem sætt hafa gagnrýni þingmanna, vilji þeir efla varnir á þessu sviði sem öðrum.
Sé því hreyft að huga þurfi að hervörnum Íslands eða vopnum fyrir lögreglumenn reka þeir gjarnan upp ramakvein sem mega ekki heyra minnst á að allt sé gert sem lög leyfa til að stemma stigu víð ólöglegri komu fólks hingað. Hér er áhrifamikill hópur sem vill engar ráðstafanir til að verja eða vernda land og þjóð, allt á að standa opið."
En varnaðarorð hins reynda Björns Bjarnasonar hrína ekkert á frænda hans Bjarna Benediktssyni. Áfram skal fylgt í fullri meðvirkni þeirri innflytjendastefnu sem hönnuð var af vinstriflokkunum á Alþingi, unz fjallið tók jóðsótt og fæddi ... ekki mús, heldur þessi lúseralög, sem fengu nafnið Útlendingalög og opna landið nánast upp á gátt frá 1. janúar næstkomandi, en þar fá hælisleitendur t.d. "rétt" til að farga vegabréfum sínum og eiga samt heimtingu á langtíma-afgreiðslu hér og fínu uppihaldi, jafnvel þeir sem ljúga því til, að þeir séu á barnsaldri þrátt fyrir augljóst útlit um annað. Að vísu mætti þá taka af þeim lífsýni til að ganga úr skugga um aldurinn, og er þá ekki málið farsællega leyst? Ekki aldeilis, því að þá búa þessi Útlendingalög til nýja undankomuleið: að ekki megi neyða neinn til að gefa lífsýni, af því að það brjóti í bága við lög um persónuvernd! Og svo mega hælisleitendur flytja stórfjölskyldur sínar hingað, jafnvel allt að 20 manns hver, til að "sameina fjölskylduna" í nýrri heimsálfu!
En nógu slæmt var ástandið fyrir: Hælisleitendum fjölgar úr 127 árið 2014 í um 700-800 á þessu ári. Ánægjulegt hlýtur það að vera fyrir Unni Brá Konráðsdóttur (sem sendi tveimur stórum, albönskum fjölskyldum gratís vegabréf án lagaheimildar um síðustu jól), að um 2/3 þeirra eru Albanir og Makedóníumenn og frá síðarnefnda landinu mest albanskt fólk, en þar í landi er meirihlutinn múslimskur.
Engin furða að handarhöggsmaðurinn Salmann fagni þessu og hafi jafnvel, hinn 15. ágúst sl., látið sig hafa það að taka sér stöðu á Austurvelli við hlið Samtakanna 78 til að fylkja sér um Útlendingalögin, þótt máttarstólpar trúboðs strangtrúar-súnníta á Vesturlöndum, wahhabítarnir í Saudi-Arabíu, kasti samkynhneigðum fram af klettum og háhýsum í því pílagrímalandi hins meinta höfuðspámanns.
En það er engan bilbug að finna á forystuliði Sjöflokksins í pólitíska rétttrúnaðinum. Jafn-harðákveðið er það í því og Salmann Tamimi að lýsa Íslensku þjóðfylkinguna óalandi og óferjandi, og samt er hún einfaldlega að tjá hér hógværan þjóðarandann og þó fastan fyrir, þegar á hann er gengið, rétt eins og í Icesave-málinu, þegar þjóðin hafði vit fyrir sínum stjórnmálamönnum.
En þannig talar Sigurður Ingi forsætisráðherra, nýbúinn að finna sér annan og skæðari andstæðing en forvera sinn: "Ákveðin stef í grunnstefnu Íslensku þjóðfylkingarinnar eru ósamrýmanleg stefnu Framsóknarflokksins."
Og hin siðprúða Oddný Harðardóttir vill ekki að minnsti grunur falli á hana um husanlegt makk við þennan flokk: "Ég get algjörlega útilokað samstarf við hann, algjörlega [gott að tvítaka þetta, aldrei er of varlega farið!]. Við í Samfylkingunni munum ekki starfa með Íslensku þjóðfylkingunni, aldrei. Það er alveg á hreinu." (Feitletr. jvj.)
Þá dregur enn einn formaður, Óttarr Proppé, ekki af sér hér í innihaldslausum stórmælum: "Þeir sem standa fyrir rasisma og kynþáttafordóma, flokkar sem kynda undir fordómum, sundrung og hræðslupólitík, þeir koma ekki til greina sem samstarfsflokkar Bjartrar framtíðar, hvort sem það er Íslenska þjóðfylkingin, sem sannarlega stendur fyrir þetta allt, eða aðrir." --Hann hefði ekki getað staðið sig laklegar í rökstuðningi þessi!
Og IPA-konan Katrín Jakobsdóttir, sem útilokaði svo sannarlega ekki samstarf við Evrópusambandið (sjá nýútkomna Villiketti Jóns Torfasonar og Atla Gíslasonar), hún segir hér í sínu hvítþvegna sakleysi um samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna: "Ég sé það ekki fyrir mér. Stefnumál flokkanna virðast mér algjörlega ósamrýmanleg hvað varðar málefni útlendinga. Ég held ég geti sagt það hreint og beint að ég útiloka samstarf við þennan flokk."
Ekki kannski furða þegar hún burðast með annað eins og þetta í bakpokanum frá stefnumótun VG um alþjóðamál nú fyrir kosningarnar (leturbr.jvj):
Tökum á móti fleiri flóttamönnum
Sífellt fleiri eru á flótta í heiminum undan stríðsátökum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ísland þarf að taka þátt í því að axla ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna eigum við að taka á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum, að lágmarki 500 á ári. Jafna þarf aðstæður hælisleitenda og svokallaðra kvótaflóttamanna og tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga með fjármagni og mannafla.
Það er eins gott að kjósendur VG hingað til viti af þessari ofurróttækni flokksins!
Og þá er það Smári McCarthy, meint forsætisráðherraefni Pírata að sögn Birgittu, þessi sem "sagði í myndbandi árið 2010 að hann vilji sjá atvinnuleysi fara í 40-50% sem yrði frábært" (Viðskiptablaðið), hann hlýtur jú að hafa einhverja lífsspeki að færa okkur, og hér er hún: að "hann hafi kosið að leiða ekkert hugann að Íslensku þjóðfylkingunni," og bætir við: "Íslenska þjóðfylkingin stendur fyrir málefni sem eru eiginlega eins langt frá málefnastöðu Pírata og hægt er að hugsa sér." --Já, bezt að hann haldi áfram að láta sig dreyma um atvinnuleysið og sín "borgaralaun" fyrir að gera ekki neitt!
Benedikt Jóhannesson, sá sem var í fréttum í morgun, formaður ESB-fanklúbbsins Viðreisnar, svaraði spurningunni um hugsanlegt samstarf við ÍÞ með eindregnum hætti: "Nei."
Og þá er það sá síðasti í hópi sjömenninganna, Bjarni Benediktsson, sem tjáir sig um Íslensku þjóðfylkinguna: hann taldi Sjálfstæðisflokkinn og ÍÞ "eiga litla samleið":
"Ég ætla ekki að segja annað en að ég er mjög ósammála flestu í stefnu Íslensku þjóðfylkingarinnar" [t.d. örugglega um það að gera fiskveiðar frjálsar og margfalda strandveiðar, aths. jvj.], "en tjái mig að öðru leyti ekki um það hvað ég geri ef einhverjar aðstæður koma upp að loknum kosningum. Þannig staða er uppi í stjórnmálum í dag að það getur orðið snúið og flókið verkefni að mynda ríkisstjórn. Þess vegna ætla ég ekkert að tjá mig um það hvernig við munum vinna úr niðurstöðum kosninganna. Það verður bara verkefni þess tíma. Það er augljóst að þeir flokkar sem eru lengst frá okkur í stefnumálum, og ég lít á Þjóðfylkinguna í þeim hópi, það eru minnstar líkur á því að maður nái saman við þá aðila. Mér finnst að á sumum sviðum séu þeir með algjörlega óásættanlega nálgun," sagði Bjarni í þessu DV-viðtali án áþreifanlegra raka!
Samflokksmaður hans, a.m.k. til skamms tíma, Halldór Jónsson verkfræðingur, ritar hins vegar í grein á Moggabloggi sínu í kvöld: Þjóðfylkingin, og takið nú eftir nýjum og hressilegum andblæ -- reyndar gustar af honum:
"Þjóðfylkingin er ekki rasistaflokkur heldur þjóðernissinnaflokkur sem vill ekki óheftan innflutning múslíma til landisins. Þetta get ég skrifað undir.
Þjóðfylkingin vill ganga úr Schengen og verja landamæri ríkisins. Það vil ég líka.
Þjóðfylkingin vill nota þá peninga sem nú fara í hælisleitendur til aðstoðar í heimalöndum þeirra. Þeir segja féð rýrna hérlendis í allsskyns óþarfa kostnaði. Ég er sammála þessu.
Þjóðfylkingin vill draga dám af reynslu Norðurlandanna af innflutningi múslíma. Það vil ég líka.
Þjóðfylkingin vill beita 48 tíma reglunni á hælisleitendur eins og Norðmenn gera. Það vil ég líka.
Þjóðfylkingin styður aðild Íslands að SÞ, NATO, EFTA og norrænu samstarfi. Það geri ég líka.
Þjóðfylkingin vill endurskoðun á EES með tvíhliða viðskiptasamning við ESB í huga, sbr. Sviss. EES hentar ekki íslenskum hagsmunum. Þetta samþykki ég heilshugar.
Þjóðfylkingin hafnar alfarið aðild Íslands að ESB og TISA af pólitískum ástæðum. Það geri ég líka.
Þjóðfylkingin vill stórefla löggæslu, landhelgis- og tollgæslu og auka þátttöku Íslands í eigin vörnum. Varðskipaflotinn verði stórefldur og nýjar þyrlur keyptar fyrir gæsluna og sótt verði um styrk til þess til mannvirkjasjóðs NATÓ. Þátttaka Íslands í vörnum landsins verði aukin, meðal annars með endurreisn Varnarmálastofnunar. Þessu er ég sammála.
Þjóðfylkingin er alfarið á móti að moskur verði reistar á Íslandi eins og þegar er gert í fjölmörgum ríkjum, bann verði lagt við búrkum, umskurði kvenna af trúarlegum ástæðum og skólum íslamista á Íslandi. Þessu fylgi ég af sannfæringu.
Þjóðfylkingin vill að núverandi staðsetning innlandsflugvallar verði til framtíðar. Þessu fylgi ég af hita. Vil fá beint millilandaflug líka frá Reykjavíkurflugvelli.
Þjóðfylkingin vill að Landsvirkjun verði ætíð að fullu í eigu þjóðarinnar og ekki verði lagður rafmagns-sæstrengur úr landi. Sumu af þessu er ég sammála.
Þjóðfylkingin hafnar hugmyndinni um fjölmenningu á Íslandi en styður öflugar aðgerðir til aðlögunar þeirra sem setjast hér. Þessu er ég mjög harðfylgjandi sammála.
Af hverju get ég ekki fengið neinu þessu framgengt með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn? Þar verð ég að horfa á þær Unni Brá og Áslaugu Örnu, uppáhaldsframbjóðanda formannsins, dansa stífidans á Landsfundi fyrir óheftum innflutningi múslíma undir stjórn formanns kjördæmisráðs í SV og velvilja formanns og þola bælingu umræðna um málefni flóttamanna.
Á ég að styðja þetta?
Af hverju fæ ég ekki einu sinni að ræða þessi innflytjendamál á vettvangi flokksins míns? Þar eru reyndustu stjórnmálamennirnir sem ég hef trú á og vil fylgja. En af hverju hunsa þeir mig og aðra svona gersamlega? Erum við svona lítið seglskip sem ekki getur pípt, að þeir geti látið sem við séum ekki til?
Hvað er Sjálfstæðisflokkurinn að reyna að gera mér?
Það er eðlilegt að maðurinn spyrji! -- sá reynslumikli vitmaður. Og einnig hér sjáum við brestina í meðvirku innflytjendastefnunni, þeirri sem Bjarna og ráðandi félögum hans í flokknum þókknaðist að taka upp til þægðar vinstri flokkunum og ríkinu í ríkinu: Fréttastofu Rúv, í stað þess að læra af mistökum hinna Norðurlandaþjóðanna, sem eru óðara að snúa bakinu við þessari afleitu og dýrkeyptu stefnu.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Spaugilegt, Viðskipti og fjármál, Innflytjendamál | Breytt 7.10.2016 kl. 05:25 | Facebook
Athugasemdir
Jón Valur, skildu ekki Alþýðufylknguna út undan! Við útilokum svo sannarlega líka samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna:
Útilokum samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna
Vésteinn Valgarðsson, 7.10.2016 kl. 00:08
En það gerið þið ekki vegna þess að við séum rasistar eða haldin útlendingaandúð. Því fer nefnilega víðs fjarri, að það sé rétt.
JVJ.
Íslenska þjóðfylkingin, 7.10.2016 kl. 00:27
Þú afneitar útlendingaandúðinni þrisvar áður en haninn galar tvisvar.
Vésteinn Valgarðsson, 7.10.2016 kl. 08:52
Takk fyrir þetta Vésteinn, nú veit ég að ég get útilokað það að haka við alþýðufylkinguna í næstu kosningum, mér hugnast ekki að kjósa flokk sem er jafn fullur af fordómafólki eins og þér, ég vona að restin af alþýðufylkingunni sé ekki jafn fordómafull og þú.
Halldór (IP-tala skráð) 7.10.2016 kl. 11:06
Þetta er billeg misnotkun þín, Vantrúar-félagsmaður, á orðum Jesú -- og fer þér alls ekki vel, Vésteinn!
Það er ekki minnsti snefill af útlendingaandúð í stefnu og hugmyndum Íslensku þjóðfylkingarinnar. Sjálfir eigum við blandaðar fjölskyldur (ég meðtalinn) og kunnum að meta bæði útlent fólk og erlenda menningu.
Við hinu göngumst við greiðlega: Við viljum EKKI islamsvæðingu Íslands, eins og er að gerast í vaxandi mæli í Skandinavíu, Bretlandi, Niðurlöndum, jafnvel Þýzkalandi og víðar.
Íslenska þjóðfylkingin, 7.10.2016 kl. 11:30
JVJ ritaði athugasemdina.
Íslenska þjóðfylkingin, 7.10.2016 kl. 11:30
Þar að auki skrifar þú alls ekki hér sem hlutlaus álitsgjafi, Vésteinn, sjálfur í últra-vinstri flokki og keppinautur sem frambjóðandi um að ná atkvæðum fyrir þinn sósíalíska flokk!
Jón Valur Jensson, 7.10.2016 kl. 14:00
Íslendingar eiga þann rétt að hafna stjórnmálaflokki sem stefnir á að þurrka út landbúnað og sjávarútveg.- Við viljum á þessu harðbýla landi,búa við fæðu öryggi. Harðasti kjarni Íslendinga stundar þessa atvinnugrein,og þangað finnst námsmönnum gott að leyta í sumarvinnu.
Helga Kristjánsdóttir, 8.10.2016 kl. 00:32
Merki þjóðfylkingarinnar kemur við hjarta Íslendings.-- Lagið hér minnir á hamingju daga íslendings í Evrópukeppninni.Velgengnin var eitt,en samheldnin og fáninn hreif hvern einasta íslending,sem söng frá hjartana og vissi að fullnaðar sjálfstæði er á næsta leyti.
Helga Kristjánsdóttir, 8.10.2016 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.