Sunnudagur, 25.8.2019
Sjálfstæðisflokkurinn kominn í mótsögn við grunnstefnu sína, ef hann svíkur þjóðina í orkupakkamálinu
Hann er þá ekki að gæta fullveldis landsins og almannahags og lýðræðislegs vilja meirihlutans -- ekki einu sinni vilja eigin flokksmanna og heldur ekki að fara að samþykkt síns eigin landsfundar 2018! -- hvað þá heldur grunnstefnu sinni frá 1929!
Á orkupakkamálinu eru margir fletir. Einn þeirra snertir sérstaklega lífskjör almennings. Hér er þá ekki úr vegi að minna á stefnu Alþýðusambands Íslands í málinu.
ASÍ hafnar orkupakkanum, m.a. með þessum orðum:
"Raforka er grunnþjónusta og á ekki að mati Alþýðusambands Íslands að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.
Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi." (Alþýðusamband Íslands)
Guðmundur Ingi Kristinsson alþm., mikill málsvari öryrkja og fátækra, benti á það á Alþingi, að ekki aðeins getur rafmagnsverð þrefaldazt í kjölfar pakkans, heldur hefði það, vegna kostnaðarauka fyrirtækja, margháttuð hliðaráhrif á verðlag á öðrum sviðum, samfélaginu til tjóns. "Við eigum að fresta þessu máli" og hugsa það betur, er hans afstaða.
Dýrtíð á rafmagni mun fara út í verðlagið (rétt eins og 50% hækkun á næturtaxta rafmagns skv. 2. orkupakkanum leiddi óhjákvæmilega til verðhækkunar á brauði og bakkelsi frá bökurum). Í þetta sinn mun verðskriðan verða svo víðtæk, að það mun hafa verðhækkunaráhrif á vörum og þjónustu af margs konar tagi og hafa þá bein áhrif á VÍSITÖLUR neyzluverðs og byggingarkostnaðar o.fl., og það sem verst er: STÓRHÆKKA ÞAR MEÐ VERÐTRYGGÐAR SKULDIR HEIMILANNA, sem og afborganir húsnæðislána.
Allt þetta eru Bjarni Ben, Sigurður Ingi, Katrín Jakobs & Co. reiðubúin að leiða yfir landið! Þau eiga fremur að segja af sér, úr því að þau eru hætt að vinna fyrir alþýðu þessa lands. Og hvað afstöðu Sjálfstæðisflokksins varðar, sem þrátt fyrir nafnið er leiðandi í orkupakka-ásókninni, þá eiga 15 múlbundnir þingmenn hans ekki að ráða hér meira en mikill meirihluti landsmanna!*
Meginflokkur: Orkumál, virkjanir, stóriðja | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 26.8.2019 kl. 01:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.