Laugardagur, 6.10.2018
Frumvarp um fóstureyðingar gengur þvert gegn stefnu Þjóðfylkingarinnar um verndun ófæddra Íslendinga
Konur hafa almennt verið sér meðvitandi um það síðustu fjóra áratugi, að fóstureyðingar af félagslegum ástæðum væru heimilar að landslögum til loka 12. viku meðgöngu, ekki 16. viku! Skjátlaðist þeim um þetta? NEI, því að í lögunum segir svo um aðalreglu þessa máls:
10. gr. "Fóstureyðing skal framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans."
Einnig: "Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu" o.s.frv. (Fósturdeyðinga-ólögin nr.25/1975) Þetta hafa konur í vanda almennt tekið sem grænt ljós laganna á 12 vikna leyfi til "félagslegra" fóstureyðinga fremur en 16 vikna, enda sést það líka af tíðnitölum aðgerðanna, töldum eftir vikum frá meðgöngu. 93,8% þeirra árið 2015 fóru fram fyrir lok 12. viku meðgöngu, en í undantekningatilfellum fóru svo 4,2% þeirra fram á 13.-16. viku árið 2015.
Þess vegna er vert að benda á, að tal heilbrigðisráðherra um að nú eigi að lengja heimildina til fóstureyðingar úr 16 í 18 vikur hljómar eins og blekkingarleikur, því að fram að þessu töldu konur sig almennt ekki hafa þetta frelsi nema til loka 12. viku og leituðu sjaldan eftir því síðar. Það er því reynt að láta það hljóma svo, að þetta sé í reynd ekki svo veigamikil breyting! En eins og ljóst er af ofangreindu er það blekking. Og nú verður, ef Svandís nær að keyra málið í gegnum Alþingi, auglýst öllum, að fóstureyðingar verði heimilar til loka 18. viku meðgöngu, þegar hún er nær hálfnuð! Óneitanlega var þetta stefna bæði Magnúsar Kjartanssonar, Austra-manns Þjóðviljans, og læriföður hans Leníns (með slíkum lögum hans 1920).
Og trú sinni flokkshefð vill Svandís, að þetta verði nú heimilt ... ekki út frá ákveðnum málefnaforsendum eða indicationum, heldur að beiðni konunnar, án þess að hún þurfi að nefna til neina nauðsyn sína!!! Einmitt þá stefnu hafði Magnús Kjartansson um 1973-4. En alveg er borðleggjandi, að þetta hvort tveggja, lengingin úr 12 í 18 vikur og "frjálsa" ákvörðunarvaldið hjá konunni (og barnsfaðirinn algerlega hafður réttlaus!), mun stórauka flóð fóstureyðinga, eins og það væri ekki nógu mikið fyrir, 1044 á síðasta ári, um þriðjungur allra mannsláta!
Boðað frumvarp heilbrigðisráðherra um málið er því skuggaleg frétt. Það gengur 100% gegn stefnu Íslensku þjóðfylkingarinnar, því að í stað þess, að gefin verði út enn fleiri skotleyfi á ófædda Íslendinga, viljum við ganga í þveröfuga átt, eins og fram kemur í samþykkt flokksþings okkar:
Ófædd börn eiga rétt til lífsins. Flokkurinn tekur einarða afstöðu gegn nýframkomnum hugmyndum um róttækar breytingar á fóstureyðingalöggjöfinni og mun taka á þessum málum með það að markmiði að draga sem mest úr fóstureyðingum.
Íslenska þjóðfylkingin er EINI stjórnmálaflokkurinn sem boðað hefur þessa stefnu, síðan Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar og félaga hans leið undir lok, en stofnaður var hann 1987 og tókst einmitt að koma lífsverndarsinnuðu fólki á þing: Huldu Jensdóttur, Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, Guðmundi Ágústssyni og Kolbrúnu Jónsdóttur, sem öll stóðu að frumvörpum í átt til fósturverndar, þveröfugt við Lenínistaflokkinn VG!
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Lífsverndarmál | Aukaflokkar: Löggæsla, Spilling í stjórnmálum, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.