Sunnudagur, 20.5.2018
Horfum bjartsýn fram á veg, þótt stórar valdablokkir virðist óvinnanlegar, það er enn hægt að breyta og bæta!
Gleðilega hvítasunnu! Það er birta yfir orðinu, þótt útsynnings-slagvirði hafi gengið yfir, sem dregur þó úr í dag, spáð glaðasólskini og hægvirði á morgun!
Nú eru 6 dagar til kosninga! Margir hafa lagt mikið á sig að virkja áhuga annarra á nýjum framboðum til að vinna hugsjónum brautargengi, en horfa þó áhyggjufullir á mistraustar skoðanakannanir sem virðast enn gefa stórum flokkum, sem fyrir eru, mest fylgi.
En ýmsir flokkar eiga leynt fylgi sem kemur ekki fram þegar hringt er í menn frá hlutdrægum fjölmiðli og þeir þýfgaðir um það hvað þeir ætli að kjósa. Þeir fjölmiðlar vinna ekki í þágu nýrra hugsjóna.
Allur okkar aktívismi á að vera yljaður af trú á hið góða, að það hafi tilgang að vinna af alhug að framgangi góðra málefna, þótt einstaklingurinn virðist mega sín lítils að takast á við voldugar valdablokkir, fastmótaðar venjur eða ríkjandi rétthugsun.
Hin bandaríska Meghan Markle (nú nýgift hertogaynja af Sussex) sýndi það strax ung, að hún trúði á möguleikann til að breyta og bæta: Hún vildi ljá jafnrétti karla og kvenna sitt lið og gerði það, jafnvel sem 11 ára stelpa. Þegar henni ofbauð auglýsingamennskan sem virtist ætla konum það einum að starfa í eldhúsinu, þá kaus hún að vinna gegn slíkri innrætingu sjónvarpsauglýsinga og tókst að fá fyrirtæki til að breyta þeim! Þetta gerði hún með sínum einfalda aktívisma: að skrifa bréf! Og það gerði hún seinna í þágu umhverfismála líka.
Og við gerum það sama, þegar við vitum hvað rétt er að kjósa og kjósum það, þótt einhverjir reyni að telja okkur hughvarf og fullyrði, að atkvæðið falli dautt og ómerkt. Það gerir það einungis, ef allir missa trúna. En látum engan taka þá trú af okkur og narra okkur til að kjósa það, sem við vitum að lakara er, eða að sitja heima í vantrú og vesöld þess sem útilokar birtuna fram undan!
Jón Valur Jensson.
Meghan varð aktívisti 11 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Borgarmál, Dægurmál, Innanflokksmál | Breytt s.d. kl. 14:06 | Facebook
Athugasemdir
Og um þessa helgi er tilefni til að óska ýmsum til hamingju, til dæmis Harry og Megan, nýgiftum og hamingjusömum, og nýkjörnum vígslubiskupi í Skálholti, séra Kristjáni Björnssyni.
Jón Valur Jensson, 20.5.2018 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.