Ætla vinstri flokkar að halda áfram að auka skuldir borgarinnar um einn milljarð á mánuði? Að þrífa göturnar 1 sinni á ári? Verður Mosfellsbær áfram með fleiri lóðaúthlutanir en Reykjavíkurborg? Ætla Dagur & Co. að gera alvöru úr því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll á kjörtímabilinu? þótt hann minnist ekki á það nú og þótt nýr flugvöllur á lakari stað, í Hvassahrauni, myndi kosta þjóðina 350 milljarða og meira til, ef hann verður alþjóðaflugvöllur! Hvar eru peningar til þess?
Um 50 milljarða aukning hefur orðið á skuldum borgarinnar á kjörtímabilinu, rúmur milljarður á mánuði! Reykjavík er næst-skuldugasta sveitarfélagið að hlutfallstölu á íbúa, og samt þykist Dagsliðið ætla að fara með Borgarlínu í framkvæmd, sem kosta mundi 70-100 milljarða, og setja Miklubraut í stokk sem kosta myndi a.m.k. 21 milljarð og fela í sér niðurbrot húsa og gríðarlega umturnun (m.a. mundi eitt gæluverkefni síðasta árs, steinveggur milli Miklubrautar og Klambratúns, framkvæmd upp á hálfan milljarð, hlaðinn með hægðinni og umferðartöfum, verða fyrir bí).
Þannig er allt á eina bókina lært hjá þessu gæfulausa liði sem er við stjórnvölinn í Ráðhúsinu. Þeir hafa þó komið sér hjá því að þurfa að svara umkvörtunum borgaranna, því að biðtíminn eftir viðtali hjá embættismönnum borgarinnar, þar á meðal Degi borgarstjóra, hefur verið firnalangur, allt upp í eitt og hálft ár, í stað þess að hlustað sé eftir borgurunum og reynt að þjóna þörfum þeirra.
Aukaspurning: Hvar ætlar Dagur að finna sér vinnu næst?
Svo er skömm að því, hvernig hann sem borgarstjóri misnotar aðstöðu sína til að láta borgina senda út lygabækling þar sem ástand borgarsjóðs og frammistaða hans sjálfs er lofuð og prísuð, þvert gegn staðreyndum! Hér skal að lokum tekin upp úttekt Staksteina Moggans á því máli, í pistli þar í dag, og takið eftir lúmsku háðinu strax í 2. og 4. málslið og í lokamálsliðnum:
Lykilatriði og lykiltölur borgarinnar
Dagur B. Eggertsson.
"Í gær gaf borgin út myndarlegt blað sem á að sýna hve glæsilega hafi verið staðið að uppbyggingu Miðborgarinnar og hve mikil ánægja ríki með það sem gert hefur verið á síðustu árum.Tímasetningin, níu dögum fyrir kosningar, er athyglisverð, en þetta er auðvitað samt alveg ótengt kosningunum.
Að undanförnu hefur fréttavefur borgarinnar verið afar virkur og þar hefur mátt sjá fjölda frétta um hve meirihlutinn, ekki síst borgarstjórinn, hefur verið duglegur.
Þetta tengist kosningum ekki heldur á nokkurn hátt.
Á þriðjudag var á þessum fína og hlutlausa fréttavef sagt frá því að ársreikningur Reykjavíkurborgar hafi verið samþykktur í borgarstjórn.
Þar kom meðal annars fram að útkoma ársreikningsins sé mjög jákvæð fyrir Reykjavíkurborg.
Svo voru dregnar fram lykiltölur úr A-hluta reikningsins, og þá mátti sjá að skuldir eru ekki meðal lykiltalnanna, aðeins eigið fé, sem sumir mundu halda að væri síður lykiltala í þessu sambandi.
En fréttadeild borgarstjóra veit betur og hún er vel meðvituð um að það er lykilatriði að draga ekki fram lykiltölur á borð við skuldir borgarinnar, og þaðan af síður vöxt skuldanna, fyrir kosningar."
Er það ekki að svindla sér leið til valda að bera fram villandi og falskar upplýsingar fyrir kosningar?
Jón Valur Jensson.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.