Fimmtudagur, 17.5.2018
Erlend fyrirtæki eiga ekki að eignast hér heilu firðina og auðmenn ekki hálfu hreppana!
Stórtæk ásælni erlendra auðmanna og fyrirtækja í jarðeignir hér og sjávarútvegsfyrirtæki á ekki að líðast. Stjórnmálamenn Fjórflokksins hafa verið sofandi í þessum málum. Auðugasti Bretinn á hér miklar jarðeignir. Norsk fiskeldisfyrirtæki teygja hingað arma sína, með áformum sem gætu stefnt laxastofnum hér í hættu, og enn berast fregnir af því (síðast í þessari viku) að sjóeldislaxar hafi sloppið hér í margar ár. Þessu til viðbótar er svo hættan á því, að þessi norsku fyrirtæki eignist hér heilu firðina!
Stjórnarskráin hefur ákvæði okkur til varnar í þessum málum, í 72. grein, en stjórnvöld þurfa þá líka að vera fús til að beita þeim. Íslenska þjóðfylkingin er andvíg þeim EES-samningi, sem heimilar ESB-borgurum víðtækar fjárfestingar hér. Og hvorki kínverska ríkið (með lepp að vopni) né aðrir útlendingar eiga að hafa heimild til að kaupa hér upp dýrustu og víðfeðmustu jarðeignir, eins og Bretinn komst upp með á Grímsstöðum og í Vopnafirði og annar (þýzkur auðmaður) í Mýrdal.
Eins ber að tryggja, að íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki komist aldrei í eigu erlendra stórfyrirtækja.
Enn frekari rök gegn EES-samningnum hafa verið að koma fram síðustu mánuðina og fram á þennan dag! (sjá neðar). Glæsileg hefur barátta Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings gegn ACER-málinu verið, í greinum hans í Morgunblaðinu og á Moggabloggi hans, sem og þeirra félaganna í samtökunum Frjálst land. Málið gengur út á að hafna ásælni Evrópusambandsins (með EES-samninginn að vopni) í yfirráð yfir orkunýtingu íslenzkra fallvatna og annarra orkulinda til að eiga færi á að sena rafmagn héðan um sæstreng til Skotlands, en afleiðingin yrði stórhækkun raforkuverðs til íslenzks almennings og fyrirtækja, jafnvel allt að tvöföldun verðssins. Þessu hafna í raun 80% þjóðarinnar skv. skoðanakönnun (sem Bjarni o.fl. hafa gert grein fyrir), en eins og norskir stjórnmálamenn brugðust í málinu, þá gæti það sama gerzt hér, því að ýmsir hér, bæði embættis- og stjórnmálamenn, virðast hræddir við að andmæla valdastéttinni í Brussel og stórveldunum sem standa að Evrópusambandinu.
Nýjasta fréttin er svo sú, að frumvarpið sem liggur fyrir Alþingi um löggjöf um persónuvernd, frumvarp sem felur í sér innleiðingu á Evrópulöggjöf í þeim málaflokki, gæti orðið íslenzkum sveitarfélögum og stofnunum skeinuhætt í meira lagi! Heimilt yrði skv. ákvæðum frumvarpsins "að leggja á gífurlega háar stjórnvaldssektir", og "beiting þeirra myndi sliga mörg sveitarfélög," eins og fram kemur í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag (sjá nánar þar í lengri grein Ómars Friðrikssonar blm. á bls. 44). Samkvæmt frumvarpinu "getur Persónuvernd lagt á stjórnvaldssektir sem nema allt að 2,4 milljörðum króna eða 4% af veltu, hvort heldur er hærra"! Álagning ofursekta af þessu tagi, t.d. á sveitarfélög, sem "fara með mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum," á sér engin fordæmi gagnvart opinberum aðilum, segir í sömu frétt. Dæmi er þar tekið af Reykjavíkurborg, þar sem heildarveltan er 177 milljarðar króna, "og 4% af þeirri upphæð losar sjö milljarða" í stjórnvaldssekt!!!
Þetta er eitt af fleiri dæmum um að við sem smáþjóð eigum ekkert erindi í þetta Evrópusamband né að vera háð því um neitt af löggjöf okkar. Annað augljóst dæmi er hið nýja innistæðutryggingakerfi ESB, sem gæti orðið Íslendingum mjög þungbært, ef til þess kæmi að bankar yrðu hér gjaldþrota eins og í bankakreppunni 2008. Og samkvæmt umræðu um hugsanlegt ofris markaðarins, er eins gott að taka ekki slíka áhættu á þungbærum álögum vegna óþarfrar ESB-löggjafar. Við eigum að sníða okkur stakk eftir vexti, ekki reisa okkur hurðarás um öxl með lagaákvæðum sem henta kunna stórveldi, en ekki smáríki.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Orkumál, virkjanir, stóriðja, Viðskipti og fjármál | Breytt 18.5.2018 kl. 01:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.