Sunnudagur, 27.8.2017
Sjálfstæðisflokkurinn er ókristinn flokkur, það er málið
Styrmir Gunnarsson spyr, hissa á veruleikanum: Hvers vegna í Þýzkalandi en ekki á Íslandi? og á við: Hvernig ná Kristilegir demókratar í Þýzkalandi 38% fylgi, en Sjálfstæðisflokkurinn ekki 25%?
Svör:
- Að kjósa kristinn flokk er ekki að kjósa heiðinn efnishyggjuflokk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið eina upprunalega stoð sinnar hugmyndafræði, þ.e. kristna manngildishugsjón og virðingu við kristin gildi, þar á meðal lífsgildið.
- Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn róttækur nýfrjálshyggjuflokkur og röskur í sinni einkavinavæðingu, í stað þess að eiga sér styrka stoð í sinni gömlu varðveizluhyggju (conservatism), sem fylgdi honum frá stofnun hans með sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins um 1929.
- Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur flokkur allra stétta, heldur auðmagns og fjármálaafla öðru fremur og nýtur þaðan styrkja í flokkssjóði sína.
- Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið öryrkja og aldraða um lofaðar kjarabætur.
- Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki skýra afstöðu með kristnum Vesturlöndum, heldur er opinn í báða enda gagnvart því að fá hingað flóðbylgju mikið til múslimskra innflytjenda; þetta virtist a.m.k. blasa við af mjög virkri þátttöku hans í að semja og samþykkja nýju Útlendingalögin á Alþingi 2016, enda þótt einn ráðherra, Sigríður Andersen, sýni nú andóf gegn þessari stefnu.
- Í skólamálum hefur Sjálfstæðisflokkurinn hvað eftir annað sýnt, að hann lúffar fyrir þrýstingi vinstri manna og andkristinna um vaxandi áhrif þeirra í skólakerfinu, þar sem m.a. er reynt að hreinsa út kristin áhrif og setja heiðin inn í staðinn.
Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki alhliða stuðningi stórs hluta almennings með þessu móti, það ætti Styrmir að skilja, hann sem sjálfur skrifaði ágæt Reykjavíkurbréf í Moggann um kristna arfleifð þessa flokks síns fram yfir miðja 20. öld. Að hann nær ekki nema 24,5% fylgi í nýjustu MMR-könnun, ætti því ekki að koma Styrmi á óvart, jafnvel þótt þetta gerist í kjölfar þess, að vinstri flokkarnir hafa beðið skipbrot í kosningum vegna vondra verka sinna.
En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn um svik við kristnar manngildishugsjónir. Hver á fætur öðrum hafa pólitísku flokkarnir ýmist hætt yfirlýstum stuðningi við kristin gildi eða að stofnaðir hafa verið nýir án þess að minnzt sé á slík gildi.
Íslenska þjóðfylkingin er nú einn flokka með skýrar kristnar áherzlur. "Íslenska þjóðfylkingin styður kristin gildi og viðhorf. ÍÞ virðir trúfrelsi, en hafnar trúarbrögðum sem eru andstæð stjórnarskrá. ÍÞ hafnar því að moskur verði reistar á Íslandi. Búrkur verði bannaðar og umskurður stúlkna af trúarlegum ástæðum. ÍÞ hafnar skólahaldi islamista á Íslandi. ÍÞ vill styðja þá innflytjendur sem aðlagast íslensku samfélagi." (Úr stefnuskrá flokksins.)
Ennfremur er þetta yfirlýst stefna flokksins, í þessari samþykkt landsfundarins í vor: "Ófædd börn eiga rétt til lífsins. Flokkurinn tekur einarða afstöðu gegn nýframkomnum hugmyndum um róttækar breytingar á fóstureyðingalöggjöfinni og mun taka á þessum málum með það að markmiði að draga sem mest úr fóstureyðingum." Með þessu er Þjóðfylkingin eini flokkurinn með slíka lífsverndarhugsjón, andstætt Sjöflokknum á Alþingi, sem 27. marz sl. sýndi blygðunarlausa meðvirkni með fráleitum tillögum um að gera fóstureyðingar algerlega frjálsar og allt til loka 22. viku meðgöngu! EINI andstæði flokkurinn er Íslenska þjóðfylkingin.
Já, andstætt Sjálfstæðisflokknum þorum við að hafa þessa stefnu til varnar kristnum og þjóðlegum arfi okkar, án þess að setja okkur á neinn hátt yfir aðrar þjóðir. En við viljum standa vörð um ófædd börn, sem eru framtíð þjóðarinnar, og um landamæri þjóðríkisins, andstætt stefnu "No Borders"-öfgahópsins, sem hefur notið of mikillar undanlátssemi yfirvalda hér og jafnvel átt vísan beinan stuðning svokallaðs "útvarps allra landsmanna"!
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Innanflokksmál, Skoðanakannanir, Trúmál og siðferði | Breytt 28.8.2017 kl. 00:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.