Mánudagur, 14.8.2017
Vilja menn að þetta gerist hér líka - niðurbrot landsmálsins o.fl. óæskilegt?
Gömul yfirþjóð, með sitt málsvæði víðar en í Þýzkalandi, kemst nú að raun um, að hratt innstreymi flóttamanna & hælisleitenda stuðlar að því að þýzka víki fyrir ensku í vaxandi mæli, í stað þess að allir læri tungu landsins. Á veitingastöðum í sjálfri höfuðborginni Berlín er ekki hægt að treysta því lengur að starfsfólkið tali þýzku - enskan er það algengasta! Á þetta hafa bæði ferðamenn og fyrrnefndir hópar sín áhrif.
En þannig er þetta einnig að verða á sumum veitingastöðum okkar í Reykjavík, og er það fremur óþægileg upplifun fyrir landann. Menn geta vitaskuld hent gaman að þessu og sagt að þetta sé gott á okkar þjóðrembu, en reyndar tölum við ekki íslenzku af neinum þjóðrembuástæðum, hún er bara það sem er okkur eðlilegt og jafnframt, í allri hógværð, verðmætt sem tæki okkar í tilverunni til samskipta og til að miðla góðum hugmyndum og arfi og njóta þess sem við höfum lært af öðrum og af verðmætum bókmenntum landsins.
Við Íslendingar erum á okkar hátt með enn viðkvæmara tungumál en stórþjóðin vegna smæðar okkar, og því gæti þetta, sem er að gerast í Berlín, dunið yfir okkur á skemmri tíma en okkur órar fyrir, en vonandi varðveitist þjóðtungan hér um aldir og helzt árþúsund. Það er ekkert unnið við það að enskan, sem gjarnan er flatneskjuleg í munni flestra hér, taki yfir, og það mun ekki auka vegsemd okkar hér í heimi á nokkurn hátt.
Frá Þjóðverjum getum við lært þá lexíu, að mjög hratt innstreymi nýbúa getur valdið röskun í menningu og samskiptum fólks ekkert síður en félagslegum breytingum, lækkandi launum, röskun á leigu- og húsnæðismarkaði ásamt jafnvel ótraustari stöðu kvenna og áhrifum á glæpatíðni. Því verður ekki of varlega farið í þessum efnum og brýn nauðsyn, að nægilegt fé fari til þessara mála til að aðlögun hinna aðkomnu að máli okkar og samfélagi geti á örfáum árum tekizt með viðunandi hætti.
Hitt er svo allt annar handleggur, að stöðva þarf hælisleitendastrauminn með skjótum hætti og snaggaralegum, eins og Sigríður Andersen hyggst gera. Eftir að það hefur tekizt, vinnst okkur þetta allt miklu léttar, og við verðum líka betur í stakk búin til að taka við raunverulegum flóttamönnum, eftir efnum og aðstæðum. Vegna þess að kristni er nú ofsótt í mörgum löndum heims langt umfram það sem þekktist fram yfir síðustu aldamót, ættum við þar að beina sjónum okkar helzt að kristnum bræðrum okkar og systrum, bæði frá Afríku og Asíu og jafnvel landi eins og Venezúela, þar sem frjálshugsandi fólk er farið að flýja öfgafulla sósíalistastjórn einu sinni enn.
Jón Valur Jensson.
Brjálaður vegna skorts á þýsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Innflytjendamál | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 15.8.2017 kl. 11:06 | Facebook
Athugasemdir
Eitt sinn var ég á veitingastað þarna sem hvorki var töluð þýska né enska, eing0ngu rúsneska. Samt voru starfsmenn innfæddir Berlínarbúar.
Hvernig heimfærir maður það á hættuna við innflytjendur?
Palli Gardarsson (IP-tala skráð) 14.8.2017 kl. 23:32
Eigum við ekki að orða þetta þannig- Þú getur sjálfum þér um kennt, sem krati, hefur þú kosið þetta yfir þig í öll ár.
Þakkaðu fyrir að það var ekki Tyrkneska.
valdimar jóhannsson (IP-tala skráð) 15.8.2017 kl. 00:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.