Ábyrgð stjórnvalda er fyrst og fremst gagnvart ís­lenskum ríkis­borgurum, ekki erlendum, - eftir Birgi Loftsson sagnfræðing

Ég heyri fólk rífast endalaust um þjóð­félags­ástandið í dag sem snýr að hús­næðis­málum og hælis­leitendum. Kíkjum á málið.

Árið 2013, samkvæmt svari Útlendingastofn­unar, kostaði hver hælis­leit­andi kr. 54.600 á viku sem gerir 220.000 kr. á mánuði. Hver er kostn­að­urinn í dag? Viðbúið er að hver hælis­leitandi fái ýmislegt ókeypis á meðan. Líklega þarf hann ekki að borga fyrir hús­næðið sem hann býr í en það getur verið af ýmsum toga. Til dæmis hótel­herbergi, herbergi á Víðinesi eða Fitjum, íbúðir og jafnvel ein­býlishús. 

Til samanburðar fær atvinnu­laus maður 180.000 kr og guð má vita hvað öryrkjar og aldraðir fá en ég býst við að þeir fái að meðaltali um 200 þúsund krónur á mánuði. 

Á öðrum stað segir að hver flóttamaður (sem væntan­lega er ekki lengur hælis­leitandi heldur flóttamaður sem er borgað er fyrir), fái 4-6 milljónir á ári, fær íslenskukennslu, ókeypis húsnæði og margvíslega aðra þjónustu. 

Hælisleitendur stefna í að vera um 2000 í ár (þar af 98% með tilhæfu­lausa ástæðu fyrir hælisleit). Ef meðal­kostn­aðurinn á hvern einstakling er 5.000.000 kr., þá er heildar­kostnað­urinn: 10.000.000.000 kr. en fyrir þá sem kunna ekki inn á svona stóra tölu, þá eru þetta 10 milljarðar kr. Held samt að kostn­aður sé nærri 6 milljarðar samkvæmt tölu sem ég sá um daginn.

Sumir segja að ekki megi blanda saman þessari umræðu, það er fátæku fólki í húsnæðisleit og öðrum hópum sem hafa orðið undir í íslensku þjóðfélagi, við hælis­leit­endur og það sé ekki sanngjarnt. En er það svo?

Á meðan stjórnvöld láta bara örlitla kökusneið af þjóðar­kökunni í þennan málaflokk, þá er það nokkuð einfalt dæmi að þeir verða að berjast innbyrðis um örsneiðina og þá er auðljóst að það ber að tala um þessa hluti í sömu andrá. 

Um 900 milljónir manna ganga til svefns hungr­aðir á hverjum degi í heim­inum. Eigum við ekki að hjálpa þeim öllum? Svarið er að við getum það ekki. 

Svo má benda á þá staðreynd að íslensk stjórnvöld gera hvað sem er til að tryggja að enginn hælis­leit­andi fari á götuna. Enginn fer á götuna, punktur! Besta dæmið um það er þegar húsnæði Lögreglu­skóla Íslands var nýtt til að taka við metásókn hælis­leitenda hingað til lands. Þá riðu fjölmiðlar röftum í hneykslun sinni yfir slæmri meðferð á aumingja fólkinu að láta það hírast tíma­bundið í annars ágætu húsnæði. Sveitar­félögin (líka út á landi) gera þetta ekki fyrir Íslendinga í nauð og verður fólk að fara hreppaflutningum eins og í gamla daga, vegna þess að kerfið þykist ekki bera ábyrgð. Skammar­legt var hvernig tugir þúsunda Íslendinga misstu húsnæði sitt í hruninu og lítið var gert til að bjarga því.

Ábyrgð stjórnvalda er fyrst og fremst gagnvart íslenskum ríkisborgurum, sem fæðst hafa hér á landi, borgað sína skatta og skyldur, en ekki einhverja sem segjast vera eitthvað sem enginn getur sannað að svo sé. Á meðan fólk býr í tjöldum og er svangt, hefur ekki efni á leiguíbúð né læknis­þjónustu (þekki persónulega mörg dæmi um slíkt), þá er ábyrgðin fyrst og fremst stjórnvalda sem verða að forgangs­raða.

Birgir Loftsson á sæti í flokksstjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband