Þriðjudagur, 11.7.2017
Viðnám Vesturlanda: Ánægjulegur dómsúrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu
Eyjan segir frá því, að bann Belga á búrkum sé löglegt að mati Mannréttindadómstóls Evrópu. Þetta gefur færi á því á einu sviði að snúa pendúlnum aðeins í hina áttina, frá islamsvæðingu Evrópu, sem linkind Frakklandsforseta býður hins vegar heim eins og margt í stefnu vinstri flokka á Norðurlöndunum og víðar. En allt, sem miðar að því að Evrópuþjóðir láti ekki hafa sig að fíflum, heldur spyrni fæti gegn flóði hælisleitenda og standi með sínum eigin samfélagsreglum í stað undirgefni við islam og jafnvel sjaríalög, öll slík viðleitni er af hinu góða.
Í Belgíu höfðu verið sett lög árið 2011 "sem banna búrkur og önnur klæði sem hylja andlit á almannafæri. Í dag komst svo Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að bannið bryti ekki í bága við rétt fólks til einkalífs og rétt fólks til trúarskoðana.
Segir í niðurstöðu dómsins, sem greint er frá á vef Independent, að ríkisstjórnin hafi með lögunum verið að bregðast við hefð sem stangaðist á við belgískt samfélag:
Þetta er hefð sem álitin er ósamrýmanleg við belgískt samfélag, við félagsleg samskipti og grundvöll mannlegra samskipta, sem eru ómissandi þáttur í því að lifa í samfélagi og tryggir hlutverk lýðræðislegs samfélags." (Eyjan.is)
Þetta má vera okkur til góðrar fyrirmyndar, eða hver vill þetta ástand hér:
Frá Íran berast þær fréttir, að konur reyni þar í sívaxandi mæli að komast hjá því að bera slæður. Þeim er heimilt að sleppa því í einkarými, og vilja margar láta það ná til bíls síns líka, þar sem þær bera þá slæðuna fremur á öxlum sér en yfir höfðinu. En karlrembulegir "siðgæðisverðir" þar reyna daglega að grípa inn í með sektum, gera jafnvel bifreiðir slíkra kvenna tímabundið upptækar, en tekst samt ekki að berja niður frelsisanda kvennanna.
Meðan stjórnvöld hér á Íslandi láta það óátalið, að hér vaxi fyrst og fremst múslimasöfnuðir styrktir ótæpilega af Saudi-aröbum, þá er líklegt að slæðu- og jafnvel búrku-notkun fari vaxandi meðal múslimskra kvenna í landinu. Virðist það ennfremur fatastíll margra þeirra kvenna sem hingað eru komnar frá múslimskum löndum Balkanskaga. Eru menn jafnvel farnir að rekast á fullklæddar konur í gufuböðum sundlauganna!
Þessi mál þarf að ræða án æsings og af yfirvegun og móta stefnu sem virðir okkar hefðir, án þess að ryðjast inn á svið einkalífsins, og þar er þá dómsúrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu góður til viðmiðs og til leiðsagnar um það, hvað okkur leyfist með ströngum reglum um þessi mál.
Vart þarf að minna á, að í mörgum tilfellum hafa búrkuklæddar konur verið látnar fara með sjálfsmorðsbelti inn á meðal meintra óvina islamista og valdið ómælanlegum hörmungum fyrir fjölda fólks. Við eigum fulla heimtingu á því, að aðrir í samfélaginu komi til dyranna með þeim hætti sem sýnir, hverjir þeir eru, fremur en hitt að leyna því hvern mann þeir hafi að geyma.
Þjóðverjar lærðu sína erfiðu lexíu í þessu efni um helgina þegar grímuklæddir, vinstrisinnaðir ofbeldismenn gengu hundruðum saman berserksgang gegn lögreglu Hamborgar og gegn eigum borgarbúa. Nú hafa kristilegir demókratar þar frumkvæði að því að herða allar reglur um opinber mótmæli (m.a. með tölvuskráningu öfgamanna og útilokun þeirra frá því að vaða um á milli ríkja í þessum skarðræðistilgangi), enda voru 476 særðir lögreglumenn endapunkturinn á, að andvaralítið "umburðarlyndi" fái lengur að gilda í slíkum tilfellum.
Jón Valur Jensson.
Virða ekki slæðulögin í Íran | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Islam, múslimar, Mið-Austurlönd | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.