Eðlilegur viðbúnaður vegna hryðjuverkahættu

Hryðjuverk í Evrópu hafa aukizt verulega á síðustu misserum, nánast alfarið af völdum öfga­múslima. Einmitt í þessari viku er mörgum að verða ljóst, að það er ekki sjálfgefið, að vel upplýstum, ábyrgum, jarð­tengdum lögreglu­yfir­völdum okkar sé treyst fyrir áhættu­mati hér á landi vegna hugsanlegra hryðjuverka og fyrir ákvörðunum um vopnaburð lögreglu við meiri háttar samkomur, þar sem á getur þurft að halda. Vantraustið á lögregluna kemur frá vinstri mönnum.

Ýmis önnur úrræði en byssuvernd hefur lögreglan vissulega að auki, svo sem lokun gatna með veghindrunum, og geta menn þar haft í huga, hve mörgum mannslífum hefði með slíkri forsjá mátt bjarga í frönsku borginni Nice (þar sem 81 drepinn með notkun flutningabíls sem keyrður var á fullri ferð eftir langri breiðgötu í gegnum mikinn mannfjölda) og í Lundúnum fyrir nokkrum dögum. En dæmi um vel heppnaða götulokun hér á landi var einmitt við sjómannadags-hátíðahöldin á Grandagarði sl. sunnudag, þar sem lögregla þurfti því ekki að vera sýnileg á staðnum.

Ennfremur er allt eftirlit lögreglu með netsamskiptum aðila, sem liggja undir grun, afskaplega mikilvægt.

Forvirkar aðgerðir lögreglu, þ.e. heimildir til þeirra, voru lengi umþráttunar­efni í Alþingi, og tillögur um þær urðu vinstri flokkunum efni í margar uppákomur og þingtafir, sem við umhugsun eru þeim einungis til skammar.

Enn á ný eru svo Vinstri græn sérstaklega farin að beita sér gegn vopnvæðingu lögreglu við vissar fjöldasamkomur, einmitt nú, svo stuttu eftir mannskæðu hryðjuverkin í Bretlandi!

Aðalritstjóri Fréttablaðsins sýnir sig í leiðara í dag að vera úti að aka í þessu máli. Hún talar um að á dögum IRA, ETA-samtakanna, Rauðu herdeildanna, Baader-Meinhof, PLO o.fl. hryðjuverkahópa á seinni hluta 20. aldar hafi verið mun meira um hryðjuverk en nú (sem stenzt þó alls ekki, ef 9/11 er innifalinn, lestafjöldamorðin mannskæðu í Madríd 11/3 2004 og Lundúnum 7/7 2005, fjöldamorðin í París og Nice á liðnu ári auk hryðjuverkanna þriggja í Bretlandi á þessu ári og annarra í löndum gamla sovétveldisins); og ritstjórinn er ber­sýni­lega að vísa til þess, að ekki hafi verið krafizt neins öryggis­viðbúnaðar hér á landi við fjölda­samkomur á dögum hinnar fyrri hryðju­verka­öldu á 20. öld.

En þær aðstæður voru gersamlega ólíkar því, sem nú er: mikið til staðbundin átök þá, bundin að mestu við Spán eða Norður-Írland og einangruð tilfelli á meginlandinu, en náðu að sjálfsögðu ekki til Íslands. En nú er við harðsvíraða islam­istíska heimsvalda- og haturs­stefnu að glíma, sem stefnt er gegn sak­laus­um almenningi í kristnum löndum Evrópu, og samvizkulaust er tilgangurinn látinn helga meðalið, þótt börn eigi mjög víða í hlut, eins og sézt hefur í Manchester, París, Nice og jafnvel í meiri háttar hryðjuverkum islamista í rússneska ríkjasambandinu.

Hér á landi hafa aðstæður líka breytzt, landið afar opið fyrir útlöndum, gríðar­legt aðstreymi ferðamanna og mikill fjöldi hælisleitenda staddur í landinu, meiri­hluti þeirra frá múslimalöndum. En á 7.-8. áratugnum voru hér aðeins fáeinir múslimar.

Aftonbladet sænska var í gær, 16. júní, með viðtal við yfirmann öryggis­lög­reglunnar (Säpo) sem upplýsir að ÞÚSUNDIR róttækra islamista séu nú í Svíþjóð; má vísa til fréttar um þetta á Eyjunni í gær. Og þessir menn hafa auðvelt ferðafrelsi til Íslands!

Í takt við eindreginn stuðning Fréttablaðsins við hinn lélega málstað vinstri friðar­dúfanna Katrínar Jakobs­dóttur og Lífar Magnús­dóttur birtir blaðið nú í þriðja sinn glannalega skopmynd á leiðarasíðunni, sem í 3. sinn lýgur að almenningi, að lögreglan íslenzka verði þungvopnuð vélbyssum við öryggis­gæzlu á hátíða­höldunum. Það rétta er, að hún er vopnuð skammbyssum, en meiri vopn tiltæk á sama svæði.

Hver er ábyrgðartilfinn­ing leiðandi VG-manna gagnvart börnum sínum? Vilja þeir ekki, að lögregla geti með skjótvirkum hætti kveðið niður árásaraðila með þeim vopnum sem duga? Vilja þessar VG-konur Katrín og Líf, að hryðjuverka­manni sé frekar gefið frítt spil til að níðast heldur lengur á sem allra flestum sakleysingjum? Eða eiga áfallateymi þeirra að verja okkur? En þau reisa engin börn upp frá dauðum!

Stöndum með okkar eigin landi og þjóð, með eins traustum landvörnum og nauðsyn ber til á þessum varasömu tímum.

Gleðilega þjóðhátíð.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Hátíð í rigningunni á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband