Mánudagur, 15.5.2017
Er fiskveiðistjórnunarkerfið komið að fótum fram?
Eftir formann Íslensku þjóðfylkingarinnar.
Nú er sú staða komin upp, að sumir stjórnmálamenn vilja slá sig til riddara með því að þykjast hafa áhyggjur af afkomu fiskvinnslufólks og að fiskveiðistjórnunarkerfið sem unnið er eftir sé barn síns tíma. Það þurfi breytinga við ef H.B. Grandi fari ekki að vilja eins sveitarfélags. Ekki kemur fram að viðkomandi fyrirtæki er að skapa vinnu annarsstaðar, ekki einungis í Reykjavík, heldur einnig á Vopnafirði. Hér er bara um fagurgala og upphrópanir stjórnmálamanna og ráðherra þessa málaflokks að ræða. Þau munu ekki ætla sér að breyta neinu.
Íslenska þjóðfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið frá grunni með það að markmiði að auka frelsi til veiða. Fyrsta skref í þessa átt er að stórauka strandveiðar sem yrðu frjálsar að því marki að menn þyrftu að hafa tilskilin réttindi til slíkra starfa. Haldi einhver að Íslenska þjóðfylkingin vilji rústa núverandi fyrirtækjum í fiskiðnaði er það reginfirra. Ef rétt er gefið geti allir unað vel við sinn hag. Bætt skilyrði sveitarfélaga til að fá aflaheimildir heim í hérað er nauðsyn svo fyrirtæki í fiskvinnslu geti sett sig niður á þeim stöðum þar sem hagkvæmast er að gera út. Þetta myndi styrkja sjávarpláss víða um landið.
Það ætti að stefna að því að allur afli fari á markað. Svo að fyrirtæki geti aðlagast því fyrirkomulagi þarf að setja lög um það nú þegar, þannig að fyrirtæki geti ekki selt sjálfum sér afla á undirverði. Það kæmi sjómönnum og litlum og meðalstórum fiskvinnslum best. Þetta má gera með prósentum af aflaheimildum.
Til að aflaheimildir bolfisks gangi eðlilega í endurnýjun lífdaga er raunhæft að þær afskrifist um 5% á hverju ári og komi til úthlutunar að nýju þar sem allir geti boðið í þær á frjálsum markaði. Hér þarf að setja lög um dreifingu miðað við útgerðarform fiskiskipa og stærð þeirra. Banna skuli togveiðar innan 50 mílna landhelgi, til verndar fiskistofnunum. Netaveiðar yrðu háðar þeim skilyrðum að menn gætu ekki lagt fleiri net en þeir gætu komið með að landi eftir hverja veiðiferð. Þar með væru bönnuð netalögn í sjó á milli veiðiferða. Þetta ákvæði myndi fækka drauganetum og stuðla að því að aflinn yrði verðmætari og betur farinn við löndun.
Íslenska þjóðfylkingin skilur vel vonbrigði, sárindi og áhyggjur þeirra starfsmanna sem missa vinnuna. Ekki einungis þess fiskvinnslufólks sem vinnur hjá viðkomandi fyrirtæki, heldur einnig þjónustuaðila sem hafa sitt lifibrauð af þessari starfsemi. Það þarf að gera átak í að styrkja þau byggðarlög sem fara, og hafa farið, illa út úr slíkum ráðstöfunum. Oft koma önnur störf í staðinn, en oft verða viðkomandi sveitarfélög ekki svipur hjá sjón eftir slíkar hamfarir. Því er það skylda viðkomandi stjórnvalda á hverjum tíma að gera sitt besta í að setja lagaramma um grunnstoðir samfélagsins og auðlindir þess, þannig að fólk geti sest að á þeim stöðum sem hafa upp á eitthvað að bjóða og þurfi ekki að óttast það að hentistefna fyrirtækja geti lagt líf þess í rúst með geðþóttaákvörðunum. Hér er ekki verið að dæma einstaka fyrirtæki heldur eru þetta allt of mörg tilfelli til að við það verði unað.
Íslenska þjóðfylkingin er eini flokkurinn sem er tilbúinn að fara í málið af fullri einurð og með fastmótaða stefnu sem getur náðst sátt um. Því er það undir landsmönnum komið hvort þeir vilja í raun einhverjar breytingar eða ekki.
Guðmundur Þorleifsson.
Gjaldtaka aðeins áhugamál Viðreisnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Sjávarútvegur | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.