Sunnudagur, 12.2.2017
Orðræða um sjómannaverkfallið sem er hvorki við hæfi né ábyrg
Það er rangt hjá Þorgerði Katrínu, ráðfrú sjávarútvegsmála, að lagasetning til að stoppa verkfallið sé "óheppileg" og "einfaldlega að pissa í skóinn okkar." Þvert á móti er það augljós skylda ríkisvaldsins að grípa inn í, í 1. lagi þúsunda verklausra manna vegna, þegar ekki hefur náðst nein sátt í viðræðum deiluaðila, og í 2. lagi vegna ugglaust betri málstaðar sjómanna, sem útgerðarmenn þvinga til að borga fyrir allan sinn dýra vinnufatnað, þótt endingartíminn sé skammur, einnig vegna dagpeninga sjómanna, sem þeir borga skatt af, ólíkt dagpeningum alþingismanna! - og ennfremur vegna þess að Alþingi og ríkisstjórn tók sjómannaafsláttinn af þessari stétt manna sem við lengstu fjarvistir býr frá fjölskyldum sínum, leggur manna mest til samfélagsins í formi skatta, án þess að geta notað samgöngur og aðra samfélagsþjónustu í sama mæli og aðrir skattgreiðendur, og býr ennfremur við skemmri starfsævi að meðaltali en aðrar stéttir vegna vinnuálags og slysahættu.
Ríkisstjórn SA-manna, SI-manna, FA-manna og útgerðarmanna er bersýnilega ekki "kjörin" til þess að standa með málstað sjómanna, þótt margir hafi þeir eflaust glapizt á að styðja einhverja þeirra þriggja flokka sem að henni standa.
Þorgerður biðlaði þá til deiluaðila að fara inn í vikuna með það í huga að semja og binda enda á verkfallið. Ég hvet menn til að hverfa frá þeim hugsunarhætti að ríkið komi að deilunni með sértækum aðgerðum. (Mbl.is)
Þetta ábyrgðarlausa blaður hennar gefur sjómönnum ENGA VON, bara puttann!
Þvert á móti stefnu Sjálfstæðisflokks, "Viðreisnar" og viðhengis þeirra stendur Íslenska þjóðfylkingin með sjómönnum í þesari deilu og hefur margítrekað sett fram kröfuna um 5-6% sjómannaafslátt. Ásamt kröfu okkar um að útgerðin borgi vinnugalla sjómanna, myndi þetta nægja til að höggva á þennan verkfallshnút, sem veldur sjómönnum og fiskvinnslufólki milljarða skaða í töpuðum launum, sviptir sjávarútveginn og landið gífurlegum gjaldeyristekjum og ríkissjóð ómældum skatttekjum. Ríkið á allan hag af því, að hjól og skrúfur þessarar atvinnugreinar fari að snúast sem fyrst og skipin að stefna úr höfn á miðin.
Að Þorgerður Katrín, sem stökk aftur inn í pólitík úr hálauna-starfi fyrir atvinnurekendur, sýnir þessu engan skilning, er ekki gæfulegt fyrir traust á henni meðal kjósenda, sem geta spurt sig, til hvers hún hafi aftur farið inn á vettvang stjórnmála. Henni nægir ekki til að vinna upp tiltrú á sér að flytja skrifstofu ráðuneytis síns nokkra daga til Ísafjarðar! Menn láta ekki blekkjast af slíkri yfirborðsmennsku.
Vilhjálmur Vilhjálmsson í HB-Granda var í löngu opnuviðtali í Viðskipta-Mogganum nú í vikunni og er þar sérstaklega að verja það, að útgerðin fái um 30% í sinn hlut utan skiptaprósentu, af því að þetta þurfi til að dekka kostnað útgerðarinnar. En þá ættu útgerðarmenn að sýna sóma sinn í því að borga fyrir vinnufata- og hnífakostnað sjómanna. Ríkið getur svo komið til móts við deiluaðila með því að afnema skattheimtu af dagpeningum og endurvekja sjómannaafsláttinn, sem þeir eiga svo sannarlega skilinn. Það er auðvelt að réttlæta það með því að benda t.d. á, að norska ríkið greiðir miklar fúlgur í styrki til útgerðarfyrirtækja þar í landi.
En ætla þessir hægriflokkar sér að verða frægir að endemum: að spilla fyrir trausti á Íslandi og langtíma-markaðsuppbyggingu erlendis með því að rýna bara í naflann á sér og fara með sínar frjálshyggju-þulur?!
Leysið verkfallið strax, það er auðvelt, ef og þegar viljinn er til staðar!
Séu stjórnvöld stöð og þver í málinu eins og Þorgerður Katrín, verður að auka þrýsting á þau og opinskáa gagnrýni sem flestra. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í því efni, félagar í Íslensku þjóðfylkingunni.
Jón Valur Jensson.
Eins og að pissa í skóinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Sjávarútvegur | Aukaflokkar: Spilling í stjórnmálum, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 13.2.2017 kl. 12:20 | Facebook
Athugasemdir
Þessi stétt manna býr ekki við lengstu fjarvistir frá fjölskyldum sínum, flestir vinna venjulegan vinnudag og sofa oftast heima hjá sér. Flugáhafnir, fólk í ferðaþjónustu og margir iðnaðarmenn eru meira að heiman. Hún leggur ekki manna mest til samfélagsins í formi skatta og gjalda, það eru útgerðarmenn. Og sjómenn og fjölskyldur þeirra nota samgöngur og aðra samfélagsþjónustu í sama mæli og aðrir skattgreiðendur. Sjómenn hafa ekki í áratugi búið við skemmri starfsævi að meðaltali en aðrar stéttir vegna vinnuálags og slysahættu.
Það er ekki til þess að leysa deiluna að miða við þjóðsögur og ævintýri og ástandið fyrir 50 árum síðan frekar en raunveruleikan eins og hann er.
Jós.T. (IP-tala skráð) 12.2.2017 kl. 16:58
"Jós.T.", þú ert bara að leika þér að því að andmæla öllu sem ég rita hér um þessi mál án þess að tilfæra neinar heimildir fyrir máli þínu. Og augljóslega ferðu með fleipur. Sjómenn í veiðitúr eru allan sólarhringinn fjarri fjölskyldum sínum, og þeir geta verið býsna margir sólarhringarnir, um fimm til tólf að meðaltali á ísfisktogurum, en leikandi þrjár vikur og upp í tvo mánuði á frystitogurum. Reiknaðu svo!
Jón Valur Jensson, 12.2.2017 kl. 19:31
Þú ert svo gjarn á að bulla algera þvælu. Flestir sjómenn eru hvorki á ísfisktogurum né frystitogurum. Og ekki eru þú með neinar heimildir að vitna í, enda hreinn tilbúningur. Sjómenn í veiðitúr eru fæstir allan sólarhringinn fjarri fjölskyldum sínum og fáar stéttir eru meira heima. Jafnvel þeir sen eru á ísfisktogurum og frystitogurum eru fleiri heila daga heima en venjulegir verkamenn. Algengt er að þeir fái dag fyrir dag + orlof og eru því heima meira en 7 mánuði á ári á fullu kaupi.
Jós.T. (IP-tala skráð) 12.2.2017 kl. 20:07
Það er nokkuð ljóst að Jón Steinsson (Jó.T.) þyrfti að fara að minnsta kosti einn mánaðar túr á frystitogara í Barentshafið til að sjá að menn sofa ekki mikið heima hjá sér. Ég veit ekki um einn einasta sjómann sem fær einn dag í frí fyrir hvern dag sem hann vinnur. Kallar hann það eðlilegan vinnudag að fara til vinnu 2 og 3 á nóttunni og koma aftur 5 og 6 á daginn? Sumir eru greinilega ekki með fulla fimm og ekki einu sinni hálffimm, og er þá nóg að horfa til Jóns Steinssona (Jós.T.).
Jóhann Elíasson, 12.2.2017 kl. 21:08
Þetta stenzt illa hjá þér, og ég er svo sem vanur því á öðrum vefsíðum mínum eða annarra sem þú hefur komið inn á. Skorað hef ég á þig að birta nafn þitt, en það gerir þú aldrei. Bezt gæti ég því trúað þér til að vera annaðhvort leigupenni (og þá greinilega ekki í þjónustu sjómanna, heldur andstæðra afla) eða að þú skrifir af einni saman Þórðargleði hvarvettna sem þú telur þig finna tækifæri til að reyna að skjóta sérstaklega á málflutning minn.
En það, sem ég hef skrifað hér um vinnutíma sjómanna og meira slit á þessari stétt en öðrum og þess vegna skemmri starfsævi, eru alkunnar staðreyndir. Hvet ég sjómenn og aðra til að bera hér sitt vitni um staðreyndir málsins og kjör sín, meðan ég verð að sinna öðru. En "Jós.T." hefur í raun fengið að tala hér út um sína blekkingarmynd mála og þarf ekki á frekari tækifærum að halda, en er það velkomið, ef hann skrifar undir fullu nafni, því að þá er þó einhver að skrifa, sem hægt er að gera persónulega ábyrgan fyrir málflutningnum, ólíkt felupennum.
Jón Valur Jensson, 12.2.2017 kl. 21:15
Ég hef verið sjómaður, faðir minn var sjómaður, mágar, svili og frændur mínir eru sjómenn. Kjör sjómanna verða ekki metin út frá undantekningunum eins og Jón og Jóhann vilja. Íslenskir sjómenn eru almennt ekki á frystitogara í Barentshafinu. Og alkunnar staðreyndir eru aðrar í dag en þær voru fyrir 50 árum síðan, þaðan sem Jón fær sínar hugmyndir og heimssýn.
Jóni þykir slæmt að geta ekki farið í manninn. Þannig er bara Jón þegar hann verður rökþrota og uppvís að fleipri. Og Jóhanni finnst þægilegast að ímynda sér að ég sé einhver sem hann getur nafngreint, sem er skömminni skárra þó heimskulegt sé eins og annað sem frá honum kemur.
Jós.T. (IP-tala skráð) 12.2.2017 kl. 21:29
Já, varstu búinn að finna það út, Jóhann, að þessi "Jós.T." væri = Jón Bjarni Steinsson? Því gæti ég vel trúað, enda hefur sá náungi oft verið að eltast við mig, nánast elt mig á röndum, með sínar mörgu andúðar-athugasemdir um ýmis mál.
Það er iðulega ekki góðs viti, að menn séu að skrifa undir dulnefni, og kannski við förum að ætlast til þess að menn lúti þeirri reglu hér á vefsíðunni að skrifa ekki innlegg nema undir sínu löglega nafni.
Þakka þér svo mjög gott innleggið. Óverðskuldaður og rakalaus skætingur "Jós.T." í þinn garð leiðir nú til þess, að stopp er sett á hann í þessari umræðu.
Jón Valur Jensson, 12.2.2017 kl. 23:17
Ég nenni nú ekki að vera að standa í enhverju skítkasti hér. En ég byrjaði á sjó haustið 1976. Þá voru túrarnir 14 til 18 dagar á ísfisktogara, nema þaegar aflinn var seldur í englandi eða þýskalandi þá mátti bæta 10 til 13 dögum við. En í dag eru túrarnir á ísfisktogara venjulega 5 og hálfur sólarhringur þar sem ég þekki til. Á frystitogara eru túrarnir 26 til 30 dagar.
En lengsti túrinn sem ég hef farið, var ekki á Íslandi. En hann var á Nýfundnalandi hjá Íslenskri útgerð og hann var 47 dagar. Og næstlengsti túrinn var í Affríku, hjá Grískri útgerð en hann var 45 dagar.
Ég veit að það eru til sjómenn sem sofa heima hjá sér á nóttunni en þeir eru ekki margir eftir, því það er löngu búið að gjöreyða vertíðarflotanum.
Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 13.2.2017 kl. 01:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.