Laugardagur, 11.2.2017
Marine Le Pen: AFEITRAÐI frönsku Þjóðfylkinguna, hafnar öfgum og kynþáttahatri
Jafnvel Fréttablaðið viðurkennir, að flokksleiðtoginn Marine Le Pen hefur "afeitrað flokkinn og óspart rekið úr honum liðsmenn sem hafa sýnt af sér gallharðan þjóðernishroka eða boðað grímulaust kynþáttahatur eða Gyðingahatur."
Hófstillt stefna Marine Le Pen nær betur til frönsku þjóðarinnar en æsingaræður föður hennar, sem lét af forystu flokksins árið 2011, þá kominn yfir áttrætt. Hún er þó hörkutól gagnvart Evrópusambandinu, vill a.m.k. endurheimta þau fullveldisréttindi Frakklands sem afsalað hafði verið til Brussel, þótt vilji hennar sé raunar eindreginn í þá átt að landið segi sig úr ESB. Hún vill að óskagjaldmiðill íslenzkra vinstri manna og ESB-innlimunarsinna verði lagður niður:
"Evran er ekki gjaldmiðill. Hún er pólitískt vopn. Evran er hnífur sem Evrópusambandið stingur í bakið á fólkinu til að neyða það til að fara þangað sem það vill ekki fara."
Nú er Marine aftur komin í forsetaframboð og mun njóta stuðnings a.m.k. fjórða hvers kjósanda. Ýmsir leiðtogar vinstri og hægri flokkanna hafa hrapað í áliti, Hollande forseti reynzt afleitlega, fjármálahneyksli kippt fótunum undan jafnt hægri manninum Fillon sem öðrum.
Þá hafa hryðjuverk múslimskra öfgamanna aukið mjög fylgi Þjóðfylkingarinnar á ný, en í Frakklandi eru 5-6 milljónir múslima, og greinilega hefur ýmsum þeirra ekki tekizt að aðlaga sig frönsku þjóðfélagi og gildum. Áberandi er einnig Gyðingahatrið meðal öfgamúslima, og hafa sum hryðjuverkin beinzt að þeim, saklausum borgurum landsins, og hefur það jafnvel stuðlað að brottflutningi Gyðinga til Ísraels.
Full þörf er á því um alla Evrópu, að ríkisstjórnir þar taki raunsætt mið af því, að yfir 70% þeirra, sem afstöðu taka í skoðanakönnun Chatham House í 10 af helztu Evrópuríkjum, eru hlynnt því að stöðva þar móttöku fleiri múslima.
PS. Opinbert, enskt heiti Íslensku þjóðfylkingarinnar er the National Alliance. Við notum ekki hugtakið National Front, sem hefur hernaðarlegan hljóm (minnir á herfylkingu) og var í sumum Evrópulöndum á stundum tengt nýnazisma. Íslenska þjóðfylkingin fordæmir allan fasisma og kynþáttaandúð.
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.