Föstudagur, 14.10.2016
Að skirrast ekki við að skemma fyrir öðrum
Stuðningsmenn Ísl. þjóðfylkingarinnar í Reykjavík eru í sárum eftir niðurbrot liðsmanna hennar af hálfu nokkurra leiðandi manna sem höfðu ekki taumhald á sér á ögurstundu.
Ekki var það mikil pólitísk dómgreind sem sýndi sig í þeirri ákvörðun oddamannsins í Rvík-suður að fórna góðri von um þingsæti vegna alls óþarfrar og fyrirhyggjulausrar samstöðu með upphlaupsfólki. En svo fór sem fór, og sá annars hæfileikamikli Gunnlaugur Ingvarsson varð bæði af þingsætinu og tiltrúnaði margra með þátttöku sinni í ótrúlega bíæfnu skemmdarverki á flokknum.
JVJ.
![]() |
Þjóðfylkingin ekki fram í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Föstudagur, 14.10.2016
Íslenska þjóðfylkingin getur enn keyrt áfram á fullum hraða inn í kosningabaráttuna
Engin ástæða er til að láta hugfallast þótt einstaklingar hlaupist undan merkjum. Þeim, sem standa að framboðslistum flokksins, ber siðferðisleg skylda gagnvart meðmælendum sínum og frambjóðendum til að afhenda yfirkjörstjórnum sín framboðsgögn og innsigla þar með formlegt framboð sitt, en það hefur engin stofnun flokksins, hvorki kjördæmaráðin né flokksstjórnin, dregið til baka, þótt nokkrir meðal leiðandi manna hafi af óskiljanlegum ástæðum kastað frá sér gullnu tækifæri til að taka þátt í meiri háttar glæsilegri innkomu þessa stjórnmálaafls inn á hið pólitíska svið, þ.m.t. inn á löggjafarþing Íslendinga.
Róðurinn verður að sönnu þyngri með fráhvarfi svo sterks manns sem Gunnlaugs Ingvarssonar, eins vinnusamasta og mesta aktívista flokksins, manns sem þar að auki á sér nánast engan sinn líka í mælsku og rökfestu í sambandi við innflytjendamál (sbr. hér).
En við látum engan bilbug á okkur finna, hugsjónir okkar eru ekki bundnar við nokkra einstaklinga eða öfluga menn sem móti framvindu sögunnar, heldur samvinnuafl samhuga liðsmanna, sem í trúmennsku við hugsjónir sínar og af þjónustulund við heill og hag landsins halda ótrauðir áfram baráttunni.
Þessi hugsjónamál eru fjarri því að vera bundin við innflytjendamál, því að snöggtum þungvægara málefni er fullveldi þjóðarinnar, sjálfstæði okkar gagnvart erlendum ríkjablokkum, velferð alþýðu til sjávar, sveita og þéttbýlis, réttlæti fyrir fólk sem hefur skilað sínu lífsverki á vinnumarkaðnum, sem og fyrir stétt sjálfstæðra sjómanna, lýðræðisvæðing bæði lífeyrissjóða og sjávarútvegsins, sem felur í sér endurreist frelsi hins vinnandi manns til athafna sinna og framlags í þágu síns samfélags og átthaga.
Síðustu forvöð til að skila meðmælenda- og frambjóðendalistum ÍÞ til skrifstofu flokksins, Dalshrauni 5, Hafnarfirði, eru í dag, föstudag 14., kl. 11.30, en þeim ber að skila fyrir kl. 12 á hádegi í Ráðhús Reykjavíkur vegna kjördæmanna þar og í öðrum kjördæmum til yfirkjörstjórna á Akureyri og víðar samkvæmt auglýsingum þeirra. Hafi einhverjir slíka lista enn undir höndum, með hve mörgum eða fáum nöfnum sem er, er skorað á þá að hafa strax samband við skrifstofu flokksins í síma 789-6223.
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)