Fjór­menn­inga­klíkan braut lög og rétt á frambjóðendum Íslensku þjóðfylkingarinnar

Að mis­fara með undir­skrifta­lista og með­mæli með fram­boðs­listum til þing­kosn­inga er refsi­vert athæfi. Sjálf­nefndri fjór­menn­inga­klíku tókst að koll­varpa fram­boði í 2-3 kjör­dæm­um með skyndi­árás í kjölfar hótana, gerði það á versta tíma fyrir flokkinn. Athæfið ber merki þess að vera skipulagt.

Í nefndri klíku voru Gústaf Níelsson, sem í tilkynningu um fram­boðs­lista flokksins í efstu 10 sætum í Reykjavík-norður var í 1. sæti, Inga G. Halldórs­dóttir í 2. sæti sama lista, var ennfremur formaður kjördæmaráðs Reykja­víkur­list­anna, og Svanhvít Brynja Tómasdóttir, í 3. sæti sama lista. Ennfremur Gunnlaugur Ingvarsson, í efsta sæti flokksins í Reykjavík-suður. 

Fjarri fer því, að þessar fjórar persónur hafi látið sér nægja að draga sig í hlé af framboðs­listum flokksins og halda blaðamannafund í Hörpu til að tilkynna þetta, með ýmsum niðrandi ásökunum á hendur forystu flokksins -- ásök­unum sem fylgt var eftir í fleiri viðtölum við fjölmiðla, en var þó svarað að verðleikum.

Allt þetta, eins ósanngjarnt og það má teljast gagnvart félags­mönnum flokksins og hug­sjónum þeirra -- jafnvel þetta hefði ekki þurft að koma að sök, ef þau, fjögur talsins, hefðu látið sér það nægja, þ.e.a.s. að hverfa frá eigin fram­boð­um, jafnvel þótt þau kysu að að tjá sig með lítils­virðandi, en órök­studd­um hætti um formann flokksins. Allt það tjón, ef ekki hefði meira komið til, hefði mátt yfir­vinna með því að fylla í fjórar eyður á framboðs­listum flokksins og tefla nýjum mönnum fram til forystu þar.

En hér er sögunni komið að því misferli sem áður var getið um. Fjórmenn­ingarnir bættu gráu ofan á svart með eftir­farandi aðgerðum, sem eru stóralvarlegt mál: 

1) Þau hótuðu flokksstjórninni því að halda aftur ýmsum undir­skrifta­listum, afhenda þá ekki til flokksins, heldur halda þeim í sínum höndum og réttlættu það með því, að þau hefðu sjálf safnað þeim undir­skriftum, enda var t.d. Svanhvít ofur­meðvituð um að hún hefði safnað svo mörgum. En út í þessa hótun voru þau komin í gagnrýni sinni á Helga formann og ritarann Sigurlaugu á síðustu dögum áður en framboðsfrestur rann út 14. okt. Gunnlaugur Ingvarsson talaði við undir­ritaðan (þá á Austurlandi) í síma allt til 13. okt. um deilumálin og var mikið niðri fyrir um það sem hann kallaði annars vegar stífni foryst­unnar um undir­skrifta­listana og hins vegar að þær stöllur Inga og Svanhvít væru farnar að hóta ofangreindu, að halda eftir listum.

Þetta var svo einmitt það sem mun beinlínis hafa gerzt, því að ekki komu til flokksins listar um svo marga sem áður voru samkvæmt talningu orðnir meira en nógu margir í Reykjavíkur­kjör­dæm­unum báðum (lágmark gildra meðmæla í hvoru var 330). Líklegt er einnig, að þetta hafi átt við um einhverja meðmæl­enda­lista í SV-kjördæmi, þar sem skyndilega kom í ljós 14. okt., að ekki hefðu allir tilskildir og áður útreiknaðir meðmæl­endur komið fram.

Hér ber að hafa í huga, að meðmælendur skráðu nöfn sín í þágu þess, að Íslenska þjóð­fylkingin fengi að bjóða fram eins og aðrir flokkar, en ekki í þágu neinna einstakra safnenda nafnanna, sem þar með gætu slegið eign sinni á með­mælin í stað þess að skila þeim til flokksins sem síðan myndi afhenda þau yfirkjörstjórn 14. okt.

Að afhenda ekki þessi gögn, sem stefndu að því að verða opinber gögn frá bæði meðmæl­endum og frambjóð­endum, virðist fela í sér tvöfalt lögbrot (sjá neðar).

2) Staðfestar upplýsingar liggja fyrir um, að (a) Inga G. Halldórsdóttir hélt fyrir sig undirrituðum framboðsyfirlýsingum frá ýmsum frambjóðendanna í stað þess að leyfa þeim að komast til yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmanna og (b) að hún beitti undirróðri í einkasamtölum við a.m.k. nokkra (ef ekki marga) skráða frambjóðendur í kjördæmunum báðum, í þeim bersýnilega tilgangi að fæla þá frá því að standa við framboð sín. Undarlega fljót varð hún til þes að fullyrða opinberlega, að "um 30" af frambjóðendunum 44 í Reykjavíkurkjördæmum hefðu "hætt við framboð sín", og er þó ekki vitað til, að boðað hefði verið til neins fundar með þeim. En vitnisburður a.m.k. tveggja þeirra liggur fyrir um þessar baktjaldaaðferðir Ingu, eins og fram kemur hér á eftir, en nánar mun svo undirritaður fjalla um hin ætluðu lagabrot sem áður var vísað til.

Af upplýsingum í símtölum við tvo frambjóðendur í Rvík-suður, Hilmar Sigurðsson iðnmeistara og Árna Thoroddsen, gat undirritaður greint mynztrið í baktjaldamakki Ingu og persónuárásar-aðferð: að hún hafi í símtölum gert mikið úr þörf þeirra fjögurra í klíkunni til að standa gegn meintu einræði og lögleysum af hálfu formannsins/forystunnar og haldið því að mönnum, að brýnt væri að koma í veg fyrir yfirvofandi fjárhagslega misnotkun Helga formanns á flokkssjóðum eftir kosningarnar (!!!), ásamt öðrum falsásökunum eins og t.d. þeirri, að HH og félagar hafi ætlað að ryðja burt 2X2 efstu mönnum af báðum Rvíkurlistunum! -- ásökunum sem hún hefur talið sig eiga létt með að smyrja á HH með tilvísan til þess, að þau hin þrjú í efstu sætum á listunum stæðu með henni í þessu, og með hliðsjón af því, að áheyrendur þessara ásakana töldu hana vita mun betur um málin en þeir sjálfir! Það var nóg, að þeim leizt ekki á blikuna og yrðu "skeptískir" á forystuna (orð HS um áhrif orða hennar á sig) og litist ekki á þetta meinta ástand, það hafði þessi áhrif t.d. á Hilmar (hans orð): "... það sem hún var að segja mér konan [Inga], að mér leizt ekki á þetta," og "mér féllust hendur", sagði hann "hún dró úr mér allan kjark", og þar með sótti hann ekki gula framboðs­blaðið sitt heim til hennar til að fara með það á flokks­skrifstofuna, eins og undir­ritaður hafði hvatt hann til; og þetta túlkar hún svo, að hann hafi dregið framboð sitt til baka! "En auðvitað hefði ég átt að ígrunda þetta betur sem hún var að segja mér," sagði Hilmar ennfremur við undir­ritaðan eftir þennan afdrifaríka föstudag 14. okt. og viðurkenndi, að hann hefði þá betur borið þetta undir mig. En: "Hún náði mér alveg að fæla mig frá þessu hún Inga, þannig að ég var orðinn skeptískur á þetta." 

Annar frambjóðandi var á sama gula undirskriftablaðinu, Árni Thoroddsen kerfishönnuður, sem upplýsti undirritaðan JVJ eftir á í símtali: "Hún [Inga] hringdi í mig [eftir blaðamannafund fjórmenninganna, sem sé 13. eða 14. okt.] og spurði hvort ég ætlaði þá ekki að fara af listanum. Ég sagði nei," sagði Árni, "því að ég gaf þér [JVJ] þetta loforð [að vera frambjóðandi í Rvík-suður] og yrði að ræða við þig. Hún sagði mér þessa sögu um að formaðurinn ætlaði að ræna sjóðnum, þegar framboðið væri komið í gang ..." (!). Ennfremur sagði Árni (og allt þetta hripaði undirritaður niður á umslag, sem hann skrifar upp eftir hér í þessa færslu): "Hún var mjög efins um að hún myndi leggja fram listann. Ég sagði bara að ég væri bundinn af mínu ..." (náði ekki að rita niður frh. orðalagsins). "Mér sýnist það refsivert að hún hafi verið að reyna að koma listum undan sem áttu að fara annað," bætti hann við. Ekki lagði hann í að fara upp í Breiðholt til að ná í gula blaðið til hennar og koma því á skrif­stofuna, enda ekki á eigin bíl, en vitaskuld átti Inga sjálf að koma þessu og trúlega fleiri blöðum á skrifstofuna í stað þess að draga t.d. svo úr Hilmari, að hann hætti við ferð til hennar til að koma sjálfur blaðinu á skrifstofu flokksins í Dalshrauni í Hafnarfirði.

Þessi var lokaályktun Árna um upphlaupsmál fjórmenninganna: "Þeir gera sig algerlega óhæfa til að fara í nokkur framboð í framtíðinni. Það treystir þeim enginn til að [bjóða sig fram fyrir annan flokk]."

Við erum komin hér að hugleiðingum um lögbrot. Lögfróður maður í flokks­stjórn ÍÞ taldi, að hér hefðu átt sér stað umboðs­svik í meðförum undirskrifta­listanna. En eftirfarandi fann undirritaður um umboðssvik í blaðagrein á netinu:

Umboðssvik er skv. 249.gr. almennra hegningarlaga það þegar menn misnota umboð sem þeir hafa fengið, t.d fjárreiður fyrir aðra, þannig að sá sem veitir umboðið sé bundinn af því. En í greininni segir: "Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi."

Reyndar eiga umboðssvik í skilningi laganna ekki endilega við um alla misnotkun umboðs, sbr. eftirfarandi:

Eins og um önnur brot sem falla undir auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga þarf brotið að vera framið í auðgunarskyni. Þ.e. ásetningur þarf að vera til staðar um fjárhagslegan ávinning. Umboðssvikin eru svokallað hættubrot, þ.e það er nóg að brotið hafi skapað hættu á tjóni. „Nægilegt er að slík skuldbinding feli í sér verulega fjártjónshættu fyrir viðsemjanda eða annan aðila, endanlegt tjón þarf ekki hafa hlotist af," sagði Jónatan Þórmundsson, prófessor emeritus í refsirétti, á erindi um umboðssvik á lagadeginum 2010. 

En hér kemur samt til skoðunar, hvort skilyrðin, sem brotið þarf að uppfylla, svo að 249. gr. eigi við um þau, séu ekki einmitt uppfyllt þegar um er að ræða frambjóðendur, sem hafa verið settir í "hættu á tjóni" með eyðileggingu eða undanskoti nefndra fjórmenninga á framboðs­gögnum. Þetta getur átt við um hvort heldur frambjóðendur, sem reynt hafi verið að ryðja út af lista fram­bjóð­enda eða jafnvel þá, sem stóðu þar eftir óhnekktir í sæti ofarlega á lista eins og átti við um undirritaðan (nr. 2 á lista í Rvík-suður), en fóru í raun á mis við það sæti vegna þess að formaður kjördæmaráðs hafi vanrækt ábyrgð sína á list­anum og unnið beint gegn því umboði sem henni var falið í flokknum. "Endan­legt tjón þarf ekki að hafa hlotizt af," segir hinn sérfróði próf. em. Jónatan.

Í 2. lagi kemur hér einnig til skoðunar hugsanlegt brot gegn ákvæði í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, skv. nýjustu gerð eins og hún finnst á alþingis­vefnum. Hér er það umfram allt 2. málsliður 162. greinar sem kemur til álita, en 1. málsliðurinn er þó tekinn hér með fyrir samhengið:

XVII. kafli. Skjalafals og önnur brot, er varða sýnileg sönnunargögn.

162. gr., 1. málsliður: Hver, sem rangfærir sönnunargögn eða kemur fram með röng sönnunargögn í því skyni að hafa áhrif á úrslit dómsmáls, skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Ef málsbætur eru og brot varðar ekki þyngri refsingu að lögum má beita sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

2. málsliður sömu greinar: Hver, sem til þess að halla eða fyrirgera rétti annarra, eyðileggur sönnunargagn, kemur því undan eða gerir það ónothæft að öllu eða einhverju leyti, skal sæta fangelsi allt að 2 árum

Nokkuð ljóst virðist liggja fyrir, að undanskot með hálfopinber gögn geti í breiðri merkingu fallið undir hugtakið skjalafals, og með ætluðu undanskoti meðmælendalista og jafnvel frambjóðendalista virðist tilgangurinn hafa verið að "halla eða fyrirgera rétti annarra", þ.e. flokksmanna sem í góðri trú skráðu sig sem frambjóðendur, en voru blekktir til að aðhafast ekki, þegar sýnt var, að unnið var gegn framboði þeirra með illu umtali um meinta stjórnunarhætti for­manns eða framkvæmdastjórnar flokksins og jafnvel um meint framtíðarbrot (!) for­mannsins með stórfelldum fjársvikum í meðförum ríkisstyrks!

Ennfremur má ætla, að tilgangur þess að skjóta undan meðmælenda­listum hafi verið að koma að fullu í veg fyrir framboð flokksins í viðeigandi kjördæmum og að með þessu hafi þess verið freistað að "halla eða fyrirgera rétti ann­arra", bæði meðmæl­enda og frambjóð­enda og kjósenda, til að eiga sitt lýðræðislega val til jafns við aðra í frjálsu samfélagi.

Fróðlegt verður að sjá álit lögfræðinga á þessum álitaefnum.

* Sbr. yfirskrift meðmælendalistanna: "Undirritaður samþykkir að Íslenska þjóðfylkingin bjóði fram lista sinn í næstkomandi alþingiskosningum í Reykjavík­ur­kjördæmi norður [eða öðrum kjördæmum]". 

Jón Valur Jensson, fyrrverandi tilvonandi frambjóðandi í 2. sæti í Reykjavík­ur­kjördæmi-suður! - á sæti í 21 manns flokksstjórn Íslensku þjóð­fylk­ingarinnar.

Sjá einnig fyrri grein hér um sama mál, með öðruvísi nálgun þó og með fleiri upplýsingum að auki: Af blekkingarleik samsærishóps.


mbl.is „Þetta er ákaflega óþverralegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband