VIÐTAL: Bjóða fram í borginni, vilja mosku burt og endurreisa verkamannabústaðakerfið

Íslenska þjóðfylkingin sendi frá sér frétta­tilkynn­ingu um að flokk­urinn hefði sent Eftirlits­nefnd með störfum lögregl­unnar erindi þar sem gerðar eru at­huga­semdir við embætti og störf Eyrúnar Eyþórs­dóttur (oft nefnd „haturs“ lögga), eins og segir í frétta­tilkynn­ingu flokksins. Vefritinu Skinna.is lék forvitni á að vita meira um málið og hvað sé að gerast hjá Íslensku þjóðfylk­ingunni. Við hittum Guðmund Þorleifsson, nýjan formann flokksins, og lögðum nokkrar spurningar fyrir hann. (Endurbirt af vefnum Skinna.is.)

Guðmudur í framboði til formanns- Nú sendi Íslenska þjóðfylkingin inn athugasemd til Eftirlits­nefndar með störf­um lögregl­unnar. Hvað er það sem ykkur finnst svona athugavert við störf hennar? Hvað eruð þið að gera athugasemd við?

„Störf lögreglunnar eiga að vera á jafnræðis­grunni, en sú sem hefur verið ráðin til starfa, Eyrún, hefur lýst því yfir að hún sé með ákveðnar skoðanir. Hún hefur tengst ákveðum hópum með ákveðnar skoðanir. Það virðist vera að alla aðra, sem eru ekki á sömu skoðun, sé réttlæt­anlegt að draga fyrir dóm,“ segir Guðmundur.

„Það er mjög ámælisvert af ríkinu að ráða manneskju sem þessa í þetta starf. Við þurfum líka að athuga að hver og einn, sem er kærður, þarf að ráða til sín lögfræðing til að fara með mál þeirra, sem kostar þá alltaf töluverða fjármuni, þó svo þeir fái gjafsókn. Vegna þess að gjafsókn nær aldrei að greiða allan kostnað fyrir utan ærumeiðingar sem viðkomandi verður fyrir. Það er því óeðlilegt að ríkið sé að vasast í svona löguðu. Ef menn telja á sér brotið geta þeir, lögum samkvæmt, sótt viðkomandi fyrir dóm.“

- Hvað finnst þér um þau mál sem hafa verið tekin fyrir?

„Af þessum málum, sem hafa verið tekin fyrir, hafa allir verið sýknaðir að fullu. Það segir mér að dómskerfið sem slíkt er að standa sig. Þarna er farið fram með offorsi gegn ákveðinni skoðun og ákveðinni túlkun. Þannig að ríkið er að brjóta gegn þessum manneskjum og á tjáningar­frelsi landsmanna. Ég vona bara að sú ríkisstjórn sem nú situr, vona bara að hún ljái ekki máls á að fara sömu leið og Þjóðverjar, sem hafa ákveðið að sekta fjölmiðla fari þeir ekki eftir einhverri rétthugsun.“

- Hvað vonist þið að muni gerast í kjölfar þess að þið sendið inn þetta erindi? Að embættið verði lagt niður?

„Ja, það er ekki ásættanlegt að vita til þess að löggæsluna vantar fé, en að vera að eyða peningum í svona gæluverkefni, það er bara ekki ásættanlegt. Það væri nær að veita þessum peningum í almenna löggæslu og í baráttuna gegn fíkniefnum, sem við höfum miklar áhyggjur af.“

- Nú hefur flokkurinn heitið því að segja Ísland úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Evrópusambandið hefur hvatt löggæslustofnanir til að halda námskeið til að greina hatursorðræðu. Telur þú að þetta embætti sé einn angi af veru okkar þar?

„Það er alveg greinilegt að þeir sem stjórna í ráðuneytunum virðast vera nokkuð frjálsir um það hverju þeir hleypa í gegn og hverju þeir hafna eða sitja á. Það sést á því að Evrópudómstólinn hefur verið að dæma okkur fyrir það að sitja á tilskipunum. Það er nauðsynlegt fyrir íslenska ríkið að segja sig frá Evrópska efna­hags­svæðinu. Því fyrr því betra. En jafnframt gera tvíhliða samning við Evrópu­sambandið sem og önnur ríki. Það er voðalega skrítið hvernig íslenska ríkið hefur endalaust þókknast Evrópu­sambandinu og það virðist vera endalaus áróður fyrir því. Á sama tíma og Bretar eru að fara út, okkar stærsta viðskiptaland innan Evrópu. Viðskipti okkar koma örugglega til með aukast verulega við Breta þegar þeir hafa gengið út. Ég held við eigum að gera tvíhliða samning við Bandaríkin og Breta. Svona á svipuðum nótum og við gerðum við Kínverja. Það myndi lækka vöruverð. Það myndi gera það að verkum að fleiri hefðu áhuga á að koma hingað með verslun, samanber Costco, og það myndi lækka vöruverð. Það myndi gera það að verkum að við myndum opna allt að 400 milljóna manna markað. Við erum með Breta sem eru 60 milljónir og markaður myndi opnast í Bandaríkjunum sem er 360 milljóna manna markaður. Við værum þá komin undan Evrópusambandinu og þar með gætu íslensk fyrirtæki haslað sér völl á undan hinum, sem ég held að sé mjög dýrmætt fyrir Íslendinga.“

- Hvað með Schengen-samstarfið? Flokkurinn hefur boðað að hann ætli að segja Ísland úr Schengen. Ætlið þið að standa við það?

„Já, já, við stöndum alveg við það. Það er það sem við höfum verið að leggja áherslu á. Kostnaðurinn við Schengen er mikill. Við höfum til dæmis sent Fangelsismálastofnun fimm fyrirspurnir hver kostnaðurinn við að halda erlenda fanga á Íslandi er frá því að við gengum í Schengen. Við höfum ekki ennþá fengið svar. En það er ekki það eina. Það er grundvallarkrafa okkar, að við berum sjálf ábyrgð á okkar landamærum. Að segja Ísland úr Schengen þýðir ekki að við ætlum að vera fúl út í alla Evrópu.“

- Hvað með flóttamenn. Nú er ljóst að margir eru að koma hingað sem eiga ekki rétt á hæli. Þið hafið sagt að það hafi áhrif á biðröðina eftir húsnæði í félagasmálakerfinu.

„Það er segir sig sjálft, ef það gengur fyrir hjá ríkisstjórninni að útvega hælis­leitendum húsnæði en ekki sínum eigin þegnum sem þeir eru þó skuld­bundn­ir til að gera samkvæmt stjórnar­skránni. Hér spilar inn í þessi arfa­vitlausa útlend­inga­löggjöf sem tók gildi um síðustu áramót og þarf að fella þegar í stað úr gildi. Ég segi fyrir mitt leyti, og er fullviss um að aðrir innan Íslensku þjóðfylk­ingarinnar eru sama sinnis: við eigum ekki einu sinni að fara í 48 tíma regluna. Við eigum að snúa þeim við strax, um leið og þeir koma til landsins. Það er engin ástæða til að taka á móti fólki sem við vitum fyrirfram að á ekki erindi hingað. Hér á landi er orðin til ákveðin starfsgrein lögfræðinga og sérfræðinga hjá félagsmálastofnunum, sem lifa á þessu. Þetta er orðin ákveðinn „iðnaður". Þetta er fólk sem starfar á vegum ríkisins og það berst af oddi og egg til að halda sínum störfum... og ég skil það svo sem vel. En ég tel að fjármunum sé vitlaust varið, að eyða öllum þessum fjármunum í þetta hér heima, heldur ættum við að nota þessa peninga til að hjálpa fólki í sínu nærumhverfi, þar sem fjármunirnir nýtast miklu betur. Við eigum að fara í þeirra nærumhverfi í Sýrlandi og Líbanon og þar eigum við að leggja til og hjálpa. Þar myndi peningurinn koma betur að notum.“

- Ætlið þið að bjóða fram í borgarstjórnarkosningum eða til sveitarstjórna?

„Við stefnum að því að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum en horfum fyrst og fremst til borgarinnar. Það gæti orðið fleiri sveitarfélög. En þetta er náttúrulega mikil vinna og við sjáum bara hvað setur.“

- Hver verða ykkar helstu stefnumál í borginni?

„Við vitum það að í borginni þarf að bæta almenningssamgöngur en þessi Borgarlína er arfavitlaus, hana þarf að endurskoða. Við höfnum Borgarlínunni. Hugmyndin er góð að reyna að koma innlendri orku í vinnu, en þessi útfærsla er ekki góð. Svo erum við algjörlega á móti mosku og munum leggja til að lóð undir mosku og það sem hefur verið samþykkt í Hlíðunum um að reisa turn, þar sem er verið að lauma inn annarri mosku af núverandi borgarstjórn, verði dregið til baka. Síðan munum við leggja áherslu á að endurreisa verka­manna­bústaðakerfið í samvinnu við lífeyrissjóði og verkalýðs­hreyf­inguna. Við viljum bara drífa það verkefni af stað. Við viljum hætta að bjóða út lóðir og lækka þar með bygginga­kostnað. Við úthlutum í staðinn lóðum og þeim verður ekki úthlutað til gæðinga.“

- Hvað áttu við með því?

„Það eru margir sem hafa fengið úthlutað fullt af lóðum þó þeir hafi farið margsinnis á hausinn. Nú er bara kominn tími til að þetta verði skoðað alveg í grunninn. Við komum upp gamla fyrirkomulaginu sem var. Við getum til dæmis byggt verkamannabústaði á stuttum tíma. Þannig að þá á að vera hægt að leysa húsnæðisvanda fjölskyldufólks og eldri borgara á tiltölulega stuttum tíma án þess að allt fari um koll. En til þess þurfum við kjark, hugrekki og hugsjónir.“

- Hvað er svo framundan hjá Íslensku þjóðfylkingunni?

„Við höfum verið að endurbyggja flokkinn. Við munum koma sterk inn að hausti. Þá ætlum við að halda fund, almennan stjórnmálafund. Þar opinberum við okkar helstu mál fyrir borgar- og sveitarstjórnarkosningar. Já, já, flokkurinn kemur bara til með að stækka,“ sagði Guðmundur Þorleifsson formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar að lokum.


Bloggfærslur 25. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband