Rúmlega tvöföldun hælisleitenda hingað fyrstu 8 mánuði þessa árs! - kostnaður á 2. tug milljarða

779 voru umsóknirnar 1/1-31/8, en 385 á sama tíma í fyrra. Fyrstu 18 daga í sept. eru þeir 59. Ákvörðun stjórnvalda að gefa tveimur albönskum stór­fjöl­skyldum íslenzk vega­bréf hleypti skriðu af stað, jafnvel Bjarni Ben. er farinn að viður­kenna það, en ber þó fulla ábyrgð á þessu. En hann fekk aldeilis að heyra það á fundi Sambands eldri sjálf­stæðis­manna daginn áður en ríkis­stjórnin sprakk, að flokkurinn hefði farið illa að ráði sínu: 

„Þór Whitehead, sagnfræð­ingur, steig fram og sagði að „hælisleitenda­straumurinn“ stafi að stórum hluta af ákvörðun fyrrverandi innanríkis­ráðherra Sjálfstæðis­flokksins um að afturkalla ákvörðun Útlendinga­stofn­unar um að neita fjölskyldu frá Albaníu landvist. Fiskisagan hafi flogið um að Íslendingar væru reiðubúnir að opna sitt land. „Í þessum löndum ríkir engin neyð. Þessi ákvörðun er ákvörðun Sjálfstæðis­flokksins. Hún hefur ýtt undir þennan straum sem er að kosta ríkisstjórnina sjö milljarða,“ sagði Þór* og bætti við að „því miður“ hafi í tíð Bjarna bæði Icesave-málið og ESB-málið skaðað Sjálfstæðisflokkinn. „Ég óttast að haldi flokkurinn áfram á þessari braut skaði hann þjóðina og sjálfan sig,“ bætti hann við. (Mbl.is, feitletrun JVJ.)

En þrátt fyrir að Sjálfstæðis­flokkurinn sé farinn að vakna til málsins og tveir ráðherrar hans, Bjarni og Sigríður Andersen, byrjuð að snúa við blaðinu, þá eru Útlendingalögin enn þau sömu og ekki aðeins það, heldur eru vinstri flokkarnir með "Viðreisn" nú farnir að stefna að enn frekari "líberalíseringu" á þeim lögum, eins og þau væru ekki nógu slæm fyrir! Ætla flokkarnir að bera fram frumvarp um það mál á þessum fáu dögum sem eru eftir til kosninga. Og einna harðasti maðurinn á þessu er Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra Viðreisnar, eins og útgjalda­liðir hans ráðuneytis séu ekki ærnir fyrir! En strax daginn eftir að fréttir bárust af reglugerðar­breytingu Sigríðar Andersen dóms­málaráðherra, gekk Þorsteinn fram með þveröfuga tilkynningu um meiri smugur fyrir hælisleitendur til að geta verið hér von úr viti og um tilheyrandi fjáraustur í það!

Þetta kemur einnig í kjölfar þrýstings frá litlum, ekki alþjóðlegum hópi, sem kallast "UNICEF á Íslandi" og hljómar eins og útibú frá Sameinuðu þjóðunum, en í stjórn þar eru eintómir Íslendingar og undir formennsku ... gamla krata­þingmannsins Guðrúnar Ögmundsdóttur! Sú hin sama heldur hér einnig uppi markvissri öfgastefnu gegn ófæddum börnum, enda verið formaður útibús Inter­national Planned Parenthood á Íslandi, en það eru mestu fósturvígssamtök heims og fengu 100 milljónir dollara árlega frá Obama-stjórninni til þess, en Trump forseti var ekki seinn á sér að skrúfa fyrir þann fjáraustur. Nú keyrir Guðrún hins vegar á það, að hér verði frjálst hægt að drepa ófædd börn til loka 5. mánaðar meðgöngu og kallar það kven­réttindi! Merkilegt nokk gleypti allur Sjöflokkurinn jánkandi þá tillögu hennar, þegar málið var rætt á Alþingi 27. marz sl. EINI flokkurinn sem berst gegn þessu er Íslenska þjóðfylkingin.

En vinstri flokkarnir keyra á þetta hælisleit­endamál, ekki sízt "Björt fortíð" og "Viðreisn", og virðast halda að endalaust séu til peningar í þennan útgjaldalið, á sama tíma og öryrkjar og aldraðir eru vanræktir og gengið milli bols og höfuðs á sauðfjár­bændum og ofursköttum bætt við á landbyggðar­fólk í formi "kolvetna­gjalds"! Og það hentar að geta flaggað virðulega útlítandi nafni stofnunar eins og "UNICEF á Íslandi", sem er þó ekkert óskeikulli en gamla rauðsokkan (herskái femínistinn) sem þar trónir sem formaður! 

Á líka lund er stefna 365 miðla og Fréttablaðsins skv. leiðara Magnúsar Guðmundssonar ritstjórnarfulltrúa, sem sagði, að "kannski ætti það að vera reglan fremur en undantekningin" að "láta mannúðarástæður ráða för". En með því móti værum við ekki bara að bjóða hingað þúsundum og tugþúsundum manna, heldur margfalt fleira fólki.

Á sama tíma er fyrrverandi formaður bræðraflokks Samfylkingarmanna í Bretlandi, Tony Blair, að leggja til, í ljósi reynslunnar (sbr. hliðstæðar breytingar í Skandinavíu), að innflytjendalög þar verði þrengd. Íbúar Bretlands eru nú tæpar 65 milljónir. En vinstri flokkarnir íslenzku, Fréttablaðið og ugglaust fréttastofa Rúv vilja, að hér, í rúmlega 300.000 manna smáríki, "ráði mannúðar­ástæður för" í þessum málum, og því er lagt til að setja lög gegn ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurðarnefndar kærumála, úr því að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra féllst ekki á að misbeita valdi sínu gegn löglegum ákvörðunum nefndra stofnana, sem falið var þetta vald.

Jafnvel ýmsir íslenzkir þingmenn, sem ættu að vita betur, keyra blint af augum á þetta mál, en ættu að spyrja sjálfa sig ærlegrar spurningar: Er eins og hálfs árs viðvera hér á landi og vinátta við nágranna/skóla- eða vinnufélaga nægileg til að gefa fjölskyldum viðvarandi búseturétt hér og í kjölfarið ríkisborgararétt? Er það það sem menn vilja segja: að við eigum að búa til undantekningar um öll slík tilfelli? Ekki hafði undirritaður og hans fjölskylda slíkan rétt á þeirra tæpu fjórum árum í Bretlandi. Vita menn um nokkurt land, sem býður öllum útlendingum slíkan rétt?

Svo var þetta ekki bara spurning um tvær stelpur, ekki um að aðskilja þær frá fjölskyldum sínum, og ekki um þau ein í tveimur fjölskyldum (alls 6 manns þar) skv. einhverri geðþótta-ákvörðun, heldur alla í sambærilegri stöðu. Og ekki eru stúlkurnar í neinni lífshættu, sem betur fer.

RÚV-FRÉTTIN:
"Á fyrstu átta mánuðum ársins hafa borist 779 umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. Það eru tvisvar sinnum fleiri en bárust á sama tímabili í fyrra þegar umsóknirnar voru 385.

Á vef Útlendingastofnunar segir að fjölgunin á milli ára bendi til þess að umsóknir um alþjóðlega vernd verði fleiri á þessu ári en því síðasta. Umsóknir það sem af er september eru 57.

154 einstaklingar sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi í ágúst síðastliðnum. Það er töluverð aukning frá síðasta ári en í ágúst í fyrra voru umsóknirnar 67 talsins.

Rúmur helmingur þeirra einstaklinga sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi í ágúst eru georgískir ríkisborgarar, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Umsækjendur í ágúst voru af 22 þjóðernum, flestir komu frá Georgíu, 89 talsins og 14 frá Albaníu. Fimm umsóknir bárust frá rússneskum ríkisborgurum. 85 prósent umsækjenda voru fullorðnir og 15 prósent yngri en 18 ára.  

Niðurstaða fékkst í 94 mál í ágúst. 20 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar og voru átta mál afgreidd í forgangsmeðferð. 7 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. 67 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.

13 þeirra 20 mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með ákvörðun um synjun og sjö með ákvörðun um veitingu verndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak, fimm talsins, en flestir þeirra sem var synjað eru frá Albaníu, 10 talsins." (Ruv.is)

 

* Heildareyðsluféð í hælisleitendur á þessu ári er þó í reynd miklu meira en sjö milljarðar, þegar allt er talið með, útgjöld a.m.k. þriggja ráðuneyta, Trygginga­stofnunar ríkisins, Sjúkra­trygginga Íslands og heils hers af lögfræð­ingum og öðrum þjónustu­aðilum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is UNICEF: Breyta þarf útlendingalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað finnst þér um þetta ?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/09/20/ritadi_island_undir_mynd_af_riki_islams_2/

það kemur fram þessa :

Mynd tengd Ríki íslams á Face­book

Svo­kallað ógn­ar­mat fór fram hjá embætti Rík­is­lög­reglu­stjóra vegna hans þar sem óskað var eft­ir upp­lýs­ing­um frá er­lend­um lög­gæslu­stofn­un­um. Við gerð mats­ins kom í ljós að maður­inn hafði birt mynd á Face­book-síðu sinni 1. ág­úst síðastliðinn tengda hryðju­verka­sam­tök­un­um Ríki íslams og ritað Ísland und­ir mynd­ina.

Hótaði for­eldr­um sín­um

Einnig kom þar fram að maður­inn hafði villt á sér heim­ild­ir með því að leyna eft­ir­nafni sínu við ís­lensk yf­ir­völd.

Hann hafði gefið upp nokk­ur mis­mun­andi nöfn og út­gáf­ur af nafni sínu og annað fæðing­ar­ár, meðal ann­ars í Nor­egi, Belg­íu, Hollandi og Frakklandi.

-----------------------------------------------------------------------

Er það þessa fíflum sem vinstri fólk vill sleppa inn ?

Merry (IP-tala skráð) 20.9.2017 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband