Öryggismál almennings gagnvart hryðjuverkahættu færast í skárra horf en áður, en betur má, ef duga skal. Úrtöluhjal vinstri manna á ekki að stýra för!

Þetta á þjóðarör­ygg­is­ráð, sem kemur öðru sinni saman í dag, að vita, m.a. að auka þarf fjárveitingar til lögreglu vegna þeirra nauðsynlegu ráðstafana sem hafnar eru til að tryggja hér öryggi, eins og sást í þremur ólíkum aðgerðum lögreglu um helgina, en full þörf verður á með ítrekuðum hætti næstu mánuði og misseri.

Að kalla út 120 manna lögreglulið á vakt, eins og gert var í gærkvöldi til öryggisgæzlu 10.000 áhorfenda við landsleik Íslands og Króatíu, er meðal kostnaðarmeiri aðgerða, og nokkuð hliðstæð var gæzlan við Litahlaupið í fyrradag, auk þess sem hindrunum var komið fyrir til að tryggja svæðið. En vegna sjómannadags-hátíðahalda á Grandagarði í gær, sem margir tóku þátt í og fóru hið bezta fram, var gengið svo vel frá málum með lokun götunnar báðum megin frá, að þar þurfti ekki lögreglulið á staðinn; en björgunar­sveita­menn voru á svæðinu og fleiri til eftirlits.

Vinstri græn eru á grunni sinnar meintu friðarhyggju farin að hnýta í yfirstjórn lögreglu og stjórnvöld vegna þessara ráðstafana, sem Katrín Jakobsdóttir telur t.d. að hefði átt að tilkynna almenningi um fyrir fram. En þeir, sem mættu á svæðin, upplifðu fremur öryggistilfinningu en óþægindi af návist okkar ágætu löggæzlumanna.

Fráleitur málflutningur um þessi mál birtist í leiðara Fréttablaðsins í dag, í grein eftir menningarblaðamanninn Magnús Guðmundsson. Það verður ekki af þeim skafið vinstri mönnum á Íslandi, að þeir hafa lengi óraunsæir verið og ábyrgð­ar­lausir í varnar- og öryggismálum, og þarna birtust skýr dæmi þess.

Engin ástæða er til að ætla, að á Íslandi sé fyrir fram útilokað að hryðjuverk geti átt sér stað. Kæmust illræðis­menn ISIS eða annarra hryðju­verka­samtaka á snoðir um, að hér væru litlar sem engar varnir gegn árásum á almenning og lykil-samkomustaði, þá væri viðbúið, að þeir gætu gengið á lagið. Öryggis­keðjan í vörnum Vesturlanda er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn, og fyndu óvinir vestrænnar kristni, samfélags og menningar, að hér væri einn veikasti hlekkurinn, ættu þeir fullt færi á að nýta sér það, með allt það ferðafrelsi og miklu umferð til landsins, sem hér ríkir, og jafnvel í krafti þess að geta laumað liðs­mönnum öfga­samtaka til landsins undir yfirskini flótta frá stríðs­ástandi og/eða hælis­leitar vegna bágbor­inna kjara í heimalandinu. Má þar hafa hugfast, að af báðum þeim svæðum er helzt "von" múslima, en eins og kunnugt er, eru yfir 80% hryðjuverka í heiminum á þessari öld framin af meðlimum múslima­safnaða af ýmsu tagi. En jafnframt er vitað, að á síðustu tímum hafa hryðju­verkamenn beitt ýmsum óhefð­­bundnum "vopnum", tiltækum í flestum löndum, í baráttu sinni gegn Vestur­landa­mönn­um, og enn gæti sú barátta þeirra harðnað með ófyrir­leitnum vopnum. Á enginn Íslendingur með sjálfsvirðingu að stuðla að því, að færi verði gefið á almenningi með ákvörðunum byggðum á óraunsæi, óskhyggju og andvaraleysi.

Við eigum m.a. að nýta okkur aðildina að NATO til að varnar­bandalagið leggi fram bæði tækjabúnað, sem okkur kann að vera nauðsynlegur, þjálfun lögreglu­manna til að fyrirbyggja og glíma við hryðjuverk og aðgang að gagna­bönkum þeirra aðildar­þjóða sem skráð hafa grunsam­lega einstaklinga, en á móti getum við miðlað upplýs­ingum til baka, ef einhverjir þeirra eiga leið hér um, og mun það síðastnefnda reyndar nú þegar í gangi með virkum hætti að einhverju leyti (sbr. hér). FRH.

PS.  Skoðanakönnun stóð yfir á vef Útvarps Sögu um helgina og niðurstaðan birt nú í hádeginu. Þar var spurt: Ertu andvíg/ur vopnaburði lögreglu? NEI sögðu 81,43%. JÁ sögðu 16,43%, en hlutlaus voru 2,14%. Þetta styður í raun þær aðgerðir, sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greip til nú um helgina.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaröryggisráð fundar í Keflavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband