Orðræða um sjómannaverk­fallið sem er hvorki við hæfi né ábyrg

Það er rangt hjá Þorgerði Katrínu, ráðfrú sjáv­ar­útvegs­mála, að laga­setn­ing til að stoppa verk­fallið sé "óheppileg" og "ein­fald­lega að pissa í skó­inn okk­ar." Þvert á móti er það aug­ljós skylda ríkis­valdsins að grípa inn í, í 1. lagi þúsunda verklausra manna vegna, þegar ekki hefur náðst nein sátt í viðræðum deilu­aðila, og í 2. lagi vegna ugg­laust betri mál­staðar sjómanna, sem útgerðar­menn þvinga til að borga fyrir allan sinn dýra vinnu­fatnað, þótt endingar­tíminn sé skammur, einnig vegna dagpeninga sjómanna, sem þeir borga skatt af, ólíkt dagpeningum alþingismanna! - og ennfremur vegna þess að Alþingi og ríkis­stjórn tók sjómanna­afsláttinn af þessari stétt manna sem við lengstu fjarvistir býr frá fjölskyldum sínum, leggur manna mest til samfélagsins í formi skatta, án þess að geta notað samgöngur og aðra samfélagsþjónustu í sama mæli og aðrir skattgreiðendur, og býr ennfremur við skemmri starfsævi að meðaltali en aðrar stéttir vegna vinnuálags og slysahættu.

Ríkisstjórn SA-manna, SI-manna, FA-manna og útgerðar­manna er bersýnilega ekki "kjörin" til þess að standa með málstað sjómanna, þótt margir hafi þeir eflaust glapizt á að styðja einhverja þeirra þriggja flokka sem að henni standa.

Þor­gerður biðlaði þá til deiluaðila að fara inn í vik­una með það í huga að semja og binda enda á verk­fallið. „Ég hvet menn til að hverfa frá þeim hugs­un­ar­hætti að ríkið komi að deil­unni með sér­tæk­um aðgerðum.“ (Mbl.is)

Þetta ábyrgðarlausa blaður hennar gefur sjómönnum ENGA VON, bara puttann!

Þvert á móti stefnu Sjálfstæðisflokks, "Viðreisnar" og viðhengis þeirra stendur Íslenska þjóðfylkingin með sjómönnum í þesari deilu og hefur margítrekað sett fram kröfuna um 5-6% sjómannaafslátt. Ásamt kröfu okkar um að útgerðin borgi vinnugalla sjómanna, myndi þetta nægja til að höggva á þennan verk­fallshnút, sem veldur sjómönnum og fiskvinnslu­fólki milljarða skaða í töpuðum launum, sviptir sjávar­útveginn og landið gífurlegum gjaldeyris­tekjum og ríkis­sjóð ómældum skatttekjum. Ríkið á allan hag af því, að hjól og skrúfur þessarar atvinnugreinar fari að snúast sem fyrst og skipin að stefna úr höfn á miðin.

Að Þorgerður Katrín, sem stökk aftur inn í pólitík úr hálauna-starfi fyrir atvinnurekendur, sýnir þessu engan skilning, er ekki gæfulegt fyrir traust á henni meðal kjósenda, sem geta spurt sig, til hvers hún hafi aftur farið inn á vettvang stjórnmála. Henni nægir ekki til að vinna upp tiltrú á sér að flytja skrifstofu ráðuneytis síns nokkra daga til Ísafjarðar! Menn láta ekki blekkjast af slíkri yfir­borðs­mennsku.

Vilhjálmur Vilhjálmsson í HB-Granda var í löngu opnuviðtali í Viðskipta-Mogganum nú í vikunni og er þar sérstaklega að verja það, að útgerðin fái um 30% í sinn hlut utan skiptaprósentu, af því að þetta þurfi til að dekka kostnað útgerðarinnar. En þá ættu útgerðarmenn að sýna sóma sinn í því að borga fyrir vinnufata- og hnífakostnað sjómanna. Ríkið getur svo komið til móts við deilu­aðila með því að afnema skattheimtu af dagpeningum og endurvekja sjómanna­afsláttinn, sem þeir eiga svo sannarlega skilinn. Það er auðvelt að réttlæta það með því að benda t.d. á, að norska ríkið greiðir miklar fúlgur í styrki til útgerðarfyrirtækja þar í landi.

En ætla þessir hægriflokkar sér að verða frægir að endemum: að spilla fyrir trausti á Íslandi og langtíma-markaðsuppbyggingu erlendis með því að rýna bara í naflann á sér og fara með sínar frjálshyggju-þulur?!

Leysið verkfallið strax, það er auðvelt, ef og þegar viljinn er til staðar!

Séu stjórnvöld stöð og þver í málinu eins og Þorgerður Katrín, verður að auka þrýsting á þau og opinskáa gagnrýni sem flestra. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í því efni, félagar í Íslensku þjóðfylkingunni. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Eins og að pissa í skóinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband